Home / Fréttir / Kim Jong-un sagður heilsulaus – systir hans til valda?

Kim Jong-un sagður heilsulaus – systir hans til valda?

Systkinin Kim Jong-un og Kim Yo-jong.
Systkinin Kim Jong-un og Kim Yo-jong.

Bandaríkjastjórn hefur undir höndum trúnaðarupplýsingar sem sagðar eru gefa til kynna að ofurleiðtogi Norður-Kóreu, Kim Jong-un sé „í mikill hættu eftir uppskurð“ segir í frétt CNN. Sjónvarpsfréttastöðin vitnar í „bandarískan embættismann með beinan aðgang“ að upplýsingum.

Í Asia Times þriðjudaginn 21. apríl segir að ekki hafi fengist nein opinber staðfesting á þessum frásögnum. Þegar Bloomberg News fylgdi fréttinni eftir var vitnað til ónafngreindra bandarískra embættismanna sem sögðu að starfsmönnum bandaríska forsetaembættisins hefði verið sagt að Kim hefði hrakað eftir skurðaðgerð í fyrri viku og hefði líðan hans verið lýst sem alvarlegri. Bloomberg áréttaði jafnframt að Bandaríkjastjórn vissi ekki hvernig Kim hefði það núna.

Bæði CNN og Bloomberg reistu fréttir sínar á frásögn á vefsíðunni Daily NK í Seoul, fréttasíðu sem styðst í fréttaöflun sinni við upplýsingar frá flóttamönnum með tengsl inn í Norður-Kóreu. Á síðunni var vitnað til heimildarmanns sem sagði að Kim hefði gengist undir „bráða“ hjartaskurðaðgerð sunnudaginn 12. apríl í sjúkrahúsi nálægt einu af mörgum glæsihúsum hans.

„Ofreykingar, offita og þreyta urðu beint til þess að gera varð bráða-hjartaaðgerð á Kim,“ er haft eftir ónafngreindum heimildarmanni á Daily NK. Hann væri að „ná sér“ í umsjá lækna í Hyangsan-glæsihúsi sínu í nágrenni við Myohyang-fjall fyrir norðan höfuðborg N-Kóreu, Pyongyang.

Heimildarmaðurinn „gat sér þess til“ að aðgerðin hefði verið framkvæmd í Hyangsan-sjúkrahúsinu. Daily NK segir það aðeins fyrir Kim-fjölskylduna.

„Læknir frá Kim Man Yoo sjúkrahúsinu í Pyongyang er sagður hafa gert hjartaskurðaðgerðina á Kim með læknum frá Almenna Rauða kross-sjúkrahúsi Kóreu og læknaháskólanum í Pyongyang sem sinna almennt læknisverkum sem snerta leiðtoga Norður-Kóreu,“ sagði í Daily NK.

Þá sagði einnig á vefsíðunni: „Sagt er að flestir læknanna hafi snúið aftur til Pyongyang eftir að talið var að líðan Kims væri stöðug eftir aðgerðina. Aðeins fáeinir læknar urðu eftir hjá Kim til að fylgjast með honum sagði heimildarmaður Daily NK.“

Þessi setning er talin til marks um að líðan Kims kunni að hafa breyst eftir að nokkrir læknanna fóru til Pyongyang og/eða eftir að Daily NK ræddi við heimildarmann sinn, bandaríska leyniþjónustan hafi fengið nýja vitneskju  um breytt ástand sjúklingsins.

Daily NK segir að fyrir utan læknana sem enn sinni Kim séu „um 30 menn úr einkavarðsveit Kims auk annarra varðliða sagðir á vakt við Hyangsan- glæsihúsið. Varðliðar á vakt við húsið áður en Kim kom þangað eru sagðir hafa verið fluttir annað í bili.“

Efasemdir

Talsmaður forsetaskrifstofu Suður-Kóreu sendi frá sér yfirlýsingu skömmu eftir að fyrstu fréttir um aðgerðina á Kim birtust. Þar sagði: „Ekkert í okkar höndum staðfestir neitt og til þessa hefur ekki orðið vart við að eitthvað sérstakt sé á seyði í Norður-Kóreu.“

Nokkru síðar þirðjudaginn 21. apríl sagði forsetaskrifstofan í skriflegri orðsendingu til erlendra fréttaritara að Kim væri „með aðstoðarmönnum sínum“ og sinnti „störfum sínum eins og venjulega“. Ekki var þó minnst einu orði á heilsu Kims né getið um heimildina að baki tilkynningunni.

Sameiningarráðuneyti Suður-Kóreu sem fer með tengslin við Norður-Kóreu og varnarmálaráðuneytið vildu ekkert segja og Moon Chung-in, öryggisráðgjafi forseta Suður-Kóreu, Moon Jae-in, sagði AFP-fréttastofunni að hann hefði ekki heyrt neitt um heilsufarið á Kim.

Thae Yong Ho, fyrrv. háttsettur stjórnarerindreki í Norður-Kóreu, sem í fyrri viku varð fyrstur landflótta N-Kóreumanna til að ná kjöri á þing Suður-Kóreu, lýsti efasemdum um efni frásagnanna.

„Farið er með ferðir og einkamál Kim-fjölskyldunnar sem ríkisleyndarmál og fréttir af fjölskyldunni berast jafnilla til almennings og háttsettra embættismanna,“ sagði hann í tilkynningu.

Rifjaði hann upp að Kim Jong-il, faðir Kims, andaðist 17. desember 2011 en meira að segja tveimur dögum síðar var eins og ekkert hefði gerst í utanríkisráðuneyti Norður-Kóreu. „Það kom öllum í opna skjöldu“ þegar andlátið var tilkynnt, sagði hann.

Vangaveltur

Þegar Kim sást síðast opinberlega stýrði hann fundi í stjórnmálanefnd Verkamannaflokks Norður-Kóreu laugardaginn 11. apríl.

Miklar vangaveltur um hann hófust þegar hann lét ekki sjá sig miðvikudaginn 15. apríl þegar haldið var upp á 108 ára afmæli afa hans, fyrsta forseta Norður-Kóreu, Kims Il-sungs.

Um það sagði Daily KN: „Að kvöldi mánudagsins [13. apríl] tilkynntu yfirvöldin allt í einu að mörgum viðburðum til heiðurs Kim Il-sung á afmælisdegi hans hefði verið aflýst.“ Þetta birtist 14. apríl á Daily NK og var haft eftir heimildarmanni í Ryanggang-héraði. Þá sögðu heimildarmenn Daily NK að fulltrúum héraða um land allt hefði verið sagt að horfa á sýningu í sjónvarpi síðdegis þriðjudaginn 14. apríl.

Í Norður-Kóreu er 15. apríl sjálfur dagurinn sem Kim Il-sung fæddist helsti hátíðisdagur þjóðarinnar. „Aðeins fámenn liðssveit lét sjá sig þegar fáni var dreginn að húni,“ sagði um athöfn afmælisdagsins.

Margt hefur árum saman verið sagt um heilsufar Jong-uns eftir að hann safnaði spiki til að líkjast afa sínum sem nýtur opinberlegra almennrar hylli. Þrátt fyrir að fitna hætti hann ekki að reykja.

Þegar hann hitti Donald Trump Bandaríkjaforseta á herlausa svæðinu milli Suður- og Norður-Kóreu 30. júní í fyrra var hann svo móður og másandi að allir heyrðu. Fréttamenn sem skömmu áður fylgdust með því þegar leiðtogar Suður- og Norður-Kóreu hittust í fyrsta skipti í sögunni árið 2018 undruðust þungan andardrátt Kims sem náðist á uppötkutæki þegar hann og Moon Ja-en forseti gengu saman upp fáeinar tröppur.

Anna Fifield, höfundur ævisögu Kims, segir að hann sé 1.70 m á hæð en um 136 kg að þyngd og því „akfeitur“.

Heilsuleysi

Gen Kims-fjölskyldunnar eru ekki séð góð. Þetta er augljóst þrátt fyrir að hún njóti bestu náttúrulyfja og vestrænir læknar séu kallaðir til landsins sé þess talin þörf.

„Hér er greinilega ekki um heilsuhrausta fjölskyldu að ræða,“ segir Sebastian Falletti, höfundur ævisögunnar La Piste Kim: Voyage au coeur de la Corée du Nord (Leið Kims: Ferð að hjarta Norður-Kóreu) við Asia Times. „Við vitum að hann glímir að líkindum við krónísk erfðaeinkenni.“

Afinn Kim Il-sung var með mikið kýli aftan á hálsinum eða bakinu – myndasmiðum var bannað að festa það á filmu – sumir segja að hann hafi dáið úr heilablóðfalli. Kim Jong-il, faðir Jong-uns, glímdi greinilega við sykursýki og hjartveiki og vegna heilsuleysis hvarf hann stundum í marga mánuði.

„Í ágúst 2008, tveimur áður en hann dó í dcesember 2011 fékk Kim Jong-il hjartaáfall og lá nokkrar vikur í dái,“ sagði Falletti. „Þá ríkti algjör þögn frá Norður-Kóreu. Við höfðum ekki hugmynd um það sem gerðist. Við fréttum af því frá frönskum lækni sem fór og rannsakaði hann í Norður-Kóreu.“

Sjálfur hvarf Kim Jong-un í nokkrar vikur árið 2014 vegna aðgerðar á fæti eða hæl. Þá var rætt hvort hann væri með þvagsýrugigt.

Einn sérfræðingur um málefni Norður-Kóreu og leyndarhyggjuna þar veltir fyrir sér sannleiksgildi frásagnanna sem nú berast frá landinu:

„Þetta eru mikilsverð ríkisleyndarmál og geti Daily NK aflað sér slíkra upplýsinga kann bandaríska leyniþjónustan að hafa náð í eitthvað spjall af samskiptaneti í Norður-Kóreu,“ segir Go Myong-hyun sem fylgist með norður-kóreskum málefnum í Asíustofnuninni í Seoul við Asia Times.  „Eða upplýsingar þeirra kunna aðeins að vera reistar á greininni í Daily NK.·“

Hugsanlegur arftaki

Ávallt hefur legið fyrir að Kim kynni að veikjast án þess að vitað væri hver tæki við af honum.

„Heilsufar leiðtoga í pýramída-stjórnkerfi eins og þessu skiptir geópólitísku máli, falli leiðtoginn frá hefur það áhrif á allt kerfið; það skapast hætta á tómarúmi,“ segir Falletti. „Það er Akkilesar-hæll kerfisins í Norður-Kóreu.“

Þarna er málum þó þannig háttað, að annar Kim er við hendina  – og ekki með öllu áhrifalaus: Kim Yo-jong.

Á laugardaginn var hún endurskipuð sem varamaður í stjórnmálaráð flokksins. Hún hafði sagt skilið við ráðið eftir að hafa mistekist að ná því fram sem hún ætlaði í samskiptum við Trump-stjórnina í Bandaríkjunum. Þeir sem kunnugir eru valdakerfinu í Pyongyang telja líklegt að hún kunni að erfa völdin.

„Þetta er kenningin um hvernig völdin erfast í Norður-Kóreu,“ segir Choi Jin-wook, fyrrverandi forstjóri Kóreustofnunarinnar um sameiningu og nú sérfræðingur um Norður-Kóreu við Hankook-utanríkismálaháskólann í Seoul. „Jafnvel þótt hún sé ekki karl vekti ekki undrun að hún settist næst í leiðtogasætið.“

 

Skoða einnig

Úkraínustjórn fordæmir erlenda „eftlrlitsmenn“ rússneskra svikakosninga á hernumdum svæðum í Úkraínui

Úkraínsk stjórnvöld hafa harðlega gagnrýnt kosningarnar sem efnt var til undir stjórn Rússa á hernumdum …