
Miklar hræringar eru í japönskum stjórnmálum þessa dagana. Í september síðastliðnum leystist stærsti stjórnarandstöðuflokkur landsins, Lýðræðisflokkurinn (Democratic Party), upp eftir að borgarstjóri Tokýó stofnaði nýjan flokk, Vonarflokkinn (Party of Hope). Margir úr Lýðræðisflokknum fóru yfir í hann en aðrir stofnuðu Lýðræðislega stjórnarskrárflokkinn (Constitutional Democratic Party of Japan) sem síðar tók höndum saman við Japanska jafnaðarmannaflokkinn og kommúnistaflokk Japans.
Forsætisráðherra landsins Shinzo Abe, formaður Frjálsra demókrata, ákvað að nýta sér glundroðann hjá stjórnarandstöðunni og boðaði til kosninga. Áætlun hans gekk eftir því í kosningunum sunnudaginn 22. október fengu stjórnarflokkarnir, Frjálslyndir og Baráttuflokkurinn gegn spillingu (Clean Government Party / Komeito) meira en tvo þriðju atkvæða í neðri deild þingsins.
Í kjölfar kosningasigursins lýsti forsætisráðherrann yfir því að fyrsta verkefni hans væri að fást við Norður – Kóreumenn sem hafa á undanförnum árum þróað skotflaugar sem geta náð til Japan. Að hans mati kallar það m.a. annars á að sá hluti stjórnarskrár landsins sem fjallar um varnir þess verði endurskoðaður.
Í stjórnarskránni, sem sett var eftir ósigur Japana í seinni heimsstyrjöldinni, er kveðið á um að landið skuli ekki hafa herafla sem geti háð styrjaldir. Japan er reyndar ekki herlaust en herafli þeirra gengur undir nafninu Sjálfsvarnarliðið (e:Self Defence Force) og ekki á að beita honum erlendi.
Nú telja hins vegar Abe og aðrir að vegna hættunnar sem stafar af Norður – Kóreu, aukins styrks Kína og einangrunarhyggju í Bandaríkjunum sé rétt að endurskoða varnir landsins. Kosningaúrslitin þýða að stjórn Abe ætti að geta komið stjórnarskrárbreytingu í gegnum þingið en jafnvel þótt það takist þá er björninn ekki unninn. Breytingun yrði síðan að leggja undir þjóðaratkvæði.
Varnarmál verða hitamál í Japan á næstu misserum enda vekja þau upp blendnar tilfinningar hjá íbúum landsins. Ýmsir nágrannar Japana sem muna framferði þeirra þegar þeir reyndu að koma á svokölluðu Hagsældarsvæði Austur – Asíu (e: Greater East Asia Co-Prosperity Sphere) sem var dulnefni á nýlendustefnu landsins í seinna stríði hafa líka áhyggjur af þeirri leið sem Japanir feta.
Höfundur:
Kristinn Valdimarsson