Home / Fréttir / Jólamarkaður Strassborgar opnaður undir her- og lögregluvernd

Jólamarkaður Strassborgar opnaður undir her- og lögregluvernd

20181212t0921-22923-cns-france-shooting-christmas-market_800

Hlið jólamarkaðarins í Strassborg
Hlið jólamarkaðarins í Strassborg

Jólamarkaðurinn í Strassborg er elsti og stærsti þessara markaða í Frakklandi. Honum var lokað að kvöldi þriðjudags 11. desember þegar Cherif Chekatt hóf skothríð á Kleber-torgi, aðaltorgi borgarinnar. Markaðurinn var opnaður að nýju föstudaginn 14. desember en kvöldið áður hafði lögregla fundið illvirkjann og fellt hann í skotbardaga í Neudorf-hverfinu í borginni.

Fjórir eru látnir eftir skotárásina en Chekatt bar lof á Allah þegar hann hleypti af hríðskotabyssunni á vegfarendur á torginu. Fjórða fórnarlambið Antonio Megalizzi, 28 ára útvarpsfréttamaður frá Ítalíu, lést af skotsárum föstudaginn 14. desember. Hans var minnst af Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu. Alls særðust 12 í árásinni.

Franski innanríkisráðherrann Christophe Castaner tók þátt í að opna jólamarkaðinn að nýju og fór á milli söluskála. Lögregla, herlið og öryggisverðir á vegum borgarinnar standa vörð við markaðinn. Castaner sagði að markaðurinn hefði verið opnaður að nýju til að gæta „heiðurs Strassborgar og heiðurs Frakklands“.

Hryðjuverkahópurinn Daesh (Ríki íslams) segir að Chekatt hafi verið einn af liðsmönnum hópsins. Hópurinn færði engar sönnur á tilkall sitt til Chekatts og innanríkisráðherrann sagði yfirlýsinguna til marks um „tækifærismennsku“.

„Ekkert bendir til að (Chekatt) hafi verið í einhverjum hópi. Það er ekkert sem bendir til að hann hafi notið slíkrar verndar en rannsókninni er ekki lokið,“ sagði Castaner í útvarpsviðtali.

Christophe Castaner innanríkisráðherra þakkar lögreglumönnum.
Christophe Castaner innanríkisráðherra þakkar lögreglumönnum.

Hann lýsti Chekatt sem örlaga óknyttamanni sem hefði verið snúið til íslamskrar öfgahyggju í fangelsi.

Lögregla var enn með foreldra hans og fimm félaga í yfirheyrslu föstudaginn 14. desember til að rannsaka hvort hann ætti samverkamenn. Hvort þeir hefðu til dæmis aðstoðað hann eftir að hann lagði á flótta eftir að hafa unnið ódæðisverkið og fór huldu höfði í 48 klukkustundir.

 

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …