Home / Fréttir / Juncker fagnar nýju skrefi í átt til evrópsks varnarsambands

Juncker fagnar nýju skrefi í átt til evrópsks varnarsambands

Jean-Claude Juncker
Jean-Claude Juncker

Gegnsæi er ekki alltaf leiðarljós við töku ákvarðana á vettvangi Evrópusambandsins. Nýtt varnarsamband innan ramma ESB ber til dæmis enska nafnið: Permanent Structured Cooperation (PESCO). Nú hafa ríkisstjórnir 25 ESB-ríkja kynnt 17 samstarfsverkefni innan ramma varnarsamstarfsins með samþykki framkvæmdastjórnar ESB.

Af þessu tilefni er haft eftir Jean-Claude Juncker, forseta framkvæmdastjórnarinnar, á vefsíðunni New Europe  þriðjudaginn 12. desember:

„Í júní sagði ég að tímabært væri að vekja Þyrnirósu í Lissabon-sáttmálanum; fastmótað skipulag á samvinnu. Það gerist nú sex mánuðum síðar.

Evrópski varnarmálasjóðurinn sem framkvæmdastjórn ESB kom á fót mun leggja sitt af mörkum til þessa framtaks og stuðla enn frekar að samvinnu í varnarmálum – þar á meðal með stuðningi við ýmis verkefni sem kynnt voru í dag.“

Í fréttatilkynningu frá framkvæmdastjórninni er PESCO lýst sem leið innan sáttmála ESB fyrir aðildarríkin til að auka samstarf sitt í varnar- og öryggismálum.

Alls tóku 23 ESB-ríki fyrsta skrefið undir merkjum PESCO 13. nóvember 2017 þau eru: Austurríki, Belgía, Búlgaría, Eistland, Finnland, Frakkland, Grikkland, Holland, Ítalía, Lettland, Litháen, Lúxemborg, Króatía, Kýpur, Pólland, Rúmenía, Slóvakía, Slóvenía, Spánn, Svíþjóð, Tékkland, Ungverjaland og Þýskaland. Síðan hafa Írland og Portúgal bæst í hópinn. Þátttökuríkin eru því 25, Danmörk og Malta eru ekki í hópnum fyrir utan Breta sem eru á leið úr ESB.

Juncker hefur hvatt til aukinnar samvinnu í varnar- og öryggismálum innan ESB frá því að hann varð forseti framkvæmdastjórnarinnar. Hann telur samstarfið ekki aðeins fjárhagslega hagkvæmt heldur styrki það stöðu ESB út á við.

Framkvæmdastjórn ESB telur að PESCO auðveldi aðildarríkjunum að þróa herstyrk sinn, sameinast um verkefni, auka viðbragðsflýti og efla gæði heraflans. Talið er að fyrstu verkefnum undir merkjum PESCO verði hrundið í framkvæmd snemma árs 2018.

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …