
Rússneski milljarðamæringurinn Mikhail Khodorkovskij staðhæfir að einmitt um þessar mundir gefist NATO gullið tækifæri. Grípi bandalagið það ekki breiðist stríðið inn í aðildarlönd NATO.
„Einmitt núna gefur NATO gullið tækifæri til að veita Úkraínumönnum aðstoð við að verja land sitt og fullveldi með því að leggja þeim lið með vopnum, tækjum og þjálfun hermanna þeirra. Þá geta bandalagsþjóðirnar komist hjá að berjast á eigin landi,“ sagði viðskiptajöfurinn Mikhail Khodorkovskij fimmtudaginn 23. júní við Euronews í sjónvarpssamtali í Brussel.
Euronews flytur efni á nokkrum tungumálum og fylgist náið með stríðinu í Úkraínu.
Mikhail Khodorkovskij var á sinni tíð leiðandi forystumaður í olíuvinnslu Rússa og átti margra ára samstarf með Pútin þar til hann var handtekinn og settur í fangelsi árið 2005. Pútin lét taka hann fastan en náðaði hann síðan árið 2013 og fór Khodorkovskij þá í útlegð. Hann hefur síðan helgað sig baráttunni fyrir frjálsu og lýðræðislegu Rússlandi.
Eftir margra ára samstarf við Pútin efast Khodorkovskij ekki um að Pútin gefi fyrirmæli um hertar hernaðaraðgerðir ráði hann yfir afli til þess.
„Ég lít á hann sem kaldrifjaðan mann sem vill tryggja sér sigur í næstu kosningum meðal annars með tilfinningalegum viðbrögðum sem mótast af vænisýki vegna þess sem gerist í nágrannaríki Rússlands,“ segir auðmaðurinn.
Hann bendir á að 1999, 2008 og 2014 hafi Pútin notað hernaðaraðgerðir og blóðsúthellingar til að afla sér vinsælda meðal almennings í Rússlandi. Í einangruninni vegna COVID-19 hafi hann fengið þá ranghugmynd að sér yrði fagnað með blómum sendi hann her inn í Úkraínu.
Pútin óttist lýðræðislega strauma í nágrannaríkjum Rússlands og þeim fjölgi þar sem vilji styrkja tengslin vestur á bóginn. Úkraínumenn hafi stefnt að NATO-aðild en kjósi nú að verða formlegur umsækjandi að ESB. Finnar hafi sótt um aðild að NATO.
Mikhail Khodorkovskij hefur enga trú að binda megi enda á stríðið við samningaborðið. Hann óttast að vestrænir ráðamenn kunni að ganga í dauðagildru.
„Evrópskir stjórnarleiðtogar ímynda sér enn að þeir geti samið við Pútin án þess að sýna honum fyrst í tvo heimana. Það yrðu mikil mistök því að hann er ekki sá þjóðhöfðingi sem þeir halda, hann er glæpamaður. Og sé glæpamaður sem telur sig hafa sterka stöðu beðinn um að gefa eftir reynir hann einfaldlega að gera út af við fórnarlamb sitt,“ sagði auðmaðurinn.