Home / Fréttir / Katalónía: Frestað að framkvæma heimild til sjálfstæðis

Katalónía: Frestað að framkvæma heimild til sjálfstæðis

Carles Puigdemont flytur sjálfstæðisræðu í héraðsþinginu í Barcelona.
Carles Puigdemont flytur sjálfstæðisræðu í héraðsþinginu í Barcelona.

Carles Puigdemont, forseti héraðsstjórnar Katalóníu, sagði á þingi Katalóníu þriðjudaginn 10. október að hann vildi umboð þingsins til að lýsa yfir sjálfstæði Katalóníu eins og samþykkt hafi verið í atkvæðagreiðslu íbúa héraðsins en framkvæmd sjálfstæðisyfirlýsingarinnar yrði frestað til að auðvelda viðræður við stjórnvöld í Madrid.

Carles Puigdemont sagði í ræðunni:

– Stuðningur við sjálfstæði Katalóníu hefði fengist í þingkosningum og einnig í þjóðaratkvæðagreiðslu. Héraðið hefði nú öðlast rétt til að verða sjálfstætt ríki.

– Ágreiningurinn milli ráðamanna í Barcelona og Madrid væri nú evrópskt viðfangsefni. Ekki væru lengur nein skilvirk samskipti milli ríkisstjórnanna tveggja.

– Ríkisstjórn Katalóníu ógnaði hvorki né móðgaði nokkurn. Eina leiðin til að leysa málið væri að treysta á lýðræði og frið. Katalóníumenn væru alltaf tilbúnir til að setjast til viðræðna.

– Stjórnvöld í Madrid væru ögrandi í viðleitni sinni til að endurnýja miðstjórnarvaldið á Spáni.

– Íbúar Katalóníu hefðu ekki tapað vitinu og hefðu ekki horn í síðu Spánverja.

Fyrir þingfundinn ræddi Puigdemont við ríkisstjórn sína sem styðst meðal annars við CUP, flokk lengst til vinstri, sem krefst tafarlauss sjálfstæðis. Fréttaskýrendur segja óvíst hvort flokkurinn sætti sig við afstöðuna sem Puigdemont kynnti.

Fyrir þingræðuna hvatti Inigo Mendez de Vigo, talsmaður spænsku ríkisstjórnarinnar, Puigdemont til að gera ekkert sem væri óumbreytanlegt, ekki gefa einhliða sjálfstæðisyfirlýsingu.

Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, hefur einnig varað við því að einhliða yfirlýsing um sjálfstæði mundi brjóta allar brýr milli ráðamanna í Barcelona og Madrid.

 

Skoða einnig

Málstofan „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ komin á Netið

Ánægjulegt að deila hér samantekt á nýlegu málþingi Varðbergs „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ sem …