Home / Fréttir / Kasparov segir Pútín áreita Vesturlönd til að viðhalda valdi og einræði á heimavelli

Kasparov segir Pútín áreita Vesturlönd til að viðhalda valdi og einræði á heimavelli

Gary Kasparov.
Gary Kasparov.

Rússneski skákmeistarinn Gary Kasparov, eindreginn andstæðingur Vladmírs Pútíns Rússlandsforseta segir að forsetinn grípi til „ágengni erlendis“ og vaxandi árekstra við Vesturlönd í von um að ýta undir ímynd sína sem leiðtogi Rússlands og til að halda í „einræðið“ heima í Rússlandi.

Kasparov ræddi við Mikhail Sokolov, fréttaritara RFE/RL (Radio Free Europe/Radio Liberty) í tengslum við fund í Vilnius í Litháen 15. október þar sem félagar í samtökunum Open Russia komu saman en þeir berjast gegn Pútín og stjórn hans. Kasparov segir að Pútín hafi tekist að koma á „eins-manns-stjórn“ sem reist sé á „fasískri hugmyndafræði“ og á þann hátt hafi hann lagt til atlögu við ímyndaða óvini innan Rússlands.

Slæmt og versnandi efnahagsástand í Rússlandi hafi hins vegat neytt Pútín og félaga hans í Kremlarkastala til að benda á „óvini“ utan Rússlands.

Rússnesk yfirvöld hafa hert aðgerðir sína gegn sjálfstæðum fjölmiðlum, samtökum almennings og stjórnmálaandstæðingum síðan þriðja kjörtímabil Pútíns sem forseta hófst árið 2012.

Kasparov flúði til Bandaríkjanna eftir að rússneska lögreglan handtók hann á baráttufundi árið 2012 til stuðnings listakonunum þremur í Pussy Riot sem þá sátu undir ásökun um að stunda áróður gegn Kremlverjum.

„Fyrsta takmark Pútíns er að eiga í útistöðum við Vesturlönd,“ sagði Kasparov í Vilníus. Rússlandsforseti verði að „viðhalda ímynd sinni sem ósigrandi leiðtogi sem einn geti varið landið gegn ytri ógnunum“.

Vegna innlimunar Rússa á Krímskaga í mars 2014 versnuðu samskipti Vesturlanda og Rússa mikið síðan hefur stríðið í Sýrlandi enn orðið til að grafa undan samskiptunum. Loks saka Bandaríkjamenn Rússa um tölvuárásir í tengslum við bandarísku forsetakosningabaráttuna sem lýkur 8. nóvember.

„Pútín hefur ekki aðeins þörf fyrir stöðuga árekstra við ríkin í Evrópu og Ameríku, hann þarf einnig stöðugt að sanna eigin yfirburði gagnvart öðrum,“ segir Kasparov.

Skákmeistarinn segir að sé litið til Sýrlands vaki fyrir Pútín að sanna að það séu ekki annað en „innantóm orð“ þegar vestrænir leiðtogar krefjast þess hvað eftir annað að Bashar al-Assad Sýrlandsforseti segi af sér vegna harðneskjunnar sem hann hefur sýnt Sýrlendingum síðan upp úr sauð í landinu fyrir tæpum sex árum.

Kasparov segir að innlimun Krímskaga hafi verið „afbrot“ samkvæmt rússnesku stjórnarskránni, rússneskum lögum og alþjóðalögum á sama tíma og tekist hafði að koma stjórnarandstöðu á heimavelli „næstum alveg fyrir kattarnef“.

„Í augum Pútíns var innlimun Krímskaga hluti alhliða sóknar gegn Úkraínu, brot á fullveldi landsins,“ segir Kasparov og líkja megi aðgerðum skjólstæðinga Kremlverja í Úkraínu við „framgöngu glæpamanna“.

Pútín viðurkenndi að lokum að hann hefði sent hermenn til Krímar. Rússar neita hins vegar allri beinni aðild að bardögum annars staðar í austurhluta Úkraínu þótt vestrænir ráðamenn segi yfirgnæfandi sannanir benda til hins gagnstæða.

Kasparov lýsti því einnig sem „lögbroti“ að Rússar hefðu „í raun innlimað“ yfirráðasvæði aðskilnaðarsinna í Abkhaziu og Suður-Ossetíu eftir leifturstríð í ágúst 2008. Þá var Pútín forsætisráðherra á meðan hann ávann sér rétt til að bjóða sig fram að nýju sem forseti. Georgíumenn slitu stjórnmálasambandi við Rússa vegna átakanna og rússneskir hermenn eru í báðum héruðunum og segja stjórnvöld í Georgíu og innan NATO að þar sé um hernám að ræða.

Kasparov segir að tölvuárásunum á Bandaríkin og pólitískar stofnanir sé „ætlað að valda einhvers konar uppnám“ fyrir forsetakosningarnar 8. nóvember.

Pútín og aðrir rússneskir embættismenn hafa blásið á ásakanir Bandaríkjamanna og sagt að þeir ættu að líta frekar á efni þess sem birt er en hverjir séu að verki.

Kasparov telur að ekkert haldi aftur af Pútín þegar hann lætur til sín taka utan Rússlands vegna þess að vestrænir leiðtogar hafi „alltaf hörfað“ til að komast hjá meiriháttar árekstri.

Skákmeistarinn hvatti vestræna leiðtoga til að sýna „pólitískan viljastyrk“ og veita utanríkisstefnu Pútíns verðugt viðnám, þar á meðal með því að halda áfram að beita Rússa fjármagns- og annars konar þvingunum sem komu til sögunnar vegna framgöngu þeirra gagnvart Úkraínumönnum.

„Margir stjórnmálamenn og kaupsýslumenn í Evrópu vilja hætta refsiaðgerðunum gegn Rússum og láta eins og ekkert hafi breyst við ólögmæta innlimun þeirra á Krímskaga svo að þeir geti stundað viðskipti við Rússa,“ segir Kasparov. „Ég held þó að þessi afstaða smátt og smátt á undanhaldi.“

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …