
Varnarmálaráðherrar NATO-ríkjanna hittast á fundi í Brussel miðvikudaginn 26. október og fimmtudaginn 27. október. Af því tilefni ræddi fréttamaður norsku fréttastofunnar NTB við Norðmanninn Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATO. Þar kemur fram að ráðherrarnir ræða enn á ný um viðbrögð við vaxandi ógn úr austri.
„Við okkur blasir Rússland þar sem lengi hefur verið unnið að eflingu hersins og Rússland undir stjórn manna sem hafa reynt að sundra samstöðu Evrópuþjóða til dæmis þegar rætt er um afstöðu til viðskiptaþvingana,“ segir Stoltenberg í viðtalinu.
Hann áréttar hins vegar að Rússum hafi ekki tekist þetta ætlunarverk sitt.
„Samstaðan innan NATO er meiri en um langt skeið og á vegum NATO hefur verið gripið til þýðingarmikilla aðgerða til að geta áfram tryggt öryggi aðildarþjóðanna í hættulegri heimi,“ segir Stoltenberg.
Í fyrri viku var afstaðan til Rússlands til umræðu á fundi leiðtogaráðs ESB. Þar ræddu menn um brot gegn lofthelgi aðildarlandanna, tölvuárásir, miðlun lygafrétta og íhlutun í stjórnmálalíf landanna.
Innan ESB ríkir ekki einhugur um hvernig á að svara þessu án þess að nokkurri leið til þess hafi verið ýtt út af borðinu.
„Stefna Rússa er að veikja ESB. Við áttum okkur fyllilega á staðreyndum málsins og látum alls ekki blekkjast,“ sagði Donald Tusk, forseti leiðtogaráðsins, að fundinum loknum.
Á norsku vefsíðunni ABC Nyheter segir að norski varnarmálaráðherrann, Ine Eriksen Søreide úr Hægriflokknum, kveði ekki eins fast að orði en sé sammála því að Rússarnir reyni allt sem þeir geti til að skapa óeiningu innan ESB og NATO – og milli ESB og NATO.
„Það þjónar beint rússneskum hagsmunum. Það nær yfir allt sviðið frá refsiaðgerðunum til hernaðarlegra þátta,“ segir Søreide við NTB.
Stoltenberg bendir á að Rússar hafi þrefaldað útgjöld sín til hermála frá árinu 2000. Sambærileg útgjöld hafi lækkað í Evrópu á sama tíma. Rússar hafi endurnýjað vígtól sín, virkjað fleiri hermenn til starfa og auk þess sýnt vilja til að beita her sínum, til dæmis í Úkraínu.
Undanfarnar vikur hafa Rússar gert umfangsmiklar loftárásir á Aleppó í Sýrlandi. Rússneskur herfloti er á leið um Miðjarðarhaf. Stoltenberg óttast að herskipunum verði beitt til stuðnings við loftárásirnar.
„Rússar hafa rétt til að athafna sig á alþjóðlegu hafsvæði,“ segir Stoltenberg sem minnir á að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem Rússar sendi herskip á Miðjarðarhaf.
„Nú er staðan hins vegar önnur en áður því að unnt er að nota herskipin til að efla styrk Rússa til að taka þátt í stríðsaðgerðum í Sýrlandi svo að þeir geti fjölgað loftárásum á Aleppó,“ segir Stoltenberg.
Framkvæmdastjóri NATO leggur áherslu á að innan bandalagsins sé enn ríkur vilji til viðræðna við Rússa. Hann hefur hvað eftir annað sagt að ekki þjóni neinum tilgangi að hefja nýtt kalt stríð eða nýtt vígbúnaðarkapphlaup. NATO verði að grípa til sinna ráða en ekki „ofgera“ í því efni.
„Mikilvægasti boðskapur NATO hefur falist í öflugum vörnum auk vilja til viðræðna,“ segir Stoltenberg.
Embættismenn segja að Rússum hafi verið sent boð um að fundað verði að nýju í samstarfsráði NATO og Rússa en Rússar hafi ekki enn svarað því játandi. Ráðið kom síðast saman í sumar.
Heimild: ABC Nyheter.