Home / Fréttir / Jyllands-Posten: Ráðaleysi innan ESB vegna flóttamannavandans

Jyllands-Posten: Ráðaleysi innan ESB vegna flóttamannavandans

 

Riddaralögregla Slóveníu reynir að stýra straumi flóttamanna,
Riddaralögregla Slóveníu reynir að stýra straumi flóttamanna,

Í danska blaðinu Jyllands-Posten birtist þriðjudaginn 10. nóvember leiðari um flóttamannavandann í Evrópu og úrræðaleysið innan ESB vegna hans. Leiðarinn birtist hér í lauslegri þýðingu:

„Þegar Inger Støjberg [dómsmálaráðherra Dana úr Venstre-flokknum] hóf gagnsókn með auglýsingum í erlendum fjölmiðlum og birti viðvaranir til flóttafólks um leggja ekki í hættuför til Danmerkur var framtakið gagnrýnt sem fáheyrt og öfgafullt. Hið sama var sagt um hertar reglur ríkisstjórnarinnar til dæmis varðandi fjölskyldusameiningu.

Nú er hins vegar einfaldlega unnt að benda á að víða um Evrópu feta menn í hin dönsku spor. Á nýjan hátt að danskri fyrirmynd, ef svo má orða það. Hvarvetna herða menn reglurnar í dönskum anda. Á föstudaginn opnaði norska ríkisstjórnin Facebook-síðu þar sem lýst er hertum reglum vegna flóttafólks: lækkun bóta, hraðari brottvísun og lengri dvöl í biðstöðu. Ætlunin er að þýða textann, meðal annars á rússnesku og arabísku.

Svíar lýsa sjálfum sér sem stórveldi á sviði mannúðarmála, nú hefur meira að segja ríkisstjórn þeirra tilkynnt að ekki sé lengur unnt að tryggja hinum mörgu flóttamönnum sem stöðugt leita inn yfir sænsk landamæri húsaskjól. Ríkisstjórnin dregur ekki dul á að með þessum orðum leitast hún einnig við að bægja fleirum frá landinu.

Angela Merkel í Þýskalandi sagði „Við björgum þessu“ og gaf þar með flóttamönnunum tóninn, þessi stefna sætir nú víðtækri andstöðu. Sýrlenskum flóttamönnum gefst ekki tafarlaust færi á fjölskyldusameiningu. Bætur verða lækkaðar, brottvísunum verður hraðað og innan ríkisstjórnarinnar sömdu menn nýlega um að koma á fót skrásetningarstöðvum.

Allar aðgerðirnar eiga það sameiginlegt að með þeim á að reyna að slá á ófyrirsjáanlegan fólksstraum. Að því er virðist hefur mönnum ekki tekist að finna leið til að koma á eiginlegri og skipulegri stjórn mála.

Allt frá því að fyrstu bátunum var ýtt úr vör með fólk á leið yfir Miðjarðarhaf, fólk sem af einhverri ástæðu vildi á vit nýs lífs í Evrópu, hafa evrópskir stjórnmálamenn fálmað sig áfram. Fyrst var flutt róandi boðskapur um að Evrópa mundi ráða við þetta, síðan var sagt að ástandið væri undantekning, hvað sem öðru liði myndi það breytast þegar vetur gengi í garð. Nú er vetur að koma og bátarnir einnig; nú með farþega sem borgað hafa niðursett verð vegna hættunnar sem veðrið veldur. Ekkert bendir til þess að hlé verði á þessu.

Evrópskir stjórnmálamenn ræða áfram hvernig deila eigi broti hins mikla fjölda flóttafólks sem hefur tekist að fara yfir landamæri Evrópu. Á  nokkrum stöðum hafa ábyrgir stjórnmálamenn fengið að finna fyrir viðbrögðum kjósendanna þegar þeir sjá engar útlínur lausnar: Flokkar sem vilja skella í lás fá aukið fylgi. Þetta gerðist nýlega í Póllandi og hið sama endurtók sig í Króatíu þegar kosið var til þings um helgina. Flóttamannakrísan er í stuttu máli eitt helsta sprengiefni evrópskra stjórnmála.

Mun meira er þó í húfi en stjórnarskipti í þingkosningum. Flóttamannakrísan kann að breyta Evrópu um aldur og ævi. Þar er ekki aðeins um samsetningu íbúanna að ræða heldur einnig grunngildi ESB og ekki síst traustið sem myndast hefur milli Evrópuþjóða. Spurninguna um hvort Evrópa lifi af í sinni alkunnu mynd er ekki lengur unnt að skoða sem dæmi um ótímabæra hræðslu.

Innri landamæri ESB eru opin í trausti þess að hin ytri séu vöktuð. Það er forsenda Schengen-samkomulagsins. Það hefur ekki gengið eftir og enn einu sinni kemur í ljós að hvað sem líður virkum efnahagslegum samruna í Evrópu einkenna veikleikar stjórnmála-samrunann og mótun sameiginlegrar utanríkisstefnu.

Eins og málum er nú háttað sækir tilvistarkreppa að Evrópu og enginn hefur fundið leið út úr henni. Því má þó slá föstu að á hvorugt öfgasjónarmiðið: „Komið bara, þetta reddast“ eða hið gagnstæða „Við harðlæsum með gaddavír og handjárnum“ sé litið sem raunhæfan kost. Hvað þá er til ráða hefur ekki enn verið kynnt Evrópumönnum með haldgóðum rökum.“

 

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …