
Jeremy Corbyn, leiðtogi breska Verkamannaflokksins, telur að uppræta beri herafla á landamærum NATO-ríkja og Rússlands. Í sjónvarpsviðtali við Andrew Marr á BBC sunnudaginn 13. nóvember sagði Corbyn óhjákvæmilegt að finna „málamiðlun“ gagnvart Rússum af hálfu NATO.
Corbyn er kunnur fyrir gagnrýni sína á NATO. Hann efast meira að segja um gildi lykilskuldbindingarinnar innan bandalagsins um að árás á eitt aðlidarríki sé árás á þau öll.
Í sjónvarpsþættinum sagði Corbyn: „Ég tel að móta verði ferli sem miðar að því að uppræta herafla á landamærum NATO-ríkja og Rússlands, svo að við setjum fleyg á milli herafla aðilanna og höldum þeim í sundur til að um einhvers konar málamiðlun náist. Við getum ekki hrapað inn í nýtt kalt stríð.“
Bretar ætla að senda 800 hermenn og orrustuþotur til Eistlands á næsta ári til að styrkja viðvörunarkerfi sem yrði virkjað ef Rússar hefðu enn frekari ögranir í frammi. Þá er hermönnunum ætlað að fæla rússneska herinn frá hvers kyns ævintýramennsku.
Um leið og Corbyn hvatti til þess að spenna í samskiptum við Rússa minnkaði sagði hann: „Við verðum að fordæma mannréttindabrotin í Rússlandi. Við verðum að fordæma marga þætti í utanríkisstefnu Rússa.“
Talsmaður Íhaldsflokksins sagði augljóst að Corbyn tryði ekki á gildi öflugra varna, kæmist hann til valda ógnaði hann öryggi bresku þjóðarinnar.