Home / Fréttir / Juncker segir Bandaríkjamenn nota of þrönga skilgreiningu á útgjöldum til öryggismála

Juncker segir Bandaríkjamenn nota of þrönga skilgreiningu á útgjöldum til öryggismála

Frá öryggisráðstefnunni ó München.
Frá öryggisráðstefnunni ó München.

Öryggismálaráðstefnan í München hófst formlega föstudaginn 17. febrúar en hún er strundum kölluð Davos-öryggismálanna með vísan til alþjóðasamkomu um efnahagsmál í svissneska fjallabænum Davos. Ráðstefnan er nú haldin í 53. skipti með um 500 þátttakendum. Þar eru 16 þjóðhöfðingjar, 15 forsætisráðherrar, 47 utanríkisráðherrar, 30 varnarmálaráðherrar , 59 fulltrúar alþjóðastofnana, þeirra á meðal aðalritari Sameinuðu þjóðanna, framkvæmdastjóri NATO og utanríkismálastjóri ESB, auk þingmanna og forystumanna úr viðskipta- og atvinnulífinu.

Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, var meðal ræðumanna í forfundi í München fimmtudaginn 16. febrúar og sagði rangt af Bandaríkjastjórn að hvetja evrópsk ríki í NATO til að auka útgjöld sín til hermála.

„Þetta hefur árum saman verið boðskapur Bandaríkjamanna. Ég er mjög andvígur því að á okkur sé þrýst á þennan hátt,“ sagði Juncker.

Hann taldi að skilgreining Bandaríkjamanna á öryggi væri „of þröng“, einnig ætti að taka tillit til þess sem ESB-ríkin verja til þróunar- og mannúðarstarfs. Líta bæri á þetta sem framlag til að stuðla að „stöðugleika“ erlendis. Hann sagði:

„Mér líkar ekki þegar bandarískir vinir okkar skilgreina öryggi aðeins með því að að vísa til hermála. Sé litið til þess sem Evrópuríkin gera í varnarmálum auk þróunaraðstoðar og auk mannúðaraðstoðar verður samanburðurinn við Bandaríkin nokkuð annar. Nútímastjórnmál geta ekki aðeins snúist um að auka útgjöld til varnarmála. Evrópuríkin verða að ná betur utan um varnarútgjöld sín og nýta fjármunina betur.“

Miðvikudaginn 15. febrúar flutti Jim Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, ræðu á fundi NATO-ráðherra í Brussel og hvatti þar meðal annars til að NATO-ríkin stæðu við skuldbindingu sína um að verja 2% af vergri landsframleiðslu (VLF) til varnarmála.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, sagði miðvikudaginn 15. febrúar að í orðum Mattis fælist ekki að Bandaríkjastjórn beitti NATO-ríkin þrýstingi vegna þess að árið 2014 hefðu þau öll samþykkt að verja að minnsta kosti 2% af VLF til varnarmála.

Fimmtudaginn 16. febrúar sagði Stoltenberg að ekki ætti að skilja Mattis þannig að ástæða væri til að efast um vilja Bandaríkjastjórnar til að standa við skuldbindingar sínar samkvæmt 5. gr. Atlantshafssáttmálans um gagnkvæmar varnarskuldbindingar NATO-ríkjanna.

Mattis verður á fundinum í München og einnig Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna.

Frásögn af ræðu Mattis á NATO-fundinum birtist hér á síðunni föstudaginn 17. febrúar. Hann sagði fimmtudaginn 16. febrúar að eins og málum væri nú háttað gætu Bandaríkjamenn og Rússar ekki átt samstarf á sviði hermála.

Rex Tillerson utanríkisráðherra sat fundi utanríkisráðherra G20-ríkjanna í Bonn fimmtudaginn 16. febrúar og hitti þar meðal annarra Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands. Eftir fundinn sagði Tillerson:

„Bandaríkjamenn munu huga að samvinnu við Rússa þegar við getum fundið svið til raunhæfs samstarfs sem eru bandarísku þjóðinni til gagns. Þar sem við erum ósammála mun Bandaríkjastjórn gæta hagsmuna sinna og bandamanna sinna.“

Vladimír Pútín Rússlandsforseti ávarpaði leyni- og öryggislögregluna FSB fimmtudaginn 16. febrúar og sakaði NATO um stöðugar ögranir í garð Rússa í því skyni að stofna til árekstra við þá.

 

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …