
Kim Jong-un, eimræðisherra Norður-Kóreu, hreykti sér af því í nýársávarpi sínu mánudaginn 1. janúar að hann hefði kjarnorkuhnappinn á skrifborði sínu og öll Bandaríkin væru innan skotmáls vopna hans – hann sagðist þó ekki gera árás nema sér yrði ógnað.
Kim lofaði að á nýju ári mundi hann helga sig framleiðslu kjarnaodda og eldflauga sem yrðu til taks. Hann mildaði þó einnig tóninn í boðskap sínum með því að lýsa vilja til að ræða við Suður-Kóreumenn, hann mundi íhuga að senda íþróttamenn á vetrar-ólympíuleikana sem verða í febrúar í S-Kóreu.
„Bandaríkjamenn geta aldrei háð stríð gegn mér eða ríki okkar,“ sagði einræðisherrann í sjónvarpsávarpi til þjóðar sinnar. „Þeir ættu að átta sig vel á því að allt bandarískt landsvæði er innan skotmáls kjarnorkuvopna okkar og kjarnorkuhnappurinn er alltaf á borði skrifstofu minnar, þetta er einfaldlega svona og í því felst engin hótun.“
Kim sagði að Norður-Kóreumenn væru friðelsk og ábyrg kjarnorkuþjóð, þeir mundu ekki grípa til kjarnorkuvopna sinna nema „óvinveittur árásarher“ réðist gegn fullveldi þeirra eða hagsmunum.
Sérfræðingar telja að stór orðs Kims séu meiri en hann geti staðið við með vopnum sínum. Það sé alls ekki ljóst að hann geti í raun sent kjarnaodda með langdrægum eldflaugum sínum. Hitt sé ljóst að skref hafi verið stigin að því marki á árinu 2017.
Suður-Kóreumenn hafa lagt áherslu á að þátttakendur í vetrar-ólympíuleikunum þurfi ekki að óttast um öryggi sitt þrátt fyrir hótanir frá Kim. Moon Jae-in, forseti Suður-Kóreu, hefur minnt á að væntanleg þátttaka Norður-Kóreumanna í leikunum, sýndi að ekkert væri að óttast og í ávarpi sínu gaf Kim til kynna að til þátttakan væri til skoðunar.
John Delury, prófessor í alþjóðastjórnmálum við Yonsei-háskólann í Seoul, segir að boðskapur Kims til stjórnvalda Suður-Kóreu gæfi „meiri von“ en hann vænti. Hann hefði ekki vænst þess að Kim mundi boða eitthvað sem gæfi Suður-Kóreumönnum tilefni til að árétta að ekkert væri að óttast á vetrarleikunum.
Sumir gruna Kim um græsku, hann vilji nota leikana til að reka fleyg á milli ráðamanna í Seoul og Washington.
Kim lét hjá líða að beina ókvæðisorðum að Donald Trump Bandaríkjaforseta. Voru það viðbrigði frá því sem þeim fór á milli á árinu 2017.