
Evrópusambandið glímir að minnsta kosti að hluta við tilvistarkreppu, sagði Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, í upphafi stefnuræðu sinnar á ESB-þinginu miðvikudaginn 14. september. Á þeim mörgu árum sem hann hefði fylgst með og tekið þátt í starfi sambandsins hefði hann aldrei orðið vitni að svo lítilli samstöðu aðildarríkjanna eða svo litlum vilja þeirra til að vinna saman.
Hann hefði aldrei fyrr heyrt jafnmarga leiðtoga einstakra ríkja aðeins ræða um viðfangsefni sín á heimavelli og nefna aðeins Evrópu í framhjáhlaupi ef þeir myndu þá yfirleitt eftir henni.
Aldrei fyrr hefði hann séð fulltrúa stofnana ESB setja allt önnur mál á oddinn en ríkisstjórnir aðildarríkjanna, ef tillögunum væri ekki beinlínis beint gegn vilja ríkisstjórnanna og þjóðþinganna. Það væri engu líkara en ekki ættu sér stað nein skoðanaskipti milli ráðamanna ESB annars vegar og í höfuðborgunum hins vegar.
Aldrei fyrr hefði hann séð ríkisstjórnir einstakra landa standa svo höllum fæti andspænis lýðskrumurum og lamaðar af ótta við að taka áhættu vegna næstu kosninga.
Aldrei fyrr hefði hann kynnst jafnmiklu sundurlyndi og svo lítilli samheldni innan sambandsins.
Valið væri skýrt, ætti að gefast upp vegna vonbrigðanna, ætti að leggast í sameiginlegt þunglyndi, ætti að horfa á sambandið leysast upp fyrir framan nefið á sér? Eða ætti að snúa vörn í sókn, taka sig saman í andlitinu, bretta upp ermar og leggja harðar að sér? „Er ekki runninn upp sá tími þegar Evrópa þarfnast ákveðnari forystu en nokkru sinni í stað þess að stjórnmálamenn stökkvi frá borði?“ spurði Juncker og boðaði síðan stefnu sína í löngu máli.
Hluti ræðunnar snerist um öryggis- og varnarmál, Evrópu sem veitti vörn heima fyrir og erlendis.
Það yrði að tryggja vernd gegn hryðjuverkum. Frá árásinni í Madrid árið 2004 hefðu hryðjuverkamenn gert rúmlega 30 árásir í Evrópu – þar af 14 á árinu 2015. Rúmlega 600 manns hefðu fallið fyrir hryðjuverkamönnum í borgum eins og París, Brussel, Nice og Ansbach.
Framkvæmdastjórn ESB hefði undir forsæti sínu lagt höfuðáherslu á að líta bæri á hryðjuverkamenn og erlenda vígamenn sem glæpamenn, það yrði að gera vopn upptæk og stöðva fjárstreymi til þeirra. Unnið hefði verið með netveitum að því að hreinsa hryðjuverkaáróður út netheimum og barist hefði verið gegn öfgahyggju í skólum Evrópu og fangelsum.
Það yrði einnig að herða landamæraeftirlit. Þess vegna væri ný Landamæra- og strandgæslustofnun Evrópu komin til sögunnar en ESB-þingið og ráðherraráð ESB legðu nú lokahönd á formsatriði vegna hennar. Á vegum Frontex, Landamærastofnunar Evrópu, væru nú um 600 landamæraverðir við störf á mörkum Tyrklands og Grikklands og um 100 í Búlagríu. Fjölga yrði um 200 menn og 50 farartæki í Búlgaríu fyrir lok október.
Frá og með áramótum yrði skráð þegar einhver kæmi inn á Schengen-svæðið eða yfirgæfi það, hvenær, hvar og hvers vegna.
Í nóvember yrði lagt til að tekið yrði upp European Travel Information System – Evrópska ferðaupplýsingakerfið – sjálfvirkt kerfi til að ákveða hverjum skuli leyfa að ferðast til Evrópu. Á þennan hátt yrði vitað hver væri á leiðinni til Evrópu áður en hann kæmi þangað.
Þá yrði Europol – Evrópulögreglan – efld með nýjum og betri gagnagrunnum og auknum fjárveitingum. Þar væri nú starfandi 60 manna gagn-hryðjuverkadeild á vakt allan sólarhringinn.
Samhliða því sem innra öryggið væri eflt yrði að styrkja sameiginlegar varnir ESB út á við. Evrópumenn gætu ekki látið við það sitja að beita „mjúku valdi“, þeir yrðu að sýna meiri hörku í varnarmálum.
Evrópubúar gætu ekki lengur leyft sér að láta aðra bera hita og þunga í hermálum eða láta Frakka eina gæta heiðurs þeirra í Malí. Þeir yrðu að bera ábyrgð á eigin hagsmunum og verja eigin gildi og lífshætti.
Undanfarin áratug hefði ESB átt aðild að á fjórða tug borgaralegra og hernaðarlegra aðgerða frá Afríku til Afganistan. Sambandið gæti þó ekki staðið að slíkum verkefnum á viðunandi hátt án fastmótaðs skipulags og stofnana. Vegna skorts á þessu tefðist framkvæmd brýnna aðgerða. Það væri tímabært að færa stjórn þeirra á eina hendi í einum höfuðstöðvum.
Þá ætti ESB einnig að eiga eitthvað af hergögnum til sameiginlegra nota án þess, að sjálfsögðu, að ganga á hlut NATO. Frá viðskiptalegu sjónarmiði væri auðvelt að rökstyðja nauðsyn aukins samstarfs, skortur á því kostaði Evrópuríki milli 25 og 100 milljarða evra á ári. Nýta mætti þá fjármuni mun betur. Það væri til dæmis gert núna með fjölþjóðlegum flota eldsneytisflugvéla.
Varnir Evrópu yrðu ekki styrktar án nýsköpunar í evrópskum vopnaiðnaði. Þess vegna væri lagt til að fyrir árslok yrði komið á fót Evrópskum hervarnasjóði, ofurhvata til að ýta undir rannsóknir og nýsköpun.
Í Lissabon-sáttmálanum segði að aðildarríki sem það vildu gætu tekið saman höndum í varnarmálum og komið á fót sameiginlegri stjórn samvinnunnar. Taldi hann tíma kominn til að virkja þetta ákvæði. Vonandi yrði fyrsta pólitíska skrefið í þá átt stigið að 27-ríkja ESB-leiðtogafundinum í Bratislava föstudaginn 16. september.
Evrópumönnum tækist aðeins að verja sig heima og erlendis með því að vinna saman.