
Hugsanlegt er að Katalónía verði lýst sjálfstætt lýðveldi mánudaginn 9. október segja félagar í CUP, flokknum lengst til vinstri sem styður samsteypustjórna (Junts pel – Sameinuð fyrir já) í Katalóníu án þess að eiga menn í stjórninni.
Þess er vænst að Carles Puigdemont, forseti héraðsstjórnar Katalóníu, gefi yfirlýsingu í héraðsþinginu mánudaginn 9. nóvember í umræðum um framkvæmd og niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar sunnudaginn 2. október um sjálfstæði Katalóníu sem stjórnlagadómstóll Spánar lýsti ólögmæta. Til harðra átaka kom í Katalóníu þegar lögregla reyndi að hindra framgang atkvæðagreiðslunnar.
Puigdemont sagði við BBC að hann ætlaði að lýsa yfir sjálfstæði „í lok þessarar viku eða byrjun þeirrar næstu“.
Filippus VI. Spánarkonungur flutti ávarp til þjóðarinnar þriðjudaginn 3. október. Hann viðurkenndi alvarleika ástandsins og sakaði ríkisstjórn Katalóníu um að hafa „hvað eftir annað, skipulega og af ásetningi farið á svig við stjórnarskrána og eigin sjálfstjórnarlög (Estatut), lögin sem viðurkenna, vernda og tryggja sögulegar stofnanir héraðsins og sjálfsstjórn þess.“
Stjórnvöld í Katalóníu sögðu að konungurinn hefði „hellt meiri olíu á eldinn í stað þess að lægja öldurnar“.
Xavier García Albiol, leiðtogi Alþýðufylkingarinnar í Katalóníu (PPC), sagði „sjálfstæði verður ekki lýst, ekki þann 9., 10. eða þann 8.“.
García Albiol sagðist treysta á að stjórn Marianos Rajoys [flokksbróður síns í Madrid] og „lýðræðisstofnanir okkar“ tækju réttar ákvarðanir. „Hvernig það er gert skiptir minna máli en niðurstaðan“ sagði hann og áréttaði með því að ríkið hefði löglega heimild til að beita valdi.
„Þeir sem standa að þessu valdaráni eru þeir sem eiga að gjalda fyrir verknað sinn,“ sagði hann. „Ætlunin er að láta það bitna á okkur i Alþýðufylkingunni. Við veljum þó þann kost að gera eitthvað í stað þess að sitja auðum höndum, þótt á okkur sé lamið vegna þess.“
Heimild: El País