Home / Fréttir / Játar aðild að hryðjuverkinu mikla í París – hafnar framsali til Frakklands

Játar aðild að hryðjuverkinu mikla í París – hafnar framsali til Frakklands

François Molin, saksóknari í París.
François Molin, saksóknari í París.

Salah Abdeslam hryðjuverkamaðurinn sem var handtekinn í Molenbeek-hverfinu í Brussel föstudaginn 18. mars er talinn hinn eini á lífi úr hryðjuverkahópnum sem gerði árás í París 13. nóvember 2015 og felldi 130 manns. Hann er nú í fangelsi í Bruges í Belgíu. Frakkar vilja hann framseldan en Abdelsman hafnar þeirri kröfu og fer málið fyrir dómstóla.

François Molins, saksóknari í París, sagði að kvöldi laugardags 19. mars að Abdeslam hefði játað við yfirheyrslu að hann hefði ætlað að sprengja sig í loft upp á Stade de France leikvellinum þar sem François Hollande Frakklandsforseti var meðal áhorfenda. Hann hefði hins vegar dregið sig í hlé. Engin skýring hefur enn birst á því. Sven Mary, lögfræðingur Abdelsams, sakar franska saksóknarann um að brjóta á rétti umbjóðanda síns með því að segja frá efni yfirheyrslna yfir honum á blaðamannafundi.

The New York Times (NYT) segir sunnudaginn 20. mars í langri grein í tilefni handtökunnar að Abdelsman kunni að veita yfirvöldum mikilvægar upplýsingar um lykilþætti í skipulagi árásarinnar í París sem virðist hafa verið flókið og umfangsmikið.

NYT segist nýlega hafa fengið aðgang að 55 bls. skýrslu um árásina í París, skýrslu sem franska and-hryðjuverkalögreglan hafi tekið saman sérstaklega fyrir franska innanríkisráðherrann. Þar sé að finna mynd af árásinni sem ekki hafi enn birst almenningi.

Árásarmennirnir höfðu hlotið víðtæka þjálfun í hryðjuverkum. Þeir voru sendir af alþjóðadeild Ríkis íslams. Þeir nýttu sér veikleika í evrópskri landamæravörslu til að fara inn og út úr Evrópu með fölsuðum skilríkjum frá afburðagóðum falsara í Belgíu.

François Hollande Frakklandsforseti viðurkenndi föstudaginn 18. mars að það hefði vakið undrun hve netið á bakvið hryðjuverkamannanna væri víðtækt. Laugardaginn 19. mars höfðu 18 menn sex löndum verið handteknir grunaðir um að hafa aðstoðað árásarmennina.

Franskir embættismenn hafa hvað eftir annað varað við því að hugsanlega yrðu fleiri hryðjuverkaárásir gerðar, ekki sé unnt að fylgjast með öllum Evrópumönnum sem ferðist til á frá yfirráðasvæði Ríkis íslams í Sýrlandi og Írak. Vestrænar leyniþjónustur meta stöðuna þannig að Ríki íslams hafi þegar búið um sig með fleiri leynilegum hópum í Evrópu.

Í frönsku skýrslunni er talið að árásin í París hafi verið tæp tvö ár í undirbúningi. Abdelhamid Abaaoud, stjórnandi hennar, hafi á þessum tíma staðið að ýmsum misheppnuðum árásum bæði til æfinga og til undirbúnings nýrri ofbeldisbylgju sem leiðtogar Ríkis íslams hafi hvatt til á meginlandi Evrópu og í Bretlandi.

Ibrahim Abdeslam, bróðir Salahs sem var handtekinn í Brussel, sprengdi sig í loft upp fyrir framan veitingastaðinn Comptoir Voltaire við Rue Voltaire í París. Hann notaði heimatilbúna sprengju m.a. úr háralit og naglalakkseyði sem má kaupa hvar sem er í Evrópu. Samskonar sprengjuleifar fundust á þremur stöðum við Stade de France leikvanginn, á tveimur stöðum við Bataclan-tónleikastaðinn og í íbúð í úthverfi Parísar. Er litið á þetta sem heimatilbúið sprengiefni Ríkis íslams. Það er ekki auðvelt að búa til svona sprengjur en lögregla segir að þessi fjöldi þeirra bendi til að menn hafi náð nokkurri leikni við það. Segja sérfræðingar hugsanlegt að Ríki íslams hafi komið á fót einskonar sprengjugerð.

Þá ert bent á að fram að árásinni í París hafi við allar árásir liðsmanna Ríkis íslams verið beitt einni aðferð: skotárás, sprengingu eða gíslatöku. Í París hafi öllum þessum aðferðum verið beitt samtímis. Markmiðið hafi meðal annars verið að umfang árásanna yrði meira en viðbragðskerfi lögreglu og yfirvalda þyldi.

Að kvöldi 13. nóvember átti franska lögreglan nóg með sprengingarnar við Stade de France og skotárásina á veitingastaðinn þegar hryðjuverkamennirnir réðust á Bataclan-tónleikahúsið og tóku hundruð manna í gíslingu.

Athygli vekur að hryðjuverkamennirnir hrifsuðu farsíma af gíslum sínum og reyndu að nota þá til að komast í netsamband, það tókst ekki því samband við staðinn hafði rofnað. Þessa notkun á farsímum telur lögreglan sýna að hryðjuverkamennirnir hafi mótað sér nýjar reglur til að hylja slóð sína. Í málum sem komið hafa fyrir dómstóla í Evrópu á árunum 2014 og 2015 kemur fram að lögregla hafi getað rakið ferðir og tengsl hryðjuverkamanna með athugun á farsímum þeirra. Hóparnir þrír í París notuðu hins vegar aðeins nýja síma sem þeir fleygðu síðan, sumir þeirra voru aðeins notaðir nokkrum mínútum fyrir árásirnar, eða síma fórnarlamba sinna.

Þegar unnið var við að flytja lík látinna úr Bataclan-tóneikahúsinu fann lögregla hvítan Samsung-síma í ruslatunnu utan við húsið.

Síminn var með belgísku SIM-korti sem aðeins hafði verið virkt frá því daginn fyrir árásina. GPS-hnit í símanum leiddu lögregluna í rúmlega 10 km fjarlægð í suður frá Bataclan til úthverfisins Alfortville. Heimilisfangið var á hótelinu Appart’City. Þar voru tvö herbergi skráð á Salah Abdeslam, þann sem handtekinn var á föstudaginn. Svo virðist sem Salah og bróðir hans Ibrahim hafi gist þarna og Salah verið einskonar birgðavörður hópsins.

Það sem rekja hefur mátt af símtölum og netsamskiptum leiðir rannsakendur allt til Belgíu og grunar lögreglu að þar hafi verið nokkrir menn í bakhópi til stuðnings þeim sem voru á vettvangi, þessir menn hafa ekki enn fundist.

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …