Home / Fréttir / Japanski forsætisráðherrann í Kyív – Kínaforseti í Moskvu

Japanski forsætisráðherrann í Kyív – Kínaforseti í Moskvu

Japanski forsætisráðherrann heiðrar fallna í Butsja í Úkraínu.

Fumio Kishida, forsætisráðherra Japans, kom óvænt í heimsókn til Úkraínu snemma morguns þriðjudaginn 21. mars. Nokkrum klukkustundum eftir að Xi Jinping Kínaforseti hóf þriggja daga opinbera heimsókn til Moskvu. Fréttaskýrendur segja tímasetningu heimsóknar japanska ráðherrans minna á að  grunnt sé á því góða milli Kínverja og Japana, keppinauta á Kyrrahafssvæðinu.

Kishida heimsótti kirkjuna í Butsja, útborg Kyív, þar sem Rússar frömdu stríðsglæpi. Butsja er tákn fyrir grimmd rússneskra hermanna í garð almennra borgara. Minntist Kishida látinna með því að leggja blómsveig á gröf þeirra.

„Ég er orðlaus yfir þessari grimmd. Ég kem fram fyrir hönd japanskra borgara og votta þeim samúð sem týndu lífi,“ sagði ráðherrann.

Honum var innilega fagnað af Úkraínustjórn sem þakkaði fyrir þessa „staðfestingu á samstöðu“.

Japanir fara nú með formennsku í G7-ríkjahópnum. Leiðtogafundur hans verður í Japan í maí og vildi Kishida meðal annars búa sig undir fundinn með því að kynnast sjálfur ástandinu í Úkraínu. Japanir hafa harðlega fordæmt innrás Rússa og segja hana freklegt brot á alþjóðalögum.

Í japönsku ríkissjónvarpsstöðinni NTV mátti sjá Kishida í lest á leið frá Póllandi til Kyív. Nokkrum klukkustundum áður hafði hann átt fund með Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, og þar á undan braut hann blað í samskiptum Japana og Suður-Kóreumanna þegar hann hitti Yoon Suk Yoel, forseta Suður-Kóreu.

Japanir deila bæði við Rússa og Kínverja um ráð yfir eyjum undan ströndum sínum. Þeim er því lítið um að náið samstarf sé milli stjórnanna í Moskvu og Peking. Herir Rússa og Kínverja hafa sameinast um heræfingar við Japansstrendur.

Japanir hafa veitt Úkraínumönnum meira en 7 milljarða dollara í aðstoð frá því að stríðið hófst og tekið á móti rúmlega 2.000 landflótta Úkraínumönnum. Þykir það sérstökum tíðindum sæta í landi þar sem mjög ströng útlendingalöggjöf gildir.

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …