Home / Fréttir / Katrín Jakobsdóttir áréttar andstöðu við ESB og NATO í Osló

Katrín Jakobsdóttir áréttar andstöðu við ESB og NATO í Osló

45195611_2069338413087971_241975648548028416_n

Martin Breum, blaðamaður vefsíðunnar EUobserver, ræddi við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra á þingi Norðurlandaráðs í Osló og birti viðtalið á síðunni þriðjudaginn 30. október.

„Ég tel ekki að á þessari stundum ættum við ekki að fara í ESB. Ég sé ekki neina ástæðu til að sækja um aðild,“ segir Katrín.

„Persónulega gagnrýni ég efnahagsstefnu ESB ­– að til hafi orðið evru-svæði án nokkurrar samræmdrar stefnu í skatta- eða ríkisfjármálum,“ segir hún:

„Seðlabanki evrunnar hefur fengið mikil völd án lýðræðislegs aðhalds. Efnahagsstefna ESB hefur verið mjög fjarlæg þeim sem búa á evru-svæðinu og leitt til ágreinings að óþörfu.“

Katrín segir að ESB-aðildarmálið hafi sundrað Íslendingum. Það hafi verið mjög umdeilt árið 2009 og sé það enn í dag. Aðild Íslands að EES hafi reynst Íslendingum hagstæð.

„Þegar litið er á efnahag okkar, félagslegt kerfi og stefnumótun held ég að okkur hafi vegnað vel án þess að eiga aðild að ESB. Þá má skoða allar alþjóðlegar samanburðartölur: Við stöndum okkur ekki illa efnahagslega, félagslega eða sé litið til jafnréttismála þar sem við stöndum fremst á Norðurlöndunum.“

Blaðamaðurinn minnir á að ríkisstjórnin styðji aðild að NATO en haft er eftir Katrínu að hún kysi að unnt yrði að leysa öryggisverkefni samtímans af „diplómötum og stjórnmálamönnum“.

„Flokkur minn er andvígur aðild Íslands að NATO. Við erum hins vegar eini flokkurinn á íslenska þinginu sem fylgir þessari stefnu,“ sagði hún:

„Við erum vinstri-grænn flokkur og viðurkennum að það er sterkur meirihluti á Íslandi sem styður aðild okkar að NATO en við sættum okkur ekki við varanlega dvöl herliðs á Íslandi.“

Blaðamaðurinn minnir á varnaræfingu NATO, Trident Juncture, og að bandarískar P-8 Poseidon kafbátaleitarvélar á höttunum eftir rússneskum kafbátum leggi nú oftar en áður leið sína til Keflavíkurflugvallar.

Katrín segist gagnrýna hvers kyns „aukna hervæðingu á Norður-Atlantshafi“. Ríkisstjórn hennar starfi á grundvelli þjóðaröryggisstefnunnar [NATO aðildar] sem samþykkt hafi verið. Flokkur hennar kjósi hins vegar „friðsamlegri lausnir, hann telur ekki neina lausn felast í aukinni hervæðingu,“ segir hún.

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …