Home / Fréttir / Kasparov: Sigur í Úkraínu leið til lýðræðis í Rússlandi

Kasparov: Sigur í Úkraínu leið til lýðræðis í Rússlandi

Gary Kasparov talar á ráðstefnunni í München.

Rússneski skákmeistarinn Garry Kasparov fór hörðum orðum um stjórnarhætti Vladimirs Pútins Rússlandsforseta og innrásina í Úkraínu á öryggisráðstefnunni í München laugardaginn 18. febrúar. Hann sagði að sigur á Rússum væri „frumskilyrði“ þess að lýðræðislegar umbætur yrðu í Rússlandi.

„Leiðin til frelsis undan fasisma Pútins er um Úkraínu,“ sagði Kasparov í pallborðsumræðum á ráðstefnunni í München þar sem rætt var um „lýðræðislega framtíð“ Rússlands. Fyrir utan Kasparov tóku aðrir kunnir Rússar sem gagnrýna Pútin þátt í ráðstefnunni.

„Rússar búa í blöðru. Hún springur ekki nema heimsveldishugsjónin líði undir lok vegna ósigurs í hernaði,“ sagði Kasparov.

Um það bil áratugur er liðinn frá því að Kasparov yfirgaf Rússland. Hann segir nú: „Stríðið tapast þegar þeir átta sig á að þeir eru að tapa því.“ Hafa verði þetta í huga frekar en líta til landsvæða sem barist sé um á vígvellinum.

Með Kasparov við pallborðið voru auðmaðurinn Mikhaíl Khodorkovskíj, mannréttinda-aðgerðarsinninn Zhanna Nemtsova, dóttir andstæðings Kremlverja, Borisar Nemtsovs, sem var myrtur skammt frá Kreml, og Irina Stjerbakova, ein af stofnendum rússnesku mannréttindasamtakanna Memorial sem hlutu friðarverðlaun Nóbels 2022.

Kasparov hvatti vestrið til að halda áfram að styðja stjórnina í Kyív, hann sagði engin útgjöld vera of há fyrir Úkraínu.

„Óttinn snýst um að stuðningurinn minnki“ og að bandamenn Úkraínustjórnar dragi saman seglin, sagði Khodorkovskíj, einn auðugasti maður Rússlands áður en hann var handtekinn og látinn dúsa í fangelsi frá 2003 til 2013.

Stjerbakova átti hlut að stjórn Memorial til ársloka 2021 þegar rússnesk stjórnvöld lokuðu stofnuninni. Í München sagði hún að aðeins sigur kæmi til greina í Úkraínu.

„Þetta eru sorglegir tímar. Það tekur á að kynnast örlögum Úkraínumanna af  því að þeir gjalda með blóði sínu … en það þarf einnig mikið hugrekki til að ganga úti á götu í Rússlandi.“

Hún sagði að Rússar væru einfaldlega hafðir að „leiksoppum“.

„Sögunni er umturnað“ vegna þess að Rússum þyki „þeir ekki þurfa að horfast í augu við gömlu glæpaverkin“ sem unnin voru á sovéttímanum, sagði hún.

Nemtsova sagði að meðal „mistaka eftir hrun Sovétríkjanna var að leggja ekki meiri áherslu á að skýra fyrir fólki gildi lýðræðis“.

„Það verður aðeins unnt að horfa til lýðræðis í Rússlandi í framtíðinni sé rætt við rússneskan almenning – meirihluti fólks er hlutlaus, hefur engan áhuga á Úkraínu og telur sig ekki geta haft nein áhrif og gefst því upp,“ sagði hún.

„Höfuðverkefni okkar er að auðvelda þeim að íhuga grimmdarverkin sem unnin eru í Úkraínu.“

 

 

Skoða einnig

Spenna í Íran á eins ár minningardegi Amini sem lögregla myrti vegna skorts á höfuðslæðu

Íranir heima og erlendis minnast þess laugardaginn 16. september að eitt ár er liðið frá …