Home / Fréttir / JEF ályktar til stuðnings Úkraínu – Katrín á leiðtogafundi

JEF ályktar til stuðnings Úkraínu – Katrín á leiðtogafundi

Þátttakendur í JEF-leiðtogafundinum í Riga 19. desember 2022.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tók mánudaginn 19. desember  2022 þátt í fundi leiðtoga þátttökuríkja í Sameiginlegu viðbragðssveitinni (e. Joint Expeditonary Force, JEF) í Riga í Lettlandi. Þetta var í annað skiptið sem leiðtogarnir koma saman frá því að til JEF-samstarfsins var stofnað en fyrra skiptið var í London í mars 2022.

JEF er samstarfsvettvangur í öryggis- og varnarmálum þar sem Norðurlöndin eiga aðild, Eystrasaltsríkin, Holland og Bretland, sem leiðir samstarfið.

Hér birtist yfirlýsing leiðtogafundar JEF í þýðingu vardberg.is:

Við leiðtogar Bretlands, Danmerkur, Eistlands, Finnlands, Hollands, Íslands, Lettlands, Litháens, Noregs og Svíþjóðar hittumst í dag [19. desember] sem aðilar Sameiginlegu viðbragðssveitarinnar  (Joint Expeditionary Force (JEF)), samstarfsvettvangs þjóða sem stofnaður var undir handarjaðri NATO árið 2014. Við ræddum margvísleg viðfangsefni á sviði öryggismála sem snerta okkar svæði, þar á meðal aukin hernaðarumsvif Rússa í hánorðri, á Norður-Atlantshafi og Eystrasaltssvæðinu og vaxandi fjölþátta ógnir. Við áréttuðum hlutverk JEF, sem starfar að öllu leyti til stuðnings NATO til að bregðast við þessari spennu og treysta varnir, öryggi og stöðugleika í norðurhluta Evrópu.

Zelenskíj forseti lýsti fyrir okkur ásetningi og staðfestu Úkraínumanna um að standa áfram fast gegn tilefnislausum og ólögmætum stríðsaðgerðum Rússa. Við erum óhagganleg í stuðningi okkar við stjórn og þjóðina í Úkraínu. Við skuldbundum okkur í dag til að veita meiri stjórnmálalegan, hernaðarlegan, mannúðlegan og fjárhagslegan stuðning við Úkraínu eins lengi og nauðsynlegt er. Sigur Úkraínu er lífsnauðsynlegur fyrir öryggi okkar allra. Við fordæmum árásir Rússa á mikilvæg grunnvirki Úkraínumanna, markmið þeirra er að skapa skelfingu meðal þjóðarinnar. Sá ásetningur að ráðast á almenna borgara og borgaraleg skotmörk jafngildir stríðsglæpum. Við áréttum að við ætlum að sjá til þess að þeir sem standa að þessum hroðalegu aðgerðum verði kallaðir til fullrar ábyrgðar og jafnframt á glæpaverkum gegn Úkraínu. Við munum halda áfram að styðja íbúa Úkraínu sem hafa neyðst til að flýja heimili sín. Við höfnum stöðugum brotum Rússa á fullveldi Úkraínu sjálfstæði og landsyfirráðarétti og ólögmætum tilraunum þeirra til að innlima landsvæði frá Úkraínu. Við viðurkennum sem fyrr alþjóðlega viðurkennd landamæri Úkraínu og það grundvallaratriði, sem er helgað sáttmála Sameinuðu þjóðanna, að þeim verði ekki breytt með valdi.

Við fögnum því að Zelenskíj forseti er fús til að vinna að réttlátum friði. Engar friðarviðræður eru trúverðugar á meðan Rússar halda áfram árásarstríði sínu. Við hvetjum Rússa þess vegna til að hætta hernaði, kalla her sinn til baka, fara að  skuldbindingum sínum samkvæmt alþjóðalögum og endurreisa frið og öryggi í Evrópu. Við áréttum einnig að við erum tilbúin til að styrkja enn frekar stjórnmálalega og hagnýta samvinnu við Úkraínu.

Á þessu ári höfum við eflt getu okkar til að starfa saman á hættustund, fjölgað æfingum okkar til að geta brugðist við þeim verkefnum sem við okkur blasa. Í dag samþykktum við að hraða samstarfi til að takast á við fjölþátta ógnir með það að markmiði að koma í veg fyrir og verjast ógnum gegn sameiginlegum gagna- og orkukerfum okkar neðansjávar. Þetta krefst meðal annars meiri miðlun á trúnaðarupplýsingum, samstarfs við fyrirtæki og fjölþjóðlega samstarfsaðila til að auka áfallaþol og auka getu okkur til sameiginlegs andsvars. Jafnframt munum við halda áfram að veita hagnýtan stuðning við Finna og Svía fyrir aðild þeirra að NATO, þar á meðal með sýnilegri viðveru herafla á svæðinu. Aðild þeirra styrkir og eykur öryggi bandalags okkar, eflir varnir norðurhluta Evrópu og Eystrasaltsins andspænis flóknum ógnum. Við munum eiga öfluga samvinnu við bandamenn í hánorðri, vinna saman að því að takast á við verkefni sem við blasa á svæðinu öllu. Meginæfing JEF á árinu 2023 – Exercise JEF Warrior – verður í hánorðri, þar kemur í ljós hæfni okkar til aðgerða í óblíðu umhverfi á hafi úti, á landi og í lofti á sama tíma og við höldum áfram að æfa á Norður-Atlantshafi og Eystrasaltssvæðinu.

Við ræddum einnig frekara hlutverk JEF til stuðnings NATO. Nú er stundin til að tryggja að JEF geti lagt sitt af mörkum í þágu varna og öryggis á okkar svæði, tryggja að JEF geti með hraði brugðist við þeim hættum sem að okkur steðja. Við gerum þetta með NATO, tryggja að JEF stórefli bæði viðbrögð einstakra þjóða og fjölþjóðleg. Við vorum sammála um að hafin verði vinna við að móta tíu ára sýn fyrir JEF áður en við hittumst á árinu 2023.

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …