Home / Fréttir / Jón Bjarnason, fyrrv. ráðherra, harðorðari um varnaryfirlýsingu en staðgengill rússneska sendiherrans

Jón Bjarnason, fyrrv. ráðherra, harðorðari um varnaryfirlýsingu en staðgengill rússneska sendiherrans

 

Fréttastofa ríkisútvarpsins ræddi við staðgengil rússneska sendiherrans í Reykjavík, Alexey V. Shadskiy. Myndin er úr fréttatíma sjónvarpsins á ruv.is
Fréttastofa ríkisútvarpsins ræddi við staðgengil rússneska sendiherrans í Reykjavík, Alexey V. Shadskiy. Myndin er úr fréttatíma sjónvarpsins á ruv.is

 

Lilja D. Alfreðsdóttir utanríkisráðherra og Robert O. Work, varavarnarmálaráðherra Bandaríkjanna, rituðu miðvikudaginn 29. júní undir yfirlýsingu um varnir Íslands sem utanríkisráðherra segir að „formfesti“ núverandi stöðu varnarsamstarfs ríkjanna innan ramma varnarsamningsins frá 1951 og sameiginlegrar yfirlýsingar ríkjanna frá október 2006 við brottför varnarliðsins.

Fréttastofa ríkisútvarpsins leitaði miðvikudaginn 6. júlí til þriggja einstaklinga sem hún taldi að myndu lýsa andstöðu við yfirlýsinguna. Andmælin eru studd veikum rökum og greinir Jón Bjarnason, fyrrv. ráðherra, á við staðgengil rússneska sendiherrans á Íslandi. Jón telur yfirlýsinguna ganga „mun lengra“ en varnarsamninginn frá 195i en staðgengill sendiherrans segir yfirlýsinguna bara „skjalfesta það sem þegar er“.

Í fyrsta lagi var rætt við Steinunni Þóru Árnadóttur, þingmann vinstri grænna, sem situr fyrir flokkinn í utanríkismálanefnd alþingis þar sem yfirlýsingin var rædd og kynnt 10. júní sl. Engu að síður gagnrýnir Steinunn Þóra að yfirlýsingin hafi ekki verið rædd á alþingi fyrir undirritun hennar sem var 29. júní eins og áður segir.

Steinunn Þóra segir við fréttastofuna að margar spurningar vakni við að lesa yfirlýsinguna og telur að hægt sé að túlka hana á mismunandi vegu. „Ef menn lesa í gengum þetta plagg þá kemur í ljós að það eru ansi marga greinar sem eru loðnar og maður veit ekkert hvað þýða þegar uppi er staðið. Þannig að ég tel að við vitum ekkert hvert við erum að stefna eða hvað við erum að fá, en engu að síður er það alveg ljóst að það er verið að opna fyrir möguleikann um að auka umsvifin á Keflavíkurflugvelli.“

Í öðru lagi ræðir fréttastofan við Jón Bjarnason, fyrrv. ráðherra og alþingismann vinstri grænna, sem fréttastofan kynnir sem talsmann fullveldismála og formann Heimssýnar. Á ruv.is segir:

„Hann [Jón] telur að þessi yfirlýsing gangi mun lengra en varnarsamningurinn frá 1951. „Í samskiptum þjóða eiga samningarnir að vera mjög afmarkaðir og niðurnjörvaðir þannig að báðir aðilar viti hvað til síns friðar heyri í þeim efnum,“ segir hann. „Þessi er opinn og það verður þá hluti stóra bróður, sem er Bandaríkin, að skilgreina það sér í hag á hverjum tíma. Þetta gengur gegn íslenskum þjóðarhagsmunum.“

Fréttastofan ræðir einnig við Lilju D. Alfreðsdóttir hana hvort hafa hefði átt meira samráð við alþingi vegna yfirlýsingarinnar. Utanríkisráðherra svarar:

„Það áttu sér stað umræður á þinginu í febrúar þar sem var farið efnislega yfir þennan málaflokk. Að auki var samþykkt þjóðaröryggisstefna núna á vordögum og það sem kemur fram í yfirlýsingunni rúmast innan hennar. Það sem þar var fjallað um var aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu, að það yrði áfram lykilstoð í okkar vörnum ásamt varnarsamningnum frá 1951 og yfirlýsingin rúmast innan þessarar þjóðaröryggisstefnu sem var samþykkt mótatkvæðalaust á Alþingi Íslendinga.“

Þriðji aðilinn sem fréttastofa ríkisútvarpsins leitar til í því skyni að finna andstæðing hinnar sameiginlegu yfirlýsingar ríkisstjórna Íslands og Bandaríkjanna er Alexey V. Shadskiy, staðgengill sendiherra Rússlands á Íslandi. Við hann var rætt í fréttum kl. 22.00 miðvikudaginn 6. júlí. Hann segist, að sögn fréttastofunnar, lesa á milli línanna í yfirlýsingunni að henni sé meðal annars beint að Rússum þótt hún kalli ekki á „bein viðbrögð“ þeirra. Í fréttinni á ruv.is segir:

„Alexey V. Shadskiy, staðgengill sendiherra Rússlands, segir að fyrst og fremst sé litið á yfirlýsinguna sem tvíhliða mál Íslands og Bandaríkjanna, það sé mál hvers ríkis hvernig beri að varðveita öryggi og haga varnarmálum.

Hann telur að yfirlýsingin kalli ekki á bein viðbrögð Rússa.  „Það er ekkert nýtt í samkomulaginu, ég las samkomulagið á íslensku og ensku og það er ekkert nýtt get ég sagt. Allt sem skrifað er þar sýnist mér bara verið að skjalfesta það sem þegar er.“ Þetta sé hins vegar einn hlekkur í lengri keðju Atlantshafsbandalagsins: „Við sjáum enga ástæðu til að bæta við hernaði á norðurskautssvæðinu, sérstaklega á friðarsvæði eins og norðurskautið er.“

Að hverjum beinist yfirlýsingin?

Alexey segir það liggja í augum uppi að hverjum þessi auknu umsvif beinast. „Við skiljum alveg að kafbátaleitarflugvélar sem verða hérna á Íslandi eru ekki á móti kafbátum frá Ríki Islams. Maður les á milli línanna að hvaða kafbátum þessar flugvélar leita. Það er bara skiljanlegt af hálfu Rússlands en það þarf líka að vera skiljanlegt að eina leiðin fyrir rússneska kafbáta í Norður Atlantshafið liggur framhjá Íslandi.“

Finnst ykkur að þessari yfirlýsingu sé beint gegn Rússlandi?

„Ekki beinlínis en samt.“

Skoða einnig

Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Tveggja daga fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel miðvikudaginn 29. nóvember. Þar var fjallað um …