
Pútin Rússlandsforseti hefur allt í einu fengið fleiri verkefni. Kasakhstan-krísan minnir á hve veikburða öll fyrrverandi Sovétlýðveldin fyrir sunnan Rússland eru.
Í leiðara danska blaðsins Jyllands-Posten segir laugardaginn 8. janúar 2022:
Aldrei á að veðja á óbreytt ástand í stjórnmálum, alls ekki í alþjóðastjórnmálum. Einmitt þegar Vladimir Pútin hélt að hann hefði snúið á Vestrið með árásartilburðum gagnvart Úkraínu rís almenningur upp til andmæla í öðru fyrrverandi Sovétlýðveldi, Kasakhstan. Það var ekki nákvæmlega það sem hann þurfti í þann mund sem viðræður Rússa og Bandaríkjamanna um Úkraínu hefjast í Genf í næstu viku, eftir að utanríkisráðherrar NATO-ríkjanna sendu frá sér skýra viðvörun föstudaginn 7. janúar.
Mánuðum saman hefur Pútin magnað upp hættuástand vegna Úkraínu með því að stefna allt að 100.000 þungvopnuðum hermönnum að landamærum nágrannaríkis síns í vestri. Hvaða dýpri hugsun býr þar að baki er falið í völundarhúsi Kremlar, hitt er hafið yfir allan vafa að hótanirnar fela í sér hættu á raunverulegri heimskrísu. Að ráðamenn í Moskvu verði nú að senda hermenn til dvalar um óákveðinn tíma í fjarlægu Kasakhstan kemur Pútin örugglega illa.
Uppreisnin í Kasakhstan siglir í kjölfar fjöldamótmælanna í Hvíta-Rússlandi sem Aleksander Lukasjenkó barði niður með harðri hendi og endurtekinna stríðsaðgerða milli Aserbajdsjan og Armeníu um hólmlenduna Nagorno-Karabakh. Þrjátíu árum eftir fall Sovétríkjanna blasir við sú kalda staðreynd að öll fyrrverandi Sovétlýðveldin fyrir sunnan Rússland eru gjörsamlega vanþróuð sé litið til lýðræðis og réttarstöðu borgaranna og minna sums staðar frekar á teiknimyndir úr Tinna-bókunum en ríki þar sem leitast er við að nýta nýju tækifærin sem fólust í raun í því að hafa losnað undan Moskvuvaldinu.
Há-áhættusamir leikir Pútins gagnvart Vestrinu kunna nú að koma honum sjálfum í koll. Markvissar tilraunir hans til að grafa undan stöðugleika, einkum í Evrópu, með netárásum, launmorðum, falsfréttum og hernaðarlegum hótunum krefjast þess að allt sé kyrrt á heimavígstöðvunum, kyrrðinni er nú skyndilega alvarlega ógnað með Kasakhstan-krísunni.
Nú eiga ekki aðeins stjórnir Bandaríkjanna og Evrópu erfitt með að bregðast rétt við hættuástandinu í Úkraínu, enginn býst við að Vestrið grípi beint til vopna vegna þess. Nú búa Rússar sjálfir við uppnám í bakgarði sínum og hafa um meira að hugsa en það eitt að ýta undir hættuástandið í Úkraínu. Pútin hefur lýst falli Sovétríkjanna sem geópólitískum hamförum. Þegar litið er til allra líkanna í lest Rússa eykst dálítið skilningur á því hvað í orðum hans raunverulega fellst. Hve lengi enn þurfa menn að bíða eftir eðlilegu ástandi í heimi án Sovétríkjanna?
Við Vestrinu blasir aðeins eitt: að sýna festu gagnvart einræðis- eða hálfeinræðisstjórnum sem lúta forræði Pútins. Því miður ræðst sú varðstaða aðeins af einu: hve viljasterk Bandaríkjastjórn og Biden reynast. ESB skiptir engu í þessu sambandi, því hefur verið skipað á hliðarlínuna sem aðgerðalausu viðhengi Bandaríkjanna. Vonandi tekst Bandaríkjamönnum og Rússum að minnka spennuna vegna Úkraínu á næstunni á sama tíma og gott væri að ESB ræddi einkum við sjálft sig hvort Nord Stream 2 leiðslan, sem ætlað er að flytja rússneskt jarðgas til evrópskra neytenda, sé einnig núna góð hugmynd. Þetta er sorgleg en óhjákvæmileg ábending. Stóru ESB-ríkin eru einfaldlega of ósammála sín á milli um stefnuna gagnvart Moskvuvaldinu.
Ólgan í Kasakhstan minnir á að Pútin er alls ekki óumdeildi einvaldurinn sem hann þykist gjarnan vera. Leppstjórnir hans geta brostið frá endanna á milli og rússneskur heimavöllur hans er ekki heldur of traustur. Sjálft hagkerfi Rússlands er álíka stórt og hagkerfi meðalstórs Evrópuríkis. Það er tímabært að líta á alla tilburði Pútins réttum augum: þeir eru til marks um veikleika, ekki styrk.