
Fyrir nokkrum dögum (24. febrúar) var fjallað um nýja tegund af frönskum hátækniárásarkafbátum hér á vefsugerc33.sg-host.com Hér verður fjallað um nýja japanska kafbáta. Heimildin er enn á ný vefútgáfa National Interest, tímarits sem fjallar um öryggismál.
Í upphafi greinarinnar kemur fram að Japanir hafi lært tvennt af seinni heimsstyrjöldinni. Fyrra atriðið (og það mikilvægara) hafi verið að ana ekki út í styrjöld og það hafa Japanir blessunarlega tileinkað sér. Síðara atriðið snýst um mikilvægi öflugs varnarflota. Japan er ekki auðugt af náttúruauðlindum og landbúnaðarland er af skornum skammti. Japanir þurfa því að flytja inn flestar nauðsynjavörur. Þetta nýttu bandamenn sér í heimsstyrjöldinni og hafnbann þeirra dró mjög úr mætti þjóðarinnar. Lendi Japanir í átökum í framtíðinni er því mikilvægt fyrir þá að hafa öflugar varnir á sjó.
Kafbátaflotinn
Þar á meðal eru kafbátar. Í grein National Interest kemur fram að Japanir eigi tuttugu og tvo kafbáta, það er einn stæsta flota þeirra í heimi. Japanir smíða sjálfir kafbátana og skipta þeir þeim út á um tveggja áratuga fresti. Hönnun hverrar gerðar tekur mið af þeirri sem kom næst á undan. Þannig eru núverandi Soryu kafbátar hannaðir á grunni Oyashio gerðarinnar en enn eru flestir bátanna af þeirri tegund í notkun.
Við hönnun Soryu kafbátanna var þess gætt að sjálfvirkni um borð yrði sem mest. Því eru aðeins 65 sjóliðar á hverjum báti. Til samanburðar voru 75 sjóliðar um borð í kafbátum af Harushio gerð sem japanski flotinn notaði á árunum 1990 – 2017. Ýmis önnur hátækni er um borð í Soryu bátunum Þannig geta þeir kafað djúpt en að sama skapi þykja þeir hentugir á grunnsævi. Hljóðsjá þeirra er fullkomin og úr þeim má bæði skjóta tundurskeytum og skutulsflaugum (e. Harpoon missiles) sem ætlað er að granda skipum. Jafnframt má nota bátana til að leggja tundurduflum. Varnarkerfi bátanna er einnig öflugt. Besta vörnin flest reyndar líklega í því að þeir þykja mjög hljóðlátir. Samkvæmt greininni í National Interest er þó helsti kostur Soryu bátanna sá hversu hraðskreiðir þeir eru. Sé þeim siglt á yfirborði sjávar komast þeir um 25 kílómetra á klukkustund en neðansjávar tæplega 40 kílómetra.
Góð söluvara?
Soryu bátarnir eru ekki alfullkomnir. Helsta gagnrýnin er að þeir dragi ekki jafn langt og ýmsir aðrir kafbátar. Bátarnir sem knúnir eru díselvél komast um 12.000 kílómetra í hverri ferð. Þetta er ekki vandamál vegna báta sem er aðeins ætlað að verja japönsku heimaeyjarnar. Japanir hafa hins vegar áhuga á að selja kafbátana til annarra landa og þau setja takmarkaða drægni bátanna fyrir sig. Nefna má Ástrali í þessu sambandi. Líkt og minnst var á í greininni sem birtist á vefsugerc33.sg-host.com 24. febrúar þá ákváðu þeir fyrir nokkru að skipta út árásarkafbátum sínum. Til greina kom að fá japanska kafbáta í staðinn. Stjórnvöld í Canberra höfnuðu þeim hins vegar þar sem ekki gengur fyrir afar stórt eyríki í sunnanverðu Kyrrahafinu að eiga kafbáta sem ekki komast afar langt. Þess í stað völdu Ástralir franska báta af Shorfin-barracuda gerð.
Höfundur:
Kristinn Valdimarsson