
Kína á enga sanna vini, er fyrirsögn á leiðara Jyllands-Posten föstudaginn 1. maí. Þar er þess krafist að frjáls lýðræðisríki haldi fast í kröfuna um sjálfstæða, alþjóðlega rannsókn á kórónafaraldrinum, sérstaklega upphafi hans. Þetta vilja Kínverjar alls ekki. Hvers vegna?
Hér birtist leiðarinn í heild:
„Þetta er veira sem hefur kostað meira en 200.000 mannslíf um heim allan. Þess vegna er eðlilegt og ábyrgt að heimurinn óski eftir óhlutdrægu mati á hvernig þetta gat allt gerst svo að við getum dregið af því lærdóm og reynt að hindra að þetta endurtaki sig.“
Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu, hafði varla lokið við að koma þessum orðum frá sér áður en talsmaður ríkisstjórnarinnar í Peking hafði lýst Ástralíu sem „tyggjóklessu neðan á skósóla Kína“ og þá hefur Jingye Cheng, sendiherra Kína í Canberra, hótað neytendabanni á ástralskar vörur.
Í leiðara Global Times, blaðs kínverska kommúnistaflokksins, segir meðal annars: „Hugdjörf ferð áströlsku ríkisstjórnarinnar á vit villtra ævintýra getur eyðilagt víðtækan, strategískan félagsskap sem er báðum til góðs enda þótt það sé þvert á raunsæja hugsun og almenna, heilbrigða skynsemi“.
Mynstrið er raunar vel þekkt. Nægir að spyrja í Brussel þar sem Kínverjar hafa nokkrum sinnum hótað framkvæmdastjórn ESB vegna þess að í innanhúss skýrslu er bent á að kínverskir ráðamenn noti „bæði ódulbúnar og dulbúnar aðferðir“ í „hnattrænni herferð upplýsingafalsana“ í því skyni að ýta allri ábyrgð frá kínverskum yfirvöldum. Umrituð og milduð útgáfa af skýrslunni var birt opinberlega sem gefur því miður til kynna að Kínverjar beita ekki þrýstingi til einskis.
Um síðustu helgi sagði Donald Trump Bandaríkjaforseti að stjórnin í Peking hefði getað gert meira til að hindra útbreiðslu banvænu kórónuveirunnar, við það hófu kínverskir ríkismiðlar að flytja kröftuga gagnrýni á þessi orð.
Hér á heimaslóð [í Kaupmannahöfn] hefur sendiherra Kína, Feng Tie, ekki haldið sig til hlés og meðal annars krafið þetta blað afsökunar vegna teikningar sem birtist 27. janúar. Nú síðast hefur hann í samtali við TV2 News ávítað danska fjölmiðla fyrir að hafa ekki gefið hlutlæga mynd af „grímum, skimunarbúnaði, öndunarbúnaði og hlífðarfötum sem komið hefur í miklu magni“ frá Kína til Danmerkur. Kerfiskarlinn Feng Tie gerir meira en gefa til kynna að Danir hafi ekki sýnt þá undirgefni sem menn vænta í Peking. Hlægilegi Ali lifði ekki til einskis.*
Móðgaði sendiherrann hefur greinilega ekki séð að ríkisreknar, danskar sjónvarpsstöðvar sýndu af sér bestu kínversku takta þegar menn þeirra biðu tilbúnir á Kaupmannahafnarflugvelli 8. apríl við komu flutningavélar með varning frá Kína, Magnus Heunicke heilbrigðisráðherra tók einnig á móti vélinni og sýndi að hann hefur tilfinningu fyrir valdboðsáróðri þegar hann lagði sig ákafur fram við að tæma vélina. Sjónvarpsmyndskeið af þessu tagi eru til heimabrúks í Kína í hvítþvottarherferðinni sem veldur því að það verður meira en erfitt að hrinda af stað alþjóðlegri vísindalegri rannsókn á öllum þáttum kórónafaraldursins.
Nú þegar hefur stjórnin í Peking komið í veg fyrir að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, geti safnað og miðlað af reynslunni sem fékkst á Tævan þar sem aðeins hafa fundist 429 staðfest tilvik og sex eru látnir af 24 milljón íbúum.
Í Nóbelsfyrirlestri sínum segir Aleksander Solsjenitsyn „ofbeldið finnur aðeins skjól í lygi; lygin einu stoð sína í ofbeldi“. Einræði eins og það sem ríkir í Kína þrífst aðeins í krafti lygi og ofbeldis. Þar telst ekki annað sannleikur en útgáfa valdhafanna.
Kína á enga raunverulega vini. Þau ríki sem sýna ráðamönnum í Peking vinsemd eru efnahagslega háð Kína.
Hvað sem Kína líður: Frjáls lýðræðisríki heims verða halda fast í kröfuna um sjálfstæða, tæmandi rannsókn á kórónufaraldrinum og sérstaklega upphafi hans.
—
*þarna er vísað til upplýsingaráðherra Saddams Husseins, harðstjóra í Írak. Sá Ali þótti oft hlægilegur þegar hann bar blak á húsbónda sínum í stríðinu í Írak árið 2003. Þýð.