Home / Fréttir / Kanadíski flugherinn með öflugustu eftirlitsvélarnar í GIUK-hliðinu

Kanadíski flugherinn með öflugustu eftirlitsvélarnar í GIUK-hliðinu

 

Kanadísk eftirlitsvél af CP-140 Aurora-gerð.
Kanadísk eftirlitsvél af CP-140 Aurora-gerð.

Sydney J. Freedberg jr., blaðamaður við vefsíðuna Breaking Defense, birti þriðjudaginn 15. ágúst viðtal við Michael Hood hershöfðingja, yfirmann kanadíska flughersins. Samtal þeirra snerist um hlut Kanadamanna við varnir hafsvæðanna fyrir norðaustan Norður-Ameríku, það er svæðið í átt að Grænlandi og Íslandi, einkum með vísan til kafbátaleitar og varna gegn vaxandi sóknarmætti á höfunum.

Í samtalinu sagði Michael Hood hershöfðingi:

„Um borð í kafbátaleitarvélum okkar hafa verið tveir menn úr röðum breska flughersins nú á tímanum á milli þess sem Bretar ráða ekki yfir Nimrod-þotunum og þeir hafa ekki eignast P-8 þoturnar [Boeing-kafbátavélar sem Bretar hafa keypt]. Við höfum einnig fyllt skarðið sem myndaðist með brotthvarfi Nimrod-vélanna með eigin kafbátaleitarvélum. Við höfum gert það með því að senda þær annaðhvort frá bresku flugherstöðinni í Lossiemouth eða frá Keflavík til að leggja okkar af mörkum við eftirlit í GIUK-hliðinu.“

Blaðamaðurinn segir að þarna vísi hershöfðinginn til varnarlínunnar frá Grænlandi um Ísland til Skotlands sem hafi orðið fræg í kalda stríðinu sem hættuleg hindrun fyrir sovéska kafbáta á leið út á Atlantshaf.

Hershöfðinginn segir að af þeim kafbátaleitartækjum sem NATO noti á þessum slóðum hafi kanadísku CP-140 Aurora flugvélarnar náð mestum árangri. Hann segist einstaklega stoltur af ágæti liðsmanna sinna og tækja þeirra við kafbátaleit og þegar hann tengi afl flughersins við hæfnina um borð í kanadísku freigátunum líti hann á framlag Kanadamanna sem þungamiðjuna í því sem NATO hafi á hendi til kafbátaleitar.

Hann segir að leitartækin um borð í CP-140 vélunum séu nákvæmari en tækin sem séu nú og enn um borð í nýju, bandarísku P-8 vélunum. Þessi tækjakostur kanadísku vélanna hafi nýlega verið endurnýjaður, einnig hafi skrokkur CP-140 gengið í endurnýjun lífdaga og vélarnar eigi að duga fram til 2032 þegar ný gerð komi til sögunnar.

Í nýrri varnarstefnu Kanada eru ákvæði sem heimila flughernum að nota mannlausar flugvélar til kafbátaleitar, segir Hood. Hann segir að næstu þrjú ár vinni flugherinn að tilraunum með meðal-háfleygar ómannaðar flugvélar á ensku: UAS (Unmanned Aerial System). Þær megi nota bæði yfir landi og sjó, þar að auki séu þær hannaðar til sóknaraðgerða.

Kanadíski flugherinn á einnig aðild að eftirliti með gervitunglum til kafbátaleitar og aðgerða yfir Norður-Íshafi. Allt er þetta unnið í náinni samvinnu við Bandaríkjamenn.

Með nýju gervitunglaneti, RADARSAT, er ætlunin að skapa tengsl gervitungla við mannlausar flugvélar, t.d. af Triton-gerð, en einnig við mannaðar eftirlitsflugvélar af ýmsum gerðum á Norður-Atlantshafi, þar má nefna uppfærða gerð af frönskum Atlantique-vélum, kanadísku CP-140 Aurora-vélarnar og nýju bandarísku P-8 Poseidon-þoturnar.

Fyrsta flug mannlausrar Triton-flugvélar frá Northrop-Grumman var 22. maí 2017 við flugvélasmiðjur félagsins í Palmdale, Kaliforníu. Flugið tók um 1,5 klukkustund. Það heppnaðist vel og staðfesti að Triton-vélin getur flogið mannlaus. Hún er sérstaklega hönnuð og smíðuð til allt að 24 stunda eftirlitsferða í meira en 16 km hæð í allt að 2.000 sjómílna fjarlægð. Með fullkomnum tækjum um borð í vélinni má sjálfkrafa greina og flokka mismunandi gerðir skipa.

 

 

 

Skoða einnig

Koch-bræður styðja Nikki Haley gegn Trump

Í forkosningunum innan Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum um forsetaframbjóðanda 2024 gerðust þau stórtíðindi þriðjudaginn 28. nóvember …