Home / Fréttir / Kalífatið er fallið í Írak og Sýrlandi – liðsmenn Daesh á vergangi

Kalífatið er fallið í Írak og Sýrlandi – liðsmenn Daesh á vergangi

 

Frá Raqqa
Frá Raqqa

Fyrir þremur árum og þremur mánuðum lýsti svonefndur emir Daesh (Ríkis íslams), Abu Bakr al-Baghdadi, yfir því í al-Nuri moskunni í Mosul í Írak að kalífat hryðjuverkasamtakanna væri komið til sögunnar og árið væri 1435 samkvæmt íslömsku tímatali. Nú er þetta ríki úr sögunni.

Nú hefur sameiginlegur herafli kúrda, súnni-múslima og sýrlenskra stjórnarandstæðinga lagt undir sig yfirlýsta höfuðborg kalífatsins, Raqqa í Sýrlandi. Hefur verið bundinn endi á öfgastjórn íslamistana. Sigrinum var fagnað þriðjudaginn 17. október á táknrænan hátt á íþróttaleikvagnginum í Raqqa þar sem böðlar Daesh höfðu áður tekið óvini samtakanna af lífið.

Liðsmenn Daesh voru annaðhvort teknir höndum eða þeir lögðu á flótta. Í fjölmiðlum má sjá myndir af þeim vígamönnum sem hafa verið teknir til fanga, margir eru illa á sig komnir og særðir. Þeir segja að forystumenn Daesh hafi reynt að bjarga sér við fall kalífatsins og nú komi það í þeirra hlut að svara fyrir þá.

Óljóst er hvort Abu Bakr al-Baghdadi, sem tók sér titilinn emír í krafti doktorsgráðu sinnar í íslamískri guðfræði, sé enn á lífi. Bandaríkjamenn sögðu nýlega að hann hefði verið felldur en síðan hafa heyrst hljóðupptökur sem kynnu að staðfesta að hann sé enn á lífi.

Hvað sem þessu líður er kalífatið hrunið. Það má að vísu enn finna nokkra afmarkaða staði við Efrat-fljót í Sýrlandi þar sem talið er að allt að 8.000 stríðsmanna Daesh hafi búið um sig. Í þeirra hópi sé m. a. öll herstjórn þeirra. Mennirnir hafa falið sig þar sem flugmenn bandarískra sprengjuvéla eiga erfitt með að ná til þeirra.

Innan bandarísku leyniþjónustunnar telja menn að það taki eitt ár að útrýma þeim sem eru á þessum griðastöðum. Á liðnu sumri voru liðsmenn Daesh hraktir frá Mosul en borgin gegndi lykilhlutverki fyrir þá efnahagslega.

Eftir að hafa unnið land og borgir af Daesh standa menn frammi fyrir spurningu um hvort samtökin búi enn yfir afli og skipulagi til að stunda hernað. Bandarískir heimildarmenn segja að tekist hafi að brjóta upp stjórn- og herskipulagið sem leiddi til þess fyrir þremur árum að kalífatið var stofnað.

Þess í stað sé líklegt að einstakir foringjar inna Daesh taki upp samstarf við héraðs- eða ættarhöfðingja og nýti sér það til leifturárása á sama hátt og Talíbanar gera í Afganistan. Einstakir foringjar og menn í kringum þá hafa hins vegar enga burði til samfellds hernaðar og má því líkja þeim við glæpahópa sem velja sér fórnarlömb eftir efnum og ástæðum.

Yfirráðasvæði kalífatsins í Sýrlandi og Írak er nú aðeins um 13% af því sem það var mest vorið 2015. Svæðið er sundrað og myndar ekki ríkisheild.

Þegar kalífatið var stofnað árið 2014 sótti her þess fram með miklum hraða. Til liðs við herinn komi ungir „heilagir stríðsmenn“ frá öllum heimshornum. Sveitir þeirra fóru vopnaðar á opnum pallbílum á ógnarhraða yfir Sýrland og Írak og eftir þeim fylgdu þungir brynvarðir bílar og fallbyssur. Um tíma voru þeir aðeins 50 km frá Bagdad, höfuðborg Íraks.

Undir stjórn Daesh ríkti harðræði og grimmd. Þeir voru miskunnarlaust ofsóttir sem sættu sig ekki við að hverfa aftur til íslamskra lifnaðarhátta sem tíðkuðust á tíma spámannsins fyrir 1400 árum. Daesh sýndi minnihlutahópi yazidia meiri grimmd en öðrum. Yazidiar leituðu skjóls í Sinjar-fjalli og var bjargað með loftárásum fjölþjóðlegs liðs, annars hefði þeim verið útrýmt.

Hryðjuverk fengu á sig nýja mynd. Erlendir gíslar voru skornir á háls í beinni útsendingu í sjónvarpi, aftökur fóru fram fyrirvaralaust á götum úti, samkynhneigðum og öðrum, sem kallaðir voru afbrigðilegir, var varpað af svölum hárra bygginga. Hryðjuverk voru einnig flutt út til annarra landa. Daesh hefur sagt fjölmörg hryðjuverk á Vesturlöndum unnin á sína ábyrgð.

Eftir fall kalífatsins leita sumir vígamannanna til annarra svæða til að stunda heilagt stríð. Aðrir snúa heim til Vestur-Evrópu og Bandaríkjanna. Yfirvöld þar óttast að þeir nýti sér þar þá hernaðarkunnáttu sem þeir hafa tileinkað sér og efni til hryðju- eða glæpaverka. Til verði alþjóleg skæruliðahreyfing í þágu heilags stríðs, jihad. Ekkert bendir til að jihad hafi misst aðdráttarafl sitt meðal þeirra ungmenna sem eru fús að fórna sér fyrir heilagan málstaðinn.

Hjá þessum hópum vígamanna verður það markmið í sjálfu sér að vinna hryðjuverk og stunda skæruhernað til að sýna að Daesh sé enn á lífi og starfandi. Það sé besta leiðin til að kalla á fleiri inn í samtökin.

Heimild: Jyllands-Posten

 

 

Skoða einnig

Drónaárás gerð á Moskvu

Ráðist var með drónum á Moskvu, höfuðborg Rússlands, að morgni þriðjudags 30. maí. Svo virðist …