Þing Katalóníu samþykkti föstudaginn 27. október að lýsa yfir sjálfstæðu lýðveldi í Katalóníu. Tillagan var samþykkt með 70 atkvæðum gegn 10 en 55 sátu hjá við atkvæðagreiðsluna. Skömmu síðar samþykkti öldungadeild spánska þingsins í Madrid með 214 atkvæðum gegn 47 með einni hjásetu heimild til ríkisstjórnar Spánar að beita ákvæðum í 155 gr. spænsku stjórnarskrárinnar, það er að svipta Katalóníu sjálfsstjórn.
Enn er óljóst hvaða skref verða stigin næst í þessari deilu milli ráðamanna í Barcelona í Madrid. Eftir samþykktina í þingi Katalóníu komu þingmenn og um 700 borgar- og bæjarstjórar saman í anddyri þinghússins, sungu þjóðsöng Katalóníu og gáfu heitstrengingar um að framfylgja samþykktum þingsins.
Innan Katalóníu er þó djúpstæður ágreiningur um þetta skref þingsins. Þeir sem mótmæla stefnu stjórnarinnar og meirihluta þingmanna kalla ákvörðunina um sjálfstæði valdarán og söguleg mistök.
Líkur á að samkomulag takist um leið út úr þessum stjórnskipulegu þrengingum Spánar eru litlar. Innan Evrópusambandsins óttast menn neikvæð áhrif þessarar þróunar. Um síðustu helgi samþykktu íbúar í héruðunum Lombardí og Veneto í Norður-Ítalíu að stefnt skyldi að sjálfstæði þeirra gagnvart ríkisvaldinu í Róm.
Mariano Rajoy sagði við öldungadeild þingsins í Madrid að hann hefði hvað eftir annað reynt að halda aftur af aðskilnaðarsinnunum í Katalóníu. Hann gerði lítið úr tilboðunum frá Carles Puigdemont, forseta héraðsstjórnar Katalóníu, um „viðræður“ til að leysa vandann.
Rajoy sagði: „Orðið viðræður er yndislegt orð. Það kallar fram góðar tilfinningar. Tveir óvinir vega að viðræðum: þeir sem svívirða, hafa að engu eða gleyma lögunum og þeir sem vilja aðeins hlusta á sjálfa sig en vilja ekki skilja hinn aðilann.“
Rajoy sagði að vernda yrði Katalóníumenn gegn óbilgjörnum minnihluta sem vildi eigna sér Katalóníu og beygja alla íbúa hennar undir ok eigin kenningar.