Home / Fréttir / Katalónía: Spenna vegna atkvæðagreiðslu um sjálfstæði magnast

Katalónía: Spenna vegna atkvæðagreiðslu um sjálfstæði magnast

Baráttufundur Katalóníumanna.
Baráttufundur Katalóníumanna.

Borgar- og bæjarstjórar í Katalóníu hafa heitið því að aðstoða við atkvæðagreiðslu Katalóníumanna um sjálfstæði héraðsins frá Spáni sunnudaginn 1. október þótt þeir kunni að verða fangelsaðir að fyrirmælum ríkisstjórnar Spánar.

Á áttunda hundrað borgar- og bæjarstjórar í Katalóníu komu saman í Barcelóna laugardaginn 16. september til að lýsa andstöðu sinni við ríkisstjórn Spánar og stuðningi sínum við atkvæðagreiðsluna um sjálfstæði. Spánarstjórn og hæstiréttur landsins telja atkvæðagreiðsluna ólögmæta.

Hundruð borgar- og bæjarstjóra eiga yfir höfði sér að verða fangelsaðir fari þeir ekki að fyrirmælum saksóknara um að koma til yfirheyrslu vegna áforma um að leggja því lið að unnt verði að ganga til atkvæða um sjálfstæði Katalóníu 1. október.

Meira en tveir þriðju stjórnenda sveitarfélaga í sjálfstjórnarhéraðinu Katalóníu haf sagt að þeir muni greiða fyrir því að unnt verði að greiða atkvæði í byggingum sveitarfélaganna þrátt fyrir önnur fyrirmæli frá stjórninni í Madrid. Talið er að án samvinnu við sveitarstjórnirnar verði nærri ógerlegt að efna til atkvæðagreiðslunnar.

Ada Colau, borgarstjóri í Barcelóna, og Carles Puigdemont, héraðsstjóri í Katalóníu, tóku þátt í baráttufundi sveitarstjórnarmannanna í Barcelóna. „Við látum ekki kúga okkur. Þetta snýst ekki um sjálfstæði heldur um rétt okkar,“ sagði Colau.

Í könnun sem gerð var í júlí sögðu 41% Katalóníumanna að þeir vildu sjálfstæði en tæp 70% vildu fá að greiða atkvæði um málið.

Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, hét því laugardaginn 16. september að koma í veg fyrir atkvæðagreiðsluna. Hann færi ekki fram á annað en að sveitarstjórnarmenn færu að lögum.

Undanfarna daga hefur lögregla gert gögn sem varða atkvæðagreiðsluna upptæk með því að fara með valdi inn í prentsmiðjur og aðra staði þar sem unnið er að gerð upplýsingaspjalda og atkvæðaseðla. Æðsti dómstóll Katalóníu hefur varað sjö dagblöð við afleiðingum þess ef þau birta efni tengt atkvæðagreiðslunni.

Föstudaginn 15. september hótuðu stjórnvöld í Madrid að svipta stjórnina í Katalóníu fjármunum til að koma í veg fyrir útgjöld vegna atkvæðagreiðslunnar. Stjórn Katalóníu hefur síðan í júlí orðið að senda vikulega skýrslu um útgjöld sín til Madrid.

Heimild: dw.de

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …