Home / Fréttir / Jens Stoltenberg: Samþykkjum aldrei að Úkraína verði söluvara

Jens Stoltenberg: Samþykkjum aldrei að Úkraína verði söluvara

Stolt

  Í franska blaðinu Le Monde birtist fimmtudaginn 1. október viðtal sem Nathalie Guibert tók við Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATO, eftir að fréttir bárust af því miðvikudaginn 30. september að rússneskar herþotur hefðu hafið loftárásir á skotmörk í Sýrlandi. Viðtalið birtist hér í lauslegri þýðingu.

Rússar hafa hafið árásir í Sýrlandi og vilja samhæfingu í lofti, hvernig á að hindra slys?

Mér eru efst í huga upplýsingar sem við höfum undir höndum og sýna að Rússar réðust ekki á Ríki íslams (RÍ), þetta er áhyggjuefni en þó einkum að Rússar lögðu sig í raun ekki fram um að samhæfa eigin aðgerðir og árásirnar sem eru gerðar á vegum þjóðanna undir stjórn Bandaríkjamanna. Öllum sem sátu allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna (SÞ) virtist augljóst að Rússar lofuðu að samhæfa aðgerðir sínar. Það er hið minnsta sem þeir geta gert. Ég hvet Rússa til að leggja sitt af mörkum í samvinnuanda í baráttunni gegn RÍ og til að hefja pólitíska vinnu til að leysa deiluna. Það er ekki til neins gagns að styðja Assad, það er ekki til þess fallið að ná pólitísku samkomulagi um lausn.

Hver er stefna NATO á suðurvæng bandalagsins?

Við teljum forgangsmál að framfylgja stefnu NATO gegn þeim hættum sem eru á suðurvængnum. Við stöndum frammi fyrir krísu, upplausn, ofbeldi í föllnum ríkjum í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku. NATO hefur stofnað til samvinnu við öll viðkomandi samstarfsríki á svæðinu fyrir utan Afganistan þar sem við þjálfum og aðstoðum heimarherinn auk Íraks þar sem við leggjum lið viðleitni til að koma á fót varnarliði.

Við vinnum með stjórnvöldum í Jórdaníu, Túnis. Hugmyndin er sú að tryggja stöðugleika án þess að senda mikinn fjölda hermanna á vettvang. Takist okkur að auka á stöðugleika í þessum löndum eykur það okkar eigið öryggi. Stefna okkar er að aðstoða samstarfsaðila okkar svo að þeir geti sjálfir tryggt öryggi sitt. Ég held að ofbeldið í Sýrlandi sýni nauðsyn víðtækrar samstöðu.

Á NATO að láta beint að sér kveða í Írak og Sýrlandi?

Öll bandalagsríkin leggja á einn eða annan hátt sitt af mörkum til ríkjasamvinnunnar sem Bandaríkjamenn leiða gegn RÍ. Sumir taka þátt í loftárásum, aðrir þjálfa sveitir Kúrda (peshmergas) og hermenn Íraka. Árétta ber að innan þessa ríkjasamstarfs eru þjóðir sem hafa samræmt aðgerðir sínar, búnað og getu. Við höfum starfað saman í Afganistan og nú er stuðst við reynsluna sem þar fékkst í átökunum við RÍ. Þótt ekki sé barist undir merkjum NATO leggja allir aðilar NATO eitthvað af mörkum.

Stundum er sagt að Tyrkir séu tvíátta, hvað segir þú um það?

Engin aðildarþjóð NATO hefur mátt þola eins mikið vegna krísunnar í Írak og Sýrlandi og Tyrkir sem eiga landamæri að ríkjunum. Þeir hafa tekið á móti meira en milljón flóttamönnum, þeir hafa opnað flugvelli sína fyrir vélum frá samstarfsríkjunum gegn RÍ. Mestu skiptir að Rússar leggi eitthvað af mörkum. Ég endurtek að Bashar al-Assad er hluti vandans.

Sumir segja að Rússar ætli að nýta sér Sýrland til að knýja fram afnám þvingananna sem á þá voru settar vegna krísunnar í Úkraínu.

Við munum aldrei samþykkja að Úkraína verði einhver söluvara. NATO hefur ekki skipt um skoðun á fullveldi og friðhelgi Úkraínu. Við styðjum Úkraínumenn áfram bæði í orði og á borði. Við ætlum að auka samvinnu við þá. Það er hvetjandi að sjá að vopnahléið heldur. Nú hefur það verið virt í fyrsta sinn frá því í byrjun september. Auk þess hafa hinir ólíku hópar komið sér saman um þríhliða vinnuhóp og að fjarlægja þungavopn. Það er enn eitt skref fram á veginn. Ástandið er enn brothætt, enn eru rússneskar hersveitir í austurhluta Úkraínu, þetta er þó hvetjandi.

Hefur þú áhyggjur af ástandinu í Kunduz í Afganistan?

Það sem gerist í Kunduz er til marks um hve mikill vandi steðjar að Afgönum í öryggismálum. Við fylgjumst náið með framvindunni. Við stöndum enn að baki þjóðaröryggissveitunum í samræmi við áætlunina Resolute Support. Við tökum ekki lengur þátt í átökum en höldum áfram að styðja, þjálfa og aðstoða her landsins. Her Afganistans er hæfur, hann hefur sýnt mikið hugrekki. Til lengri tíma litið er betra fyrir þjóðina að hennar eigin her gæti öryggis hennar.
Hvernig getur NATO búið sig undir nýjar ógnir?

Miklu skiptir að geta búið okkur undir ófyrirséðar hættur. Öryggis-umhverfi NATO er að breytast. Yfirstjórn breytinga í Norfolk [í Bandaríkjunum] undirbýr þessa aðlögun. [Viðtalið var tekið í Norfolk þar sem Stoltenberg var vegna skipta á yfirmanni í herstjórn NATO þar.] Er gagn-áróður hluti af áætlunum um þessar breytingar?

Það er aldrei unnt að sigra áróðursstríð með öðrum áróðri. Það á að mæta áróðri með sannleikann að vopni. Áróðurinn er ekki gagnlegt tæki til að vinna hug og hjörtu fólksins. NATO mun áfram halda sér við staðreyndir og segja sannleikann.
Unnið er að því að koma á fót nýjum herstjórnarstöðvum í austurhluta Evrópu. Hverju svarar þú gagnrýni Rússa sem segja að í þessu felist ögrun og yfirgangur?
Með þessu er NATO að svara yfirgangi Rússa í Úkraínu. Þar gerðist það í fyrsta sinn í Evrópu frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar að ríki beitti valdi til að innlima hluta annars ríkis. Að Rússar haldi áfram að spilla stöðugleika í austurhluta Úkraínu og styðji aðskilnaðarsinna með vopnum, þjálfun og herafla knýr okkur til andsvara. Við höfum einkum lagt áherslu á hernaðarlega návist okkar í austurhluta Evrópu og Eystrasaltsríkjunum með æfingum. Við höfum aukið viðbragðsþrótt okkar, tvöfaldað styrk viðbragðsheraflans, komið á fót liði sem er til taks með örstuttum fyrirvara. Við höfum ákveðið að opna litlar stjórnstöðvar fyrir foringja í nokkrum löndum. Hér er um hóflegar varnaraðgerðir að ræða, það er engin ástæða til að gagnrýna það sem NATO gerir.

 

 

 

Skoða einnig

Drónaárás gerð á Moskvu

Ráðist var með drónum á Moskvu, höfuðborg Rússlands, að morgni þriðjudags 30. maí. Svo virðist …