Home / Fréttir / Joðtöflur ráðlagðar í Noregi ekki í Danmörku

Joðtöflur ráðlagðar í Noregi ekki í Danmörku

Aflagða Barsebäckværket, sænska kjarnorkuverið, skammt frá Kaupmannahöfn.

Í Jyllands Posten segir frá því föstudaginn 25. mars að skömmu eftir innrás Rússa í Úkraínu hafi allar joðtöflur verið uppseldar í dönskum, norskum og sænskum lyfjabúðum. Þetta endurspeglaði ótta við geislavirkni vegna kjarnorkuslyss.

Í Danmörku dró fljótt úr þessum viðskiptum vegna þess að heilbrigðisyfirvöldin sögðu að joðtöflur án lyfseðils gerðu ekkert gagn yrði slys í kjarnorkuveri auk þess væri Úkraína of langt í burtu til að slys þar hefði áhrif í Danmörku.

Í blaðinu er hins vegar bent á að yfirvöld í Noregi hafi tekið allt öðru vísi á þessu máli. Þar sé öllum Norðmönnum 40 ára og yngri bent á að eiga joðtöflur í heimilisapóteki sínu.

Viðvörunin í Noregi er ekki gefin af ótta við kjarnorkuslys í Úkraínu heldur með vísan til hættu sem sé mun nær Norðmönnum.

Ingdrid Dypvik Landmark, aðalráðgjafi við Direktoratet for stråleværn og atomsikkerhed, geislavarnir Noregs, segir:

„Við verðum vör við vaxandi umferð kjarnorkuknúinna kafbáta við strendur Noregs og svo óttumst við einnig að kjarnorkuver í Svíþjóð og Finnlandi geti skapað Norðmönnum hættu.

Við viljum tryggja til fulls að til séu joðtöflur fyrir ungt fólk því að mesta hættan er að það fái krabbamein í skjaldkirtilinn þar sem náttúrlegt joð í líkama þess er minna en hjá fullorðnum.“

Geislar vegna kjarnorkuslyss geta verið hlaðnir miklu af geislavirku joði sem kann að valda krabbameini í skjaldkirtli. Norsk yfirvöld líta til þess að stærstur hluti landsmanna býr í innan við 100 km fjarlægð frá sjó þar sem kjarnorkukafbátar athafna sig. Vilja yfirvöldin ekki að tekin sé nein áhætta.

Danskir sérfræðingar eru hins vegar þeirrar skoðunar að það sé einstaklega ósennilegt að geislavirkni kunni að berast frá kafbáti á siglingu undan strönd lands, gerist það yrði um mjög takmarkaða virkni að ræða segir Sven Poul Nielsen sem var sérfræðingur í geislavirkni hjá DTU Miljø.

Hann segir Norðmenn sýna „ofurvarkárni“ og skilur ekki hvers vegna þeir grípi til þessara ráða.

Sven Poul Nielsen og Ingrid Dypvik Landmark eru ekki aðeins ósammála um þetta heldur einnig hættuna frá kjarnorkuverum. Sven Poul Nielsen sér ekki ástæðu til að óttast geislavirkni frá kjarnorkuverum í Finnlandi og Svíþjóð. Þetta segir hann þótt aðeins séu um 20 km frá Kaupmannahöfn til aflagða sænska Barsebäckværket.

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …