Home / Fréttir / Trump segir Khashoggi allan og málið sé eitt hið versta í forsetatíð sinni

Trump segir Khashoggi allan og málið sé eitt hið versta í forsetatíð sinni

 

Mohammad bin Salman
Mohammed bin Salman

 

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði fimmtudaginn 18. október að hann teldi Sádann Jamal Khashoggi allan og sagðist treysta á trúnaðarupplýsingar úr mörgum áttum sem gæfu til kynna að hann hefði verið myrtur að fyrirlagi háttsettra manna í Sádí-Arabíu.

Í The New York Times (NYT) segir að forsetinn hafi ekki gengið svo langt að segja að Mohammed bin Salman, krónprins Sádí-Arabíu, beri ábyrgð á dauða Khashoggis. Forsetinn viðurkenndi hins vegar að ásakanir um að prinsinn hefði gefið fyrirmæli um aftökuna vektu djúpar spurningar um bandalag Bandaríkjamanna við Sáda og kveiktu einn alvarlegasta vanda á sviði utanríkismála sem upp hefði komið í forsetatíð sinni.

„Þetta hefur því miður vakið heimsathygli,“ sagði Trump við blaðamenn NYT í stuttu samtali í forsetaskrifstofunni. „Þetta er ekki jákvætt. Ekki jákvætt.“

„Ég viðurkenni að hann sé látinn nema kraftaverk allra kraftaverka verði,“ sagði Trump. „Allt bendir til þess – trúnaðarupplýsingar úr öllum áttum.“

Skömmu eftir samtalið ítrekaði Trump á Andrews-flugvelli að hann teldi Khashoggi allan og sagði „þetta er slæmt, slæmt mál og afleiðingarnar verða alvarlegar“.

Blaðamenn NYT ræddu við forsetann eftir að Mike Pompeo utanríkisráðherra hafði gefið honum skýrslu um ferð sína til Sádí-Arabíu og Tyrklands. Í ferðinn lagði Pompeo sig fram um að fá upplýsingar frá embættismönnum beggja landa um örlög Khashoggis, sem bjó í Virginiu-ríki í Bandaríkjunum og skrifaði dálka í The Washington Post. Hann hvarf eftir að hann fór inn í ræðisskrifstofu Sáda í Istanbúl 2. október sl.

Pompeo sagði fimmtudaginn 18. október að Bandaríkjastjórn mundi veita Sádum nokkurra daga frest til að ljúka rannsókn sinni.

Hér er birt í íslenskri þýðingu grein af bandarísku vefsíðunni The National Interest um afleiðingar þess fyrir Sádí-Arabíu að stjórnvöld þar eru sökuð um að hafa drepið Jamal Khashoggi í ræðisskrifstofu þeirra í Istanbúl.

Höfundur greinarinnar er Gil Barndollar, forstjóri deildar um Miðausturlanda-rannsóknir í Miðstöð National Interest. Hann var í landgönguliði Bandaríkjahers 2009 til 2016 í Afganistan, Georgíu, Guantanamo-flóa og Persaflóa.

Örlög blaðamannsins Jamals Khashoggis frá Sádi-Arabíu fyrir rúmum tveimur vikum hefur varpað skugga á goðsögnina um Mohammed bin Salman (MbS). Eftir að hafa tekið áhættu og misstigið sig í þrjú ár bæði á heimavelli og erlendis kann krónprins Sádi-Arabíu loks að hafa kallað yfir sig alvarleg vandræði vegna grunsemda um aðild hans að greinilegri handtöku og dauða Khashoggis.

Khashoggi fór inn í ræðismannsskrifstofu Sáda í Istanbúl 2. október til að ná í skjöl til að geta kvænst tyrkneskri unnustu sinni. Hann hefur ekki sést síðan. Tyrkir saka 15 manna hóp Sáda um að hafa myrt Khashoggi, þeir hafi beitt beinsög til að saga lík hans í búta og smyglað líkamsleifunum til Sádi-Arabíu. Tyrknesk yfirvöld segjast hafa afhent Bandaríkjamönnum hljóð- og myndupptökur sem sýni þegar Khashoggi var pyntaður og drepinn. Stjórnvöld í Sádi-Arabíu höfnuðu þessum ásökunum fyrst með veikum og ólíkindalegum rökum. Sagt er að þau búi sig nú undir að játa að hann hafi verið drepinn „í yfirheyrslu sem fór úr böndunum“.

Atvikið hafði strax áhrif í Bandaríkjunum en stjórnvöld þar hafa haldið verndarhendi yfir Konungsríkinu (e. the Kingdom) síðan 1945. Bandarískir stjórnmálamenn sem jafnan styðja Sáda lofa að komast til botns í málinu. Lindsey Graham, öldungadeildarþingmaður repúblíkana og stuðningsmaður Sádi-Arabíu og langt árabil, sagði að morgni þriðjudags 16. október að MbS hefði gefið fyrirmæli um morðið á Khashoggi og niðurstaða hans var „hann verður að fara frá“. Marco Rubio öldungadeildarþingmaður sem jafnan gefur til kynna hvernig vindurinn blæs í utanríkismálum hjá repúblíkönum sagði að ekki væri unnt að láta eins og „ekkert hefði í skorist“ í samskiptum Bandaríkjamanna og Sáda. Þá hét Donald Trump forseti að gripið yrði til „þungrar refsingar“ þótt hann boðaði strax fyrirvara í því efni.

Hugsanlega verða afleiðingarnar í efnahagsmálum miklu alvarlegri. Mohammed bin Salman hefur lýst „Vision 2030“ sem höfuðmarkmiði sínu. Í þessari framtíðarsýn felst gífurlegt efnahagslegt átak til að losa þjóðarbúskap Sáda undan ofurvaldi olíunnar. Hann og flestir í forystusveit Sáda vita að ekki verður lengra haldið á sömu braut í landi þeirra. Eyðslusemi og sóun í Sádi-Arabíu samhliða því sem borgurum landsins er mútað með styrkjum og launum af olíugróðanum gengur ekki til lengdar. Í fyrra nam fjárlagahalli Konungsríkisins 52 milljörðum dollara, það er 7,3% af vergri landsframleiðslu. Niðurbrot og aðrar tæknilegar framfarir boða endalok ofurverðs á olíu og áhyggjur af loftslagsbreytingum hvetja þjóðir til að spara orku. Rifjuð eru upp orð sem Ahmed Zaki Yamani, fyrrv. olíuráðherra Sáda, sagði á OPEC-fundi: „Steinöldin rann ekki sitt skeið af því að okkur skorti steina.“

Í „Vision 2030“ er að finna alls kyns verkefni en þau eru næstum öll reist á alþjóðlegri sérþekkingu og fjármögnun. Áform stjórnvalda Sáda eru að fjárfesta 500 milljarða dollara í nýrri borg sem kennd er við Neom, þau geta það þó ekki ein. Sádar segja að bein erlend fjárfesting hafi aukist um 40% fyrsta ársfjórðung 2018 – er þá miðað við lægsta stig erlendrar fjárfestingar í 14 ár. Horfið var ótímabundið frá boðuðu útboði á hlutabréfum í ríkisolíurisanum Aramco, hafði hlutafjárútboðinu verið lýst sem stærsta útboði sögunnar.

Strax blasa við táknærnar afleiðingar hvarfs Khashoggis fyrir Sádí-Arabíu. Forystumenn í viðskiptalífi heimsins forðast nú samskipti við Konungsríkið en strax á árinu 2017 fengu þeir viðvörun um að ekki væri allt með felldu þegar MbS ákvað að fangelsa og lítillækka ýmsa auðugustu fjárfesta landsins.  Í næstu viku verður efnt til þess í Riyadh sem á ensku er kallað „Davos in the Desert“ það er fundar um framtíðarfjárfestingar. Frá því að Khashoggi hvarf hafa fyrirmenni í viðskiptaheiminum á borð við Sir Richard Branson hjá Virgin, Jamie Dimon, forstjóra J.P. Morgan Chase, Laurence Fink, forstjóra BlackRock og Dara Khosrowshahi, forstjóra Uber, hætt við þátttöku. [Sömu sögu er að segja um Steven Mnuchin, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, Liam Fox, viðskiptaráðherra Breta, fjármálaráðherra Hollands og Frakklands og Christine Lagarde, forstjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.] Þá senda fjölmiðlar á borð við Bloomberg, CNN, New York Times og Financial Times ekki blaðamenn á fundinn.

Aðeins fáeinir mánuðir eru frá því að frásagnir af MbS og Sádí-Arabíu voru á allt annan veg. Vegna háleitra markmiða sinna í efnahags- og félagsmálum og vegna táknrænna umbóta eins og að veita konum ökuréttindi var talað lofsamlega um MbS sem einskonar arabískan Atatürk. Okkur var sagt að hann væri að toga konungdæmið inn í 21. öldina þjóð sinni og heiminum öllum til hagsbóta. Thomas Friedman [dálkahöfundur The New York Times] bar lof á hann og hann hitti Jess Bezos hjá Amazon, Sergey Brin og Sundar Pichai hjá Google og Tim Cook hjá Apple. Rubert Muerdoch bauð honum í kvöldverð. Lloyd Blankfein hjá Goldman Sachs átti fund með MbS og sagði síðan frá stuðningi sínum við krónprinsinn á Twitter.

Staðreynd er að frá því að MbS komst til valda eftir skammvinn innri átök hefur hann átt frumkvæði að alls kyns illa ígrunduðum uppátækjum á alþjóðavettvangi. Sádar leiða stríðið í Jemen þar sem staðið hefur blóðugt þrátefli síðan 2015 sem líklega hefur kostað Konungsríkið meira en 100 milljarða dollara. Saad Hariri, forsætisráðherra Líbanon, var haldið föstum í Riyadh og hann neyddur til að biðjast lausnar, atvikið þótti skrýtið og tilgangslaust. Einangrun Qatar hefur ekki skilað neinu öðru en því að hrekja auðugt samstarfsríki innan Persaflóasamstarfsráðsins nær Tyrkjum og Írönum. Nýleg deila stjórnar Sádí-Arabíu við stjórn Kanada er í ýmsu tilliti mesta fljótræði hennar á alþjóðavettvangi. Eftir tiltölulega milda gagnrýni á stöðu mannréttinda undir stjórn Sáda ráku þeir sendiherra Kanada úr landi, frystu öll viðskipti og felldu niður styrki til 16.000 námsmanna frá Sádí-Arabíu í Kanada.

Að hafa tekið Khashoggi fastan og drepið hann á þann hátt sem sagt er að hafi gerst sýnir nýja fífldirfsku af hálfu Sáda. Hvort sem um þaulhugsaða ráðagerð var að ræða eða viðbrögð við kynningu Khashoggis á nýjum hópi, Lýðræði fyrir arabaheiminn núna, ber aðgerðin vott um einstakt dómgreindarleysi. Þrátt fyrir ferð sína til Bandaríkjanna og samtöl sín klukkan fjögur að morgni við Jared Kushner [tengdason Trumps] skilur MbS greinilega ekki bandarísk stjórnmál eða áttar sig ekki á afleiðingum þess að drepa dálkahöfund The Washington Post sem var vinur margra bandarískra fjölmiðla- og stjórnmálamanna. Nú hefur Mohammed bin Salman stofnað stórbrotinni framtíðarsýn sinni í hættu til að þagga niður í hófsömum gagnrýnanda.

Ólíklegt er að í raun rofni samband Bandaríkjanna og Sádí-Arabíu. Bandaríkjamenn hafa lagt of mikið undir hjá Sádum og Sádar hafa lagt of mikið undir hjá Bandaríkjamönnum. Opinber fjárfestingarsjóður Sádí-Arabíu „á eitt stærsta ávísanahefti í Silicon Valley“ með 90 milljörðum dollara í tækni líðandi stundar og til framtíðar í Vison-sjóðum SoftBank. Bandaríkjamenn geta beitt sér af miklum þunga gagnvart Sádum vegna vopnasölu. Ólíklegt er að þeir geri það.

Líklegast er að niðurstaðan verði sú þegar þrýstingurinn eykst og Bandaríkjaþing býr sig undir að beita Sáda raunverulegum refsiaðgerðum finnist nytsamur minniháttar prins. Sá óheppni einstaklingur verður látinn sæta skömminni fyrir að gefa fyrirmæli um morð án vitundar öðlingsins sem valinn hefur verið til að erfa Konungsríkið. Hvort sem hann verður gerður höfðinu styttri opinberlega eða dæmdur til áralangrar dvalar í lúxus-svartholi verður atvikið einum lítt þekktum einstaklingi eða fleirum að falli. Mohammed bin Salman hefur ekki hikað við að fangelsa fólk úr eigin fjölskyldu. Trump forseti kastaði því einnig fram að þarna hefðu „illviljaðir morðingjar“ hugsanlega verið á ferð. Í því felst óbein afsökun fyrir Sáda meira að segja áður en þeir kynna hana. Í stað þessa ætti Trump að endurmeta samskipti Bandaríkjamanna við Sáda áður en þeir valda nýjum hörmungum.

 

Skoða einnig

Drónaárás gerð á Moskvu

Ráðist var með drónum á Moskvu, höfuðborg Rússlands, að morgni þriðjudags 30. maí. Svo virðist …