Home / Fréttir / John Bolton: Alvara að baki kauptilboðinu um Grænland

John Bolton: Alvara að baki kauptilboðinu um Grænland

Trump birti þesa mynd á Twitter en lofaði að reisa ekki svona hús á Grænlandi.
Trump birti þesa mynd á Twitter en lofaði að reisa ekki svona hús á Grænlandi.

John Bolton, fyrrv. þjóðaröryggisráðgjafi Donalds Trumps, Bandaríkjaforseta, segir ekki mikið um Grænland og hugmynd Trumps um að kaupa landið í bók sinni The Room Where It Happened: A White House Memoir sem kom út þriðjudaginn 23. júní.

Þessi hugmynd forsetans vakti mikla athygli í ágúst í fyrra og varð tilefni margvíslegra yfirlýsinga um að forsetinn segði eitthvað án þess að hafa ígrundað það. Hugmyndin væri „út í hött“.

Nú segir Bolton í samtali við breska blaðið The Times að þarna hefði verið um að ræða tilboð sem ætti að líta á sem mikilvægan lið í heildar öryggisstefnu Bandaríkjanna. Bolton segir við blaðið:

„Grundvallar áhyggjuefnið er að Kína reynir að verða norðurskautsveldi. Það er mál sem hvílir mjög á okkur. Það er liður í tilraun Kínverja til að láta að sér kveða um heim allan. Við köllum það dollara-diplómatíu – að moka fjármunum inn í smáríki sem eru stórskuldug svo að Kínverjar hafi síðan tök á þeim. Þeir gera þetta alls staðar á suðurhluta Kyrrahafssvæðisins og einnig á svæðum sem hafa hernaðarlega þýðingu, þar með Grænlandi.“

Trump líkti kaupunum á Grænlandi við hver önnur landakaup. Hann gekk meira að segja svo langt að setja á Twitter mynd af gylltum Trump-turni í grænlensku þorpi þó með fyrirheiti um að hann mundi ekki reisa slíkt mannvirki.

Við svo búið var ekki meira um málið rætt. Athyglin sem málið vakti sýnir að mati danska blaðsins Jyllands Posten hve hátt Grænland ber í öllum umræðum um öryggismál. „Ísinn bráðnar á Norður-Íshafi og við það verða til alveg ný hernaðarleg og viðskiptaleg tækifæri. Kína vill fá viðurkenningu sem norðurskautsveldi sem hafi áhrif á nýskipan mála á Norðurskautinu,“ segir blaðið föstudaginn 26. júní.

Blaðið segir að öll stórveldin hafi hugann við þetta kapphlaup um „topp hnattarins“: Rússland, Kína, Bandaríkin auk allra landa sem eiga land að svæðinu – Kanada, Danmerkur og Noregs. Fulltrúar þessara landi ræði frekari þróun svæðisins í Norðurskautsráðinu.

Það sé yfirlýst markmið að viðhalda norðurskautinu sem lágspennusvæði. Nú sé hins vegar þrýst á úr ólíkum áttum, þar á meðal Bandaríkjunum. Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hafi í fyrra flutt fræga ræðu þar sem hann hafi sagt að á norðurslóðum mundu gilda sömu leikreglur í öryggismálum og í öðrum heimshlutum.

Nú 10. júní opnuðu Bandaríkjamenn ræðisskrifstofu í Nuuk á Grænlandi. Frá síðari heimsstyrjöld til 1953 ráku þeir slíka skrifstofu á Grænlandi. Undanfarin ár hafa Íslendingar einir haft ræðisskrifstofu á Grænlandi.

 

 

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …