
Carles Puigdemont, brottrekinn forseti héraðsstjórnar Katalóníu, hélt á laun til Brussel með fimm aðstoðarmönnum sínum mánudaginn 30. október. Puigdemont á yfir höfði sér ákæru fyrir að hafa brotið gegn stjórnarskrá Spánar með því að leggja til við héraðsþing Katalóníu föstudaginn 27. október að lýsa héraðið sjálfstætt lýðveldi.
Puigdemont efndi til blaðamannafundar í Brussel þriðjudaginn 31. október. Hann sagðist ekki ætla leita eftir hæli í Belgíu. Hann mundi taka þátt í héraðsþingkosningum í Katalóníu 21. desember. Stjórnvöld í Madrid boðuðu til kosninganna til að fá úr því skorið hvort Katalóníumenn styddu flokka sem stóðu að sjálfstæðisyfirlýsingunni 27. október.
Áður en Puigdemont hélt til Brussel hafði Theo Francken, útlendingamálaráðherra Belgíu, sagt að hugsanlega gæti Puigdemont fengið hæli í Belgíu. Francken er í Nýja flæmska bandalaginu (N-VA), þjóðarflokki Flæmingja í Belgíu sem hefur verið hliðhollur sjálfstæðissinnum í Katalóníu.
Héraðsstjórnin í Andalúsíu á Spáni ályktaði á þann veg þriðjudaginn 31. október að Carles Puigdemont ætti að „hætta í eitt skipti fyrir öll að gera sig að heimsfífli“, taldi héraðsstjórnin að framganga hans í Brussel væri „algjör kjánaskapur“. Það væri fráleitt að líta þannig á að eitthvað „heimssögulegt“ hefði gerst í Katalóníu. Aðskilnaðarbröltið þar væri „einfaldlega til skammar“.
Á blaðamannafundinum sagðist Puigdemont ekki hafa óskað eftir neinu af belgísku ríkisstjórninni. Hann sagðist alltaf hafa barist fyrir málstað sínum á lýðræðislegum vettvangi og unnið sigur þar, það mundi hann gera áfram. Hann og samherjar sínir yrðu alltaf tilbúnir til þátttöku væri gengið til kosninga.
Hann var spurður við hvaða aðstæður hann mundi snúa aftur til Katalóníu. Hann sagðist hafa leitað eftir tryggingu sem dygði til þess en ekki fengið hana. Sér þætti sem saksóknari spænsku stjórnarinnar leitaði frekar hefnda en réttlætis.
Puigdemont sagðist ætla að taka til varna gegn spænsku saksóknurunum en hann hefði engin áform um að snúa til Spánar fyrr en hann „fengi tryggingu“ fyrir að farið yrði með hann af sanngirni.
Hann kysi að dveljast í Brussel sem evrópskur ríkisborgari. Það yrði að koma í ljós hvað gerðist, hver dagur boðaði eitthvað nýtt. Hann hefði séð að Brussel, höfuðborg Evrópu, væri besti staðurinn sem hann gæti valið til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.
Puigdemont sagði að hann og samferðarmenn hans í Brussel myndu snúa strax aftur til Spánar fengju þeir tryggingu fyrir því að mál gegn þeim yrði rekið á „sanngjarnan“ og „sjálfstæðan“ hátt með virðingu fyrir „skiptingu valdsins“. Ferð sín til Brussel væri meðal annars farin til að „draga athygli að því að spænska dómskerfið hefur verið virkjað í pólitískum tilgangi“. Hann ætti yfir höfði sér allt 30 ára fangelsi ef marka mætti rökstuðning saksóknaranna fyrir ákærunni um uppreisn, áróður í þágu uppreisnar og misnotkun fjármuna,
Hluti héraðsstjórnarinnar er enn í Barcelona og sagði Puigdemont að ríkisstjórn sín hefði aldrei beðist lausnar. Hún mundi þvert á móti vinna áfram að velferð Katalóníumanna.