Home / Fréttir / Puigdemont handtekinn í Þýskalandi – mótmæli í Barcelona

Puigdemont handtekinn í Þýskalandi – mótmæli í Barcelona

Carles Puigdemont
Carles Puigdemont

Carles Puigdemont, landflótta, fyrrverandi forseti héraðsstjórnar Katalóníu, var handtekinn í Slesvík-Holstein Þýskalandi sunnudaginn 25. mars þegar kom þangað frá Danmörku.

„Hann var tekinn fastur við dönsku landamærin,“ sagði upplýsingafulltrúi flokks Puigdemonts við AFP-fréttastofuna. Puigdemont hélt á föstudaginn 23 mars frá Finnlandi á leið til Belgíu að sögn finnska þingmannsins Mikkos Kärnäs sem var gestgjafi hans í Finnlandi. Finnska lögreglan bjó sig undir að handtaka hann.

Þýskur dómari tekur mál Puigdemont fyrir mánudaginn 26. mars til að staðfesta að rétt hafi verið staðið að framkvæmd handtökuskipunarinnar. Eftir að fréttir bárust af handtökunni fóru þúsundir manna út á götur Barcelona, höfuðborgar Katalóníu, til að mótmæla henni,

Átök lögreglu og mótmælenda í Barcelona.
Átök lögreglu og mótmælenda í Barcelona.

Fólkið hópaði: „Frelsum pólitíska fanga!“ og „Skömm sé þessari Evrópu!“ þegar gengið var í átt að skrifstofu framkvæmdastjórnar ESB í borginni. Fámennari mótmæli vou í Girona þar sem Puigdemont var eitt sinn bæjarstjóri.

BBC segir að mikil spenna ríki í Katalóníu. Mótmælendur lentu i átökum við lögreglu föstudaginn 23. mars eftir að hæstiréttur Spánar úrskurðaði að 25 leiðtogar aðskilnaðarsinna í Katalóníu skyldu kallaðir fyrir dóm vegna uppreisnar, fjársvika og óhlýðni við ríkisvaldið.

Úrskurður hæstaréttar er talin alvarlegasta atlaga til þessa að sjálfstæðishreyfingu Katalóníu. Næstum allir forystumenn hennar standa nú frammi fyrir erfiðum réttarhöldum.

Spænskur dómari afturkallaði alþjóðlegar handtökuskipanir gegn Puigdemont og öðrum katalónskum forystumönnum í desember 2017. Taldi hann þá hafa sýnt vilja til að snúa aftur til heimalands síns.

Handtökuskipanirnar voru endurútgefnar föstudaginn 23. mars sem kom Puigdemont í opna skjöldu þegar hann var í Finnlandi til að flytja háskólafyrirlestur. Þess er einnig krafist að Clara Ponsati, fyrrverandi menntamálaráðherra, snúi aftur til Katalóníu en hún dvelst í Skotlandi þar sem hún hefur fengið stöðu við St. Andrews háskóla. Hún segist fús til að gefa sig fram.

Carles Puigdemont er 55 ára, fyrrverandi blaðamaður sem starfaði fyrir fjölmiðla hlynnta sjálfstæði Katalóníu og stjórnað Fréttastofu Katalóníu. Hann varð forseti héraðsstjórnar Katalóníu árið 2016 og stofnaði til þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði héraðsins frá Spáni í október 2017. Eftir atkvæðagreiðsluna hélt hann í útlegð til Belgíu. Hann sagði í samtali við belgíska sjónvarpsstöð hann færi ekki í felur fyrir „raunverulegu réttlæti“ heldur frá „illa stjórnmála-smituðu“ spænsku réttarkerfi.

Laugardaginn 24. mars sagðist finnska lögreglan til þess búin að handtaka Puigdemont en Kärnä segir að Katalóníumaðurinn hafi lagt af stað til Belgíu födstudaginn 23. mars.

Puigdemont kom til Finnlands fimmtudaginn 22. mars og ræddi meðal annars við finnska stjórnmálamenn. Upphaflega var ráðgert að hann yfirgæfi Finnland síðdegis laugardaginn 24. mars.

Brottför Puigdemonts var flýtt eftir að finnsk stjórnvöld fengu nýja evrópska handtökubeiðni vegna hans frá Spáni. Spænsk stjórnvöld hafa lýst eftir Puigdemont um alla Evrópu vegna ákæru um „uppreisn“ og „að hvetja til uppreisnar“. Sé hann fundinn sekur á hann allt að 25 ára fangelsi yfir höfði sér.

Puigdemont dvaldist mánuðum saman í Belgíu án þess að vera handtekinn. Belgísk yfirvöld töldu hann ekki hafa brotið af sér á þann veg að réttmætt væri að handtaka hann. Það bæri frekar að líta á hann sem pólitískan aðgerðasinna.

 

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …