Home / Fréttir / Kasmír: umrót á umdeildu landsvæði

Kasmír: umrót á umdeildu landsvæði

Pólitíska andrúmsloftið er allt annað í Kasmír en náttúrukyrrðin gefur til kynna.
Pólitíska andrúmsloftið er allt annað í Kasmír en náttúrukyrrðin gefur til kynna.

 

Höfundur: Kristinn Valdimarsson

Þegar minnst er á ríki kemur upp í huga flestra landsmanna stjórnsýslueining þar sem valdamiðstöðin er í höfuðborginni enda er málum þannig háttað hér á landi. Sum ríki búa hins vegar við annað skipulag. Taka má Bandaríkin sem dæmi. Fólki er tamt að hugsa um að valdamiðstöðin þar sé í Washingtonborg en það er bara að hluta til rétt því líkt og nafn landsins gefur til kynna þá eru Bandaríkin sambandsríki. Þetta þýðir að hvert ríki hefur umtalsverða sjálfsstjórn enda er í hverju ríki ríkisstjórn, ríkisþing og dómskerfi. Alríkisstjórnin í Washington hefur aðeins vald yfir tilteknum málaflokkum svo sem utanríkismálum, myntsláttu og póstþjónustu.

Staða mála var enn þá flóknari á Indlandi þegar Bretar réðu þar ríkjum. Valdaskeið þeirra stóð frá lokum uppreisnar Indverja gegn Austur – Indíafélaginu árið 1858 og til 1947. Á þessu tímabili var Indland annars vegar svæði sem voru undir beinni stjórn Breta og hins vegar 565 ríki þar sem prinsar réðu.

Eitt fjölmennasta ríkið var Jammu og Kasmír. Meirihluti íbúa ríkisins voru múslímar en völdin voru hins vegar í höndum hindúísks prins. Þegar Bretar ákváðu að yfirgefa Indland á fimmta áratug síðustu aldar var ljóst að ríkinu yrði skipt á milli hindúa (Indland) og múslíma (Pakistan). Þegar múslímar frá Pakistan gerðu innrás í Kasmír um haustið 1947 samþykkti prinsinn kröfu Indverja um að ríkið skyldi verða hluti af Indlandi. Átök héldu þó áfram og þegar Sameinuðu þjóðunum tókst að koma á vopnahléi í byrjun árs 1949 var í raun búið að skipta ríkinu á milli Indverja og Pakistana.

Samkvæmt grein 370 í stjórnarskrá Indlands, sem tók gildi árið 1950, fékk indverski hluti Kasmír víðtæka sjálfsstjórn. Þann fimmta ágúst síðastliðinn tilkynnti innanríkisráðherra Indlands, Amit Shah, að ríkisstjórnin hygðist fella grein 370 úr gildi og með því afturkalla sérréttindi Kasmír. Degi síðar var tillagan samþykkt í indverska þinginu. Hugsanlegt er að ákvörðuninni verði skotið til hæstaréttar Indlands en það breytir því ekki að í dag er Kasmír eins og hver annar hluti landsins.

Fjallað er um stöðu mála á svæðinu í tveimur greinum í bandaríska netmiðlinum Vox. Heitir önnur India´s risky Kashmir power grab, explained en hin India and Pakistan are quietly making nuclear war more likely.

Stjórnvöld í Nýju – Delí segja að ákvörðun þeirra muni leiða til meiri velsældar fyrir íbúa Kasmír. Ýmsir telja hana hins vegar hafa verið slæma. Færa þeir tvenn rök fyrir skoðun sinni. Í fyrsta lagi þá er það svo að þegar grein 370 var felld úr gildi glataði Kasmír ekki aðeins sjálfsstjórninni heldur féllu þá einnig niður takmarkanir á að íbúar utan héraðsins gætu keypt land á svæðinu. Innfæddir telja að stjórnvöld í Nýju – Delí hafi á stefnuskránni að eyða séreinkennum Kasmír með því að fá fleiri hindúa til að setjast þar að.

Ástæða hræðslu Kasmírbúa, og annarra, er sú að forsætisráðherra Indlands, Narendra Modi, er þjóðernissinnaður hindúi og flokkur hans, Bharatiya Janata flokkurinn, hefur lengi viljað auka ítök trúbræðra sinna í Kasmír. Hann hefur hins vegar ekki verið í aðstöðu til þess að koma þessum áformum í verk fyrr en núna. Í kosningum til indverska þingsins fyrr á árinu styrkti flokkurinn verulega stöðu sína og er því í sterkri stöðu til að koma stefnuskrá sinni í framkvæmd.

Hin ástæðan fyrir því að margir eru uggandi yfir stöðu mála er sú að hætt er við að ákvörðun Indlandsstjórnar geti leitt til aukinnar spennu í samskiptum Indverja og Pakistana. Stjórnvöld í Islamabad og Nýju – Delí hafa lengi eldað grátt silfur saman, ekki síst vegna Kasmír, og hefur fjórum sinnum brotist út styrjöld á milli ríkjanna. Það sem gerir deilu á milli nágrannanna sérstaklega hættulega er að báðir eru kjarnorkuveldi. Indland sprengdi sína fyrstu sprengju árið 1974 og Pakistan árið 1998.

Hætta á kjarnorkuátökum milli ríkjanna hefur aukist að undanförnu þar sem þau hafa ákveðið að eignast kafbáta sem geta borið kjarnaflaugar. Í kafbátaflota Indverja eru fjórtán árásarkafbátar. Indverjar eru einnig með einn slíkan bát að láni frá Rússum. Hann er af Akula II gerð og er kjarnorkuknúinn. Árið 2016 sjósettu Indverjar fyrsta kjarnaflaugakafbát sinn (e. Ballistic Missile Submarine) og er ætlun þeirra að eiga sex slíka í framtíðinni. Í kafbátaflota Pakistana eru fimm árásarkafbátar og þrír dvergkafbátar. Eftir að Indverjar sjósettu kjarnaflaugakafbát sinn ákváðu Pakistanar að setja kjarnaflaugar í kafbáta sína. Pakistanar hafa einnig samið við Kínverja um kaup á átta árásarkafbátum sem geta borið kjarnorkuvopn.

Auk aukinnar hættu á kjarnorkuátökum milli ríkjanna tveggja óttast menn að hryðjuverkamenn komist yfir einhver af þessum kjarnorkuvopnum. Þeir sem velta þessu fyrir sér vísa m.a. í atvik í höfuðstöðvum pakistanska flotans árið 2014 í Karachi. Þá gengu nokkrir sjóliðar á vegum hryðjuverkasamtakanna Al-Kaída um borð í freigátu í þeirri von að geta rænt henni. Átti síðan að sigla henni út á Indlandshaf og ráðast á bandaríska flotann þar. Fyrir einskæra heppni tókst að hindra áætlun mannanna á síðustu stundu.

Að mörgu er því að hyggja í öryggismálum Suður – Asíu og víst er að hræringarnar sem átt hafa sér stað í Kasmírhéraði síðustu daga geta leitt til þess að staðan á svæðinu verði enn viðkvæmari en hún er í dag.

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …