Home / Fréttir / Kafbátaumsvif Rússa kalla á viðbrögð í GIUK-hliðinu

Kafbátaumsvif Rússa kalla á viðbrögð í GIUK-hliðinu

Úr greininni í riti IISS
Úr greininni í riti IISS

Fræðimenn sem spá fyrir um þróun alþjóðamála á næstu áratugum gera ráð fyrir því að vægi norðurheimskautssvæðisins vaxi umtalsvert á tímabilinu. Umhverfi svæðisins tekur miklum breytingum sem veldur því að ríki sýna því meiri áhuga ekki síst efnahagslegan.

Ýmsar aðrar breytingar eiga sér stað á svæðinu. Öryggisumhverfið hefur til að mynda tekið stakkaskiptum á undanförnum árum. Rússar eru þar áhrifavaldar á enda hafa þeir styrkt herstöðu sína á norðurslóðum.  Rússneski Norðurflotinn á Kólaskaga gegnir lykilhlutverki í átaki þeirra en hlutverk hans er að gæta hagsmuna Rússlands í Íshafinu og á Norður- Atlantshafi.

Ný gjöreyðingarvopn á norðurslóðum

Norðurfloti nútímans er smærri en flotinn sem Sovétmenn gerðu út frá Kólaskaga í kalda stríðinu en Rússar hafa efnt hann með ýmsu móti á undanförnum árum.  Rússar hafa meðal annars endurnýjað kjarnorkukafbátaflota sinn, bæði svokallaða árásarkafbáta (e. attack submarines) og kjarnaflaugakafbáta (e. ballistic missile submarines).

Á norsku vefsíðunni The Barents Observer var 18. maí síðastliðinn fjallað um nýjasta kjarnaflaugakafbát Norðurflotans, Knjaz Vladimir, sem nefndur er eftir Valdimar mikla sem réð Garðaríki á árunum 980 -1015.  Báturinn er af tegund sem á ensku kallast Borei.  Byrjað var að hanna bátana um miðjan níunda áratuginn.  Hrun Sovétríkjanna tafði verkefnið.  Ekki bætti úr skák að illa gekk að hanna skotflaugar í bátunum. Upphaflega áttu þeir að bera svokallaðar Bark-flaugar en tegundin var gallagripur og í stað hennar hönnuðu Rússar Bulava‘flaugar sem létu illa að stjórn í fyrstu.  Því fór svo að smíði fyrsta bátsins Juríj Dolgorukíj, sem nefndur er eftir stofnanda Moskvuborgar, hófst ekki fyrr en árið 1996.  Báturinn var sjósettur árið 2008 og síðan tekinn í notkun árið 2013.  Hann er nú hluti Norðurflotans en næstu tveir bátar voru afhentir Kyrrahafsflota Rússa með höfuðstöðvar í Vladivostok.

Knjaz Vladimir er sem sagt fjórði báturinn af Borei-gerð en alls áætla Rússar að smíða átta kafbáta og eiga fjórir þeirra að vera í Norðurflotanum. Taka átti Knjaz Vladimir í notkun árið 2017 en tæknileg vandamál gerðu það að verkum að það hefur dregist. Segir The Barents Observer nú stutt þar til hann bætist við Norðurflotann.

Líkt og hinir bátarnir þrír ber Knjaz Vladimir 16 Bulava-flaugar en að öðru leyti er hann nokkuð frábrugðinn þeim enda af nýrri gerð. Hægt er að greina hann frá hinum bátunum á útlitinu einu saman vegna byrðingsins.  Meginmunurinn felst þó í tækninni um boð.  Hún hefur verið uppfærð og þannig er haffærni Knjaz Valdimir mun betri en hinna.  Hann er líka hljóðlátari en þeir.

Atlantshafsbandalagið snýst til varnar

Aukin umsvif rússneska hersins á norðurslóðum veldur NATO-ríkjunum áhyggjum enda búa Rússar nú yfir ýmsum hátækni­vopnum fyrir utan Borei-kafbátana. Tæknilegir yfirburðir NATO eru því ekki jafn miklir og þeir voru fyrir nokkrum árum.

Fjallað er um viðbrögð bandalagsins í greininni The GIUK Gap´s strategic significance. Hún birtist sl. haust í Strategic Comments hjá The International Institute for Strategic Studies (IISS) í London. Þar segir að NATO vanrækti Norður-Atlantshafið á árunum eftir kalda stríðið. Svo sé ekki lengur og ýmislegt hafi verið gert til að bæta stöðu NATO á svæðinu. Þannig hafi Bandaríkjamenn endurvakið 2. flota sinn með heimahöfn í Norfolk í Virginíuríki í Bandaríkjunum og kafbátaleit er meiri en áður á hafsvæðinu.

Að mati greinarhöfundar skiptir mestu máli fyrir NATO að styrkja stöðu sína við GIUK-hliðið. Er þá átt við hafsvæðið á milli Grænlands, Íslands og Bretlands. Hann hafnar rökum þeirra sem segja að hliðið skipti ekki máli því hátæknivopn geri það að verkum að rússneski flotinn geti haldið sig mun norðar í Atlantshafi. Þetta sé ekki skoðun Rússa sem líti á hliðið sem varnarlínu kafbáta sinna í norðurhöfum. Ekki megi heldur gleyma því að þó Rússar eigi færri kafbáta en í kalda stíðinu láti þeir sig dreyma um að senda þá suður í Atlantshaf, brjótist út átök. Þar gætu þeir herjað á flota NATO-ríkjanna og eyðilagt neðansjávargagnakapla. Þar sem Ísland er lykilhlekkur í GIUK-hliðinu mun hernaðarlegt mikilvægi hafsvæðisins í kringum landið því að öllum líkindum aukast á næstu árum.

 

Höfundur:

Kristinn Valdimarsson

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …