Home / Fréttir / Jevgeníj Prígosjín sagður hafa farist í flugslysi

Jevgeníj Prígosjín sagður hafa farist í flugslysi

Jevgeníj Prígosjín, eigandi og stjórnandi Wagner-málaliðanna, er sagður hafa farist í flugslysi síðdegis miðvikudaginn 23. ágúst þegar einkavél með tíu manns um borð brotlenti í Tver-héraði fyrir norðan Moskvu, líklega á leið til St. Pétursborgar.

Flugmálastjórn Rússlands segir að allir um borð í vélinni hafi farist. Í tilkynningu flugmálastjórnarinnar sagði að nafn Jegeviníjs Prígósjíns hefði verið á farþegalistanum.

Í dag 23. ágúst eru nákvæmlega tveir mánuðir síðan Prígósjín stóð fyrir uppreisn gegn rússnesku herstjórninni, tók höfuðstöðvar hennar í borginni Rostov við Don og sendi síðan herlið í átt að Moskvu með kröfu um að stjórnendur Rússlands vikju í nafni réttlætis til hliðar án þess þó að gagnrýna Vladimir Pútín forseta beint.

Þegar um 200 km voru til borgarinnar sneri Wagner-liðið til baka eftir að þeim hafði verið lofað sakaruppgjöf. Var samið um að Prígósjín og Wagner-liðar færu til Belarús.

Strax og fréttir bárust af sakaruppgjöf Prígósjíns veltu menn vöngum yfir framtíð hans og margir spáðu að honum yrði á einn hátt eða annan komið fyrir kattarnef.

Prígosjín hafði að engu kröfur um að hann héldi sig í Belarús. Hann ögraði Moskvuvaldinu fyrir nokkrum vikum þegar Vladimir Pútín bauð leiðtogum Afríkuríkja til St. Pétursborgar. Prígosjín lét þá taka myndir af sér á fundum með fulltrúum úr sendinefndum Afríkuríkjanna.

Á samfélagsmiðlum sem tengdir eru Wagner-liðum er fullyrt að vélin hafi verið skotin niður.

Reynslumiklir vestrænir fréttamenn segja að full ástæða sé til að fá frekari staðfestingu á dauða Prígósjíns áður en hann sé talinn allur. Það hafi aðeins verið fullyrt að nafn sé á farþegalista á flugvélar sem fórst.

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …