Home / Fréttir / Kafbátaleitaræfing NATO hafin undan ströndum Íslands

Kafbátaleitaræfing NATO hafin undan ströndum Íslands

2_slide1

Æfing NATO til eftirlits með kafbátum, Dynamic Mongoose 2017, hófst undan ströndum Íslands mánudaginn 26. júní með þátttöku skipa, kafbáta, flugvéla og mannafla frá 10 NATO-löndum, segir í fréttatilkynningu MARCOM, flotastjórnar NATO sem gefin var út í Reykjavík að morgni mánudags 26. júní.

Kafbátar frá Frakklandi, Þýskalandi, Hollandi, Noregi og Bandaríkjunum undir aðgerðastjórn NATO Submarine Command (COMSUBNATO), kafbátastjórn NATO, taka þátt í æfingunni með 11 skipum frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Danmörku, Frakklandi, Hollandi, Íslandi, Kanada og Póllandi og NATO rannsóknaskipinu, NRV Alliance, undir stjórn Ole Mortens Sandquists yfirskipherra (SNMG1). Við æfinguna er stuðst við aðstöðu í Reykjavíkurhöfn og á Keflavíkurflugvelli.

Átta flugvélar sem stunda eftirlit á hafinu frá Bandaríkjunum, Frakklandi, Íslandi, Kanada og Þýskalandi taka þátt í æfingunni frá Keflavíkurflugvelli undir stjórn NATO Maritime Air Command (COMMARAIR), flugflotastjórnar NATO, sem hefur tímabundið aðsetur á vellinum.

Tilgangur æfingarinnar er að gefa öllum þátttakendum tækifæri til að takast á við flókin og erfið verkefni í því skyni að efla samhæfingu milli þeirra og hæfni til að takast á við verkefni vegna ferða skipa neðan- og ofansjávar.

Arnór Sigurjónsson, skrifstofustjóri öryggis- og varnarmála í utanríkisráðuneytinu, segir í fréttatilkynningu MARCOM:

„Æfing á vegum NATO á hafinu fyrir sunnan Ísland er til marks um aukna athygli á Norður-Atlantshafi og hún mun auka þekkingu og reynslu innan bandalagsins varðandi svæðið.“

Ítalski flotinn annast á þessu ári úthald Alliance, rannsóknaskips NATO, en það starfar í þágu Centre for Maritime Research and Experimentation (CMRE), hafrannsókna- og tilraunastofnunar NATO, sem er í La Spezia á Ítalíu.

Kevin LePage er yfirmaður á vegum CMRE í æfingunni að þessu sinni og segir að þátttaka vísinda- og rannsóknamanna í henni sýni áhuga NATO á að þróa nýja tækni við kafbátaleit sem reist er á fjarstýrðum búnaði.

Á vegum CMRE verður gerð tilraun með mannlaus neðansjávartæki til kafbátaleitar (OEX Explorer AUVs) og mannlaus ofansjávartæki (Wave-Glider USV).

 

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …