
ESB á að leggja meira af mörkum til að halda ólöglegu aðkomufólki utan dyra, herða reglur um peningaþvætti og snúast hraðar gegn áróðri hryðjuverkamanna. Þá á að hætta að hafa sameiginlegan sumar- og vetrartíma innan ESB og Evrópumenn eiga efla samband sitt við þjóðir Afríku.
Þetta kom meðal annars fram í stefnuræðunni sem Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, flutti á ESB-þinginu í Strassborg miðvikudaginn 12. september. Þetta er síðasta stefnuræða Junckers, hann lætur af embætti á árinu 2019.
Í ræðunni staðfesti Juncker það sem framkvæmdastjórnin hafði þegar kynnt fyrr á árinu að stefnt væri að því að fjölga ESB-landamæravörðum sem nú eru um 1.300 í 10.000 árið 2020. Hann lagði jafnframt til að ríkin sameinuðust um stofnun til að afgreiða hælisumsóknir og fjölguðu ferðum á brott með þá sem fá ekki hæli.
Juncker sagði hvorki á sínu valdi né ESB-þingsins að greiða úr vandanum sem skapast hefði í samskiptum ESB-ríkjanna vegna ágreinings um kvótadreifingu flótta- og farandfólks milli einstakra ríkja. Taldi hann aðeins á valdi ríkisstjórna að leysa úr þessum ágreiningi sem hefur sett svip sinn á samskipti ESB-ríkjanna frá 2015.
Hann gagnrýndi stjórnir landa eins og Danmerkur sem hefðu tekið upp gæslu á innri Schengen-landamærum. Falla yrði frá slíkri gæslu.
„Ég er og verð einarður andstæðingur innri landamæra. Það verður að hætta landamæragæslu þar sem hún hefur verið innleidd. Verði það ekki gert er það óviðunandi skref fyrir Evrópu í samtíma og framtíðar,“ sagði Juncker, og einnig:
„Framkvæmdastjórnin leggur í dag fram tillögu um nýjar reglur sem miða að því að birtist efni frá hryðjuverkamönnum á netinu verði það fjarlægt innan klukkustundar – sá gluggi sem veldur mestum skaða. Þá er lagt til að sameiginlegur saksóknari ESB taki á málum sem snerta baráttuna gegn hryðjuverkum.“
Danske Bank hefur verið í fréttum undanfarið vegna ásakana um ólöglegt peningaþvætti. Juncker sagði tengsl milli hryðjuverkamanna og peningaþvættis:
„Hryðjuverkamenn virða engin landamæri. Við getum ekki leyft okkur sjálfum að verða óafvitandi samsekir af því að við getum ekki starfað saman. Þess vegna leggjum við í dag fram tillögur sem miða að því að auðvelda baráttuna við peningaþvætti þvert á landamæri.“
Juncker kallaði Afríku „tvíburaálfu“ Evrópu og ekki ætti lengur að hafa samstarfi við Afríkumenn með því fororði að um þróunaraðstoð væri að ræða. Það væri í senn niðurlægjandi og skilaði ekki árangri. Frekar ætti að tala um „Bandalag í þágu sjálfbærra fjárfestinga og starfa“ og stuðla með því að skapa störf fyrir 10 milljónir manna.
Juncker sagði í ræðu sinni að innan ESB ættu menn að hætta að færa klukkuna haust og vor á milli sumar og vetrartíma. Þetta ætti ekki að vera ESB-ákvörðun heldur á valdi hvers ríkis. Það vær „tímaskekkja“ að halda óbreyttri skipan á þessu sviði.
Við þessi orð klöppuðu þingmenn Juncker lof í lófa og hlógu að orðum hans, einnig þegar hann sagði í gamansömum tóni eftir annað lófatak: „Þakka fyrir lófatakið. Það gefur mér færi á að drekka. Endurtakið það.“ Fyrr í sumar varð nokkur umræða í fjölmiðlum um hvort honum þætti sopinn of góður.