
Stjórnvöld í Ekvador hafa svipt Julian Assange, stofnanda WikiLeaks, ríkisborgararétti. Yfirvöldin segja marga ágalla hafa verið á umsókn hans þegar fyrri ríkisstjórn landsins samþykkti hana árið 2018. Assange var næstum sjö ár í sendiráði Ekvadors í London til að komast hjá framsali til Svíþjóðar árið 2012.
Dómsyfirvöld í Ekvador tilkynntu Assange formlega um sviptingu ríkisborgararéttarins. Hann situr nú í fangelsi í Bretlandi. Í tilkynningu yfirvalda Ekvador segir að ágallar hafi verið margir á umsókn Assange um ríkisborgararétt, þar megi nefna ósamræmi, ólíkar undirskriftir og ógreidd skráningargjöld.
Carlos Poveda, lögfræðingur Assange, sagði AP-fréttastofunni að ákvörðunin hefði verið tekin í Ekvador án þess að virða málsmeðferðarreglur og Assange hefði ekki fengið leyfi til að skýra mál sitt á vettvangi.
Fréttaskýrandi þýsku DW-fréttastofunnar segir að árum saman hafi örlög Assange virst ráðast af nýlegri vináttu hans við Ekvador. Vináttan hafi hins vegar dofnað jafnvel áður en fyrsti mið-hægri maðurinn í tæpa tvo áratugi var kjörinn forseti landsins í ár .
Lenin Moreno var forseti Ekvadors þegar Assange var veittur ríkisborgararéttur eftir áralanga vernd stjórnvalda landsins í sendiráðinu í London. Stjórn Morenos batt enda á dvölina í sendiráðinu árið 2019.
Í apríl sama ár handtók breska lögreglan Assange fyrir að hafa brotið ákvæði í sjö ára gömlu máli þar sem honum var sleppt gegn tryggingu. Hann hefur síðan verið lokaður inn í Belmarsh-öryggisfangelsinu í London.
Bandarískir saksóknarar hafa sakað Assange um 17 brot á njósnalögum og eitt tölvubrot sem tengist ólöglegri birtingu WikiLeaks á þúsundum skjala frá varnarmála- og utanríkisráðuneytunum. Verði Assange sakfelldur vegna þessara brota kann hann að verða dæmdur í allt að 175 ára fangelsisvist.
Í janúar 2021 ákvað breskur dómari í undirrétti að hafna kröfu um framsal Assange til Bandaríkjanna. Yfirréttur samþykkti nú í byrjun júlí að heimila bandarískum stjórnvöldum að áfrýja þessum úrskurði.