Home / Fréttir / Joe Biden vann sigur á Donald Trump

Joe Biden vann sigur á Donald Trump

Kamala Harris og Joe Biden fagna sigri.
Kamala Harris og Joe Biden fagna sigri.

Demókratinn Joe Biden flutti aðfaranótt sunnudags 8. nóvember að íslenskum tíma ræðu sem verðandi forseti Bandaríkjanna. Síðdegis laugardaginn 7. nóvember skýrðist að hann fengi meirihluta atkvæða í Pennsylvaniu-ríki og þar með þann fjölda kjörmanna sem þyrfti til að ná kjöri sem 46. forseti Bandaríkjanna.

Í ræðu sinni sem verðandi forseti sagði Biden að nú ætti að sameina þjóðina til að ná stjórn á útbreiðslu kórónuveirunnar, takast á við kerfislægan rasisma, horfast í augu við loftslagsbreytingar og „endurvekja háttprýði“.

Kamala Harris, verðandi varaforseti Bandaríkjanna, bauð Joe Biden að flytja ávarp sitt að kvöldi laugardags utan dyra í Wilmington í Delaware-ríki, heimaborg Bidens. Áheyrendur sátu í bifreiðum sínum til að gæta sóttvarnareglna. Þeir sem stóðu úti veifðuðu fánum og báru sóttvarnagrímur.

Nú eru rétt 48 ár frá því að Joe Biden var fyrst kjörinn í öldungadeild Bandaríkjaþings. Hann sat í 36 ár sem öldungadeildarþingmaður fyrir Delaware-ríki áður en hann varð varaforseti Baracks Obama í átta ár. Biden verður 78 ára 20. nóvember. Aldrei hefur neinn eldri orðið forseti Bandaríkjanna.

Biden þakkað bandarískum blökkumönnum fyrir að styðja sig til sigurs. Hann sagðist alltaf hafa stutt þá og þeir hann. Hann sneri sér beint að stuðningsmönnum Donalds Trumps og sagðist skilja vonbrigði þeirra en hvatti til þess að menn létu nú reyna á samstöðu sína.

Hann sagði Bandaríkjamenn hafa veitt sér umboð í þeirri von að hann mundi að nýju stuðla að samvinnu manna án tillits til flokksbanda, sigrast á örvæntingu og blása lífi í „sál Ameríku“.

„Ég heiti því að verða forseti sem leitast ekki við að sundra heldur sameina,“ sagði hann. Nú ættu verndarenglar þjóðarinnar að setja svip á líf hennar frekar en myrkustu hvatir.

Donald Trump hefur ekki viðurkennt ósigur sinn. Laugardaginn 7. nóvember sagði hann á Twitter: I WON THIS ELECTION BY A LOT – ég vann þessar kosningar með miklum mun. Hann segir að um kosningasvindl hafi verið að ræða og látið verði á það reyna fyrir dómstólum.

 

Heimild: Axios

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …