
Jim Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sagði laugardaginn 2. júní á árlegu Shangri-la ráðstefnu Alþjóðahermálastofnunar sem haldin er í Singapúr að Kínverjar hefðu komið fyrir vopnakerfum á manngerðum eyjum í Suður-Kínahafi sem ætlað væri að hræða og beita aðra á svæðinu nauðung. Hann gagnrýndi Kínverja harkalega og sagði að frekari hervæðing þeirra kynni að leiða til alvarlegra viðbragða og afleiðinga.
Kínverski hershöfðinginn He Lei sat ráðstefnuna og sakaði Mattis um að tala „af ábyrgðarleysi“. Fyrir kínverskum stjórnvöldum vekti aðeins að verja yfirráðasvæði sitt.
Mattis sagði að ákvörðun Bandaríkjastjórnar um að afturkalla boð til Kínverja um þátttöku í fjölþjóðlegum flotaæfingum í sumar væri „upphafsafleiðing“ vegna hervæðingar eyjanna. Þetta skipti í sjálfu sér ekki miklu en afleiðingarnar yrðu miklu meira þegar fram liðu stundir. Kínverjar hafa nokkrum sinnum tekið þátt í flotaæfingunum sem efnt er til annað hvort ár.
Þegar Mattis var spurður að því hvað fælist í þessum orðum hans sagði hann Kínverja ætla að nýta vopn til að ná markmiðum í andstöðu við niðurstöðu alþjóðadómstóla og það væri ekki til þess fallið að efla samvinnu á svæði sem skipti miklu fyrir framtíð Kína.
Hann sagði að Kínverjar yrðu að taka afleiðingum gerða sinna ef þeir reyndu ekki að stofna til meiri samvinnu við þjóðirnar sem hefðu hagsmuna að gæta í þessum heimshluta.
Ráðherrann sagði að Bandaríkjastjórn ætlaði að tryggja frjálsar og opnar samgöngur á Suður-Kínahafi. Hann sagði að Kínverjum hefðu ekki erindi sem erfiði. Það mundi ekki styrkja stöðu Kínverja á alþjóðavettvangi að hervæða eyjarnar.
Mattis sagði að hvað sem Kínverjar segðu tengdust vopnakerfin þarna beint hernaðarlegum áformum í því skyni að hræða og beita nauðung. Vísaði hann þar til þess að nýlega hefði flugskeytum gegn skipum, flugskeytum gegn flugvélum, búnaði til að trufla rafeindatæki og öðrum tækjum verið komið fyrir á Spratly-eyjum og kínversk sprengjuvél hefði lent á Woody-eyju.
Mattis minntist lauslega á fyrirhugaðan fund Donalds Trumps Bandaríkjaforseta og Kims Jong-uns, einræðisherra í N-Kóreu í Singapúr 12. júní.
Hann sagði að varnarmálaráðuneytið mundi gera skyldu sína og styðja diplómatíska viðleitni til að tryggja Kóreuskagi yrði án kjarnvopna á þann hátt að ekki yrði dregið í efa, unnt yrði að sannreyna það og ekki yrði snúið aftur til kjarnorkuvæðingar.
Hörð viðbrögð Kínverja
Mattis sakaði Xi Jinping, forseta Kína, einnig um að hafa að engu loforð sem hann gaf Bandaríkjaforseta í Washington 2015 um að Kínverjar mundu ekki hervæða eyjasvæðið í Suður-Kínahafi.

Kínverski hershöfðinginn He Lei svaraði Mattis fullum hálsi og sagði ekki unnt að „sætta sig við ábyrgðarlaus ummæli talsmanna annarra ríkja.“ Héldu ríki sig innan eigin landsvæða gætu þau sent herafla sinn þangað og vopnabúnað. Kínverjar gerðu þetta til eigin varna. Þeir mundu grípa til „harðra aðgerða“ sendu önnur ríki skip og flugvélar nærri eyjunum sem tilheyri þeim á Suður-Kínahafi.
Kínverjar gera tilkall til næstum alls Suður-Kínahafs gegn andmælum frá stjórnvöldum í Brunei, Malsasíu, Flippseyjum, Tævan og Víetnam.
Mattis sagði að Kínverjar virtust telja það sér til framdráttar að gera nágranna sína stórskulduga sér og geta á þann veg þrengt að þeim á stjórnmálasviðinu. Þegar á reyndi mundi þetta ekki gagnast þeim.
Ráðherrann lét þess jafnframt getið að Bandaríkjastjórn vildi samstarf við Kínverja hvar sem unnt væri og hann hefði þegið boð um að heimsækja Peking áður en langt um liði.