Home / Fréttir / Kafbátaæfing Bandaríkjamanna og Breta í Norður-Íshafi

Kafbátaæfing Bandaríkjamanna og Breta í Norður-Íshafi

Myndin er frá 2011 þegar bandaríski kafbáturinn USS Connecticut braust í gegnum ís Norður-Íshafs. » surfaced in the Arctic. Photo: Kevin S. O’Brien / U.S. Navy
Mynd bandaríska flotans er frá 2011 þegar kafbáturinn USS Connecticut braust í gegnum ís Norður-Íshafs.

Þrír kjarnorkuknúnir kafbátar, tveir bandarískir og einn breskur, sveima nú undir ísþekjunni á Norður-Íshafi. Þeir taka þátt í fimm vikna æfingu sem haldin er annað hvert ár og ber nú heitið ICEX 2018.

Æfingunni er stjórnað frá stöð á ísjaka. Stöðin er kölluð Ice Camp Skate. Þar hafa verið reist til bráðabirgða mannvirki sem hýsa stjórnstöðina og aðstöðu fyrir meira en 50 sjóliða.

Kafbátarnir fara víða um undirdjúp íshafsins og brjótast upp úr ísnum á Norðurpólnum. Áhafnir þeirra safna rannsóknargögnum og þjálfa sig við erfiðar aðstæður á nyrsta hluta jarðarkringlunnar að sögn James Pitts, flotaforingja, yfirmanns Kyrrahafsflota Bandaríkjanna.

„Við reynum stöðugt nýjar bardagaaðferðir, tækni og framkvæmd aðgerða undir ísnum og í þessari æfingu gefst færi á að víkka ramman með þátttöku Breta og samstarfsaðila úr háskólasamfélaginu,“ sagði flotaforinginn um miðja vikuna þegar æfingin var kynnt.

Bandarísku kafbátarnir eru USS Connecticut af Seawolf-gerð og USS Hartford af Los Angeles-gerð, frá Bretlandi kemur HMS Tenchant af Trafalgar-gerð.

Fyrir tveimur árum var efnt til svipaðrar æfingar undir ísbreiðu Norður-Íshafsins.

Nafnið á stjórnstöðinni, Skate, höfðar til bandaríska kafbátsins USS Skate. Hann varð fyrstur kafbáta árið 1958 til að fara upp á yfirborðið í vök á Norður-Íshafi. Ári síðar, í mars 1959, varð hann síðan fyrstur kafbáta til að brjótast upp úr ísnum á Norðurpólnum. Frá þeim tíma hafa kjarnorkukafbátar verið tíðir gestir í Norður-Íshafi.

Nú eru meira en 70 ár liðin frá því að tekið var til við að nota kafbáta undir ís í Norður-Íshafi.

 

 

 

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …