
Neðri deild japanska þingsins samþykkti fimmtudaginn 16. júlí lagafrumvarp sem heimilar her Japans að taka þátt í hernaðaraðgerðum erlendis en bann við því hefur verið í gildi frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar.
Þingmenn samþykktu frumvarpið þrátt fyrir mikla andstöðu utan þings. Mótmæli almennings á götum úti í Japan eru hin mestu síðan reiðialda fór um samfélagið eftir kjarnorkuslysið í Fukushima fyrir fjórum árum.
Þingmenn stjórnarandstöðunnar sýndu andstöðu sína með útgöngu úr þingsalnum og þinghúsinu. Shinzo Abe forsætisráðherra barðist hart fyrir samþykkt alls 11 lagafrumvarpa sem heimila þessa stefnubreytingu í öryggismálum Japana. Bandaríkjastjórn hvatti eindregið til þessara breytinga.
Til þessa hefur hlutverk japanska hersins verið að verja föðurlandið gegn beinni árás, við aðrar aðstæður hefur verið óheimilt að beita japönsku hervaldi. Gagnrýndur breytinganna segja að í þeim felist brot á stjórnarskrá landsins og er meirihluti japanskra stjórnlagafræðinga þessarar skoðunar. Þeir benda á að í stjórnarskránni sé þátttöku í stríði hafnað.
Skoðanakannanir sýna að meirihluti þjóðarinnar er á móti breytingu á hlutverki hersins. Forsætisráðherrann segir hins vegar óhjákvæmilegt að bregðast við nýjum hættum sem steðja að Japan, einkum vaxandi hernaðarmætti Kínverja. Þá hefur hann minnt á að tveir japanskir gíslar hafi verið teknir af lífi af hryðjuverkamönnum Íslamska ríkisins í janúar 2015 og ef til vill hefði japanska hernum tekist að bjarga þeim hefði honum verið heimilt að láta að sér kveða.
„Þessi lög eru bráðnauðsynleg vegna þess að staða öryggismála Japans er að verða erfiðari,“ sagði Abe eftir að lögin höfðu hlotið samþykki.
Lögin voru samþykkt af þingmönnum Frjálslynda lýðræðisflokknum, mið-hægri flokki forsætisráðherrans, og lítils samstarfsflokks hans, Komeito, sem mynda meirihluta í fulltrúadeild þingsins, neðri deildinni. Frumvörpin fara nú til efri deildarinnar þar sem stjórnarflokkarnir hafa einnig meirihluta. Fari svo ólíklega að efri deildin hafni frumvörpunum getur neðri deildin tekið þau fyrir að nýju og hnekkt niðurstöðu efri deildarinnar.
Efri deild þingsins hefur 60 daga til að ræða málið og verður það því lifandi átakamál næstu daga og vikur sem kann að gefa andstæðingunum færi á að magna mótmæli sín.
Japanski herinn hefur til þessa verið kallaður Sjálfsvarnar herinn. Nýju lögin heimila honum að starfa nánar með Bandaríkjaher en frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar hafa Bandaríkjamenn haft umdeildar herstöðvar í Japan. Nú fær japanski herinn heimild til ýmissa stuðningsaðgerða við Bandaríkjaher og einnig til að taka þátt í hernaðaraðgerðum á alþjóðavettvangi við sérstakar aðstæður.
Gagnrýnendur nýju laganna meðal Japana óttast að vegna samþykktar þeirra kunni Japanir að dragast inn í hernaðaraðgerðir á borð við Írak-stríðið sem oft er nefnt af andstæðingum breytinganna sem víti til varnaðar.
Í lögunum segir að aðeins sé unnt að beita her Japans ef „lífi og tilvist japönsku þjóðarinnar“ sé ógnað. Gagnrýnendur segja að þetta sé of loðið orðalag.
Hernámsstjórn Bandaríkjamanna í Japan að lokinni síðari heimsstyrjöldinni setti landinu stjórnarskrá þar sem segir að japanska þjóðin hafni stríði að eilífu og jafnframt hótun um valdbeitingu til að leysa úr alþjóðlegum ágreiningi.
Kannanir meðal japanskra stjórnlagafræðinga sýna að meira en 90% þeirra telja nýju lögin brjóta gegn þessu ákvæði.
Óvíst er hvort ágreiningi um þetta verði skotið til dómstóla vegna þess að dómarar hafa almennt ekki talið sér heimilt að snúast gegn ákvörðunum stjórnvalda um öryggi ríkisins.
(Heimild The New York Times)