Home / Fréttir / Japan: Ólympíuleikarnir tapa fyrir kórónaveirunni

Japan: Ólympíuleikarnir tapa fyrir kórónaveirunni

200742847027120mb

Allt bendir til þess að ólympíuleikunum 2020 sem á að halda í Tókíó í Japan í sumar verði frestað. Sérfræðingar segja að efnahagslegt högg vegna þessa fyrir Japani sé tiltölulega lítið miðað við efnahagsáfallið vegna kórónaveirunnar. Heimsbyggðin öll og Japanir standi frammi fyrir stærra vandamáli en að fresta íþróttaviðburði.

Fjöldi þeirra sem sýkist vegna veirunnar vex jafnt og þétt og um 15.000 hafa látist af hennar völdum í heiminum öllum. Ekkert bendir til að dragi úr þunga útbreiðslunnar. Stöðugt eykst þrýstingur á Alþjóðaólympíunefndina (IOC) um að aflýsa eða fresta leikunum. Kannanir í Japan sýna að flestir aðspurðra Japana vilja að leikunum verði frestað í eitt eða tvö ár.

Í nokkra mánuði hafa IOC og ríkisstjórn Japans talað á þann veg að ekki standi til að hrófla við leikunum. Nú sjást þó merki um að þessi skoðun kunni að breytast. Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, sagði mánudaginn 23. mars á þingi að „ef til vill er ekki annað fyrir hendi en að íhuga frestun“. Svipuð sjónarmið heyrast innan IOC.

Ólympíuleikarnir (OL) eru ekki aðeins mesti íþróttaviðburður heims, efnahagsleg áhrif leikanna eru ekki síður mikil. Spurt er: Hve mikið verður höggið fyrir efnahag Japana?

Sérfræðingar segja að það verði ekki endilega mjög þungt. Að minnsta kosti ekki hlutfallslega sé litið til efnahagslegs áfalls Japana vegna kórónaveiruna.

„Sé búið til dæmi án kóróna-faraldursins hefði svona atburður haft verulega þýðingu,“ segir Stefan Angrick, sérfræðingur hjá Oxford Economics, við CNBC-sjónvarpsstöðina. „En við núverandi aðstæður þegar viðskipti ferðaþjónustu eru nánast engin og einkaneysla dregst saman verða áhrifin af því að fresta OL takmörkuð.“

Í fyrra komu 33 milljónir ferðamanna til Japans og spáð var að þeim mundi enn fjölga mikið. Hafa fjárfestingar í hótelum og öðru sem snertir ferðaþjónustu tekið mið af því. Nú sýna tölur að ferðamönnum fækkaði um 60% í febrúar og mars.

Þar að auki stefndi í óefni í japönskum þjóðarbúskap fyrir veiru-áfallið vegna þess að einkaneysla í landinu minnkaði ört. Þessi samdráttur eykst nú vegna veirunnar. Japanir fara ekki að heiman, fyrirtæki minnka starfsemi sína, heimsviðskipti hrynja og við blasir gríðarleg efnahagskreppa. Í þessu ljósi er frestun á OL í sumar aðeins dropi í hafið fyrir Japani að mati sérfræðinga.

 

Heimild: Jyllands-Posten

 

 

 

 

Skoða einnig

Spenna í Íran á eins ár minningardegi Amini sem lögregla myrti vegna skorts á höfuðslæðu

Íranir heima og erlendis minnast þess laugardaginn 16. september að eitt ár er liðið frá …