Home / Fréttir / Ítölskum höfnum lokað fyrir björgunarskipum hjálparsamtaka

Ítölskum höfnum lokað fyrir björgunarskipum hjálparsamtaka

Um borð í björgunarskipi á Miðjarðarhafi.
Um borð í björgunarskipi á Miðjarðarhafi.

Matteo Salvini, innanríkisráðherra Ítalíu, tilkynnti föstudaginn 29. júní að í „allt sumar“ yrðu ítalskar hafnir lokaðar fyrir öllum skipum hjálparsamtaka sem sinna björgunarstörfum á siglingaleiðum yfir Miðjarðarhaf frá Afríku til Evrópu.

„Hjálparsamtökin sjá Ítalíu aðeins á póstkorti,“ sagði Salvini. Hann er nýr varaforsætisráðherra Ítalíu og leiðtogi Bandalagsins sem skipar sér langt til hægri.

Hann sagði að hafnirnar yrðu ekki aðeins lokaðar heldur yrði einnig bannað að selja skipum hjálparsamtakanna olíu.

„Ítalski herinn segir mér og raunar Líbíumenn einnig að hjálparsamstökin aðstoði smyglara á fólki, hvort sem það er vísvitandi eða ekki,“ sagði Salvini. Hann sagði jafnframt að ítalska ríkið myndi ásamt öðrum ríkjum „halda áfram að bjargar öllum sem þyrftu á björgun að halda“.

Ráðherrann sagði einnig í viðtali við ítalska ríkisútvarpið RAI: „Erlend hjálparsamtök með erlendum áhöfnum undir erlendu flaggi á kostnað erlendra stofanana munu ekki framar stíga fæti á ítalskt land.“

Hann vísaði til fundar leiðtogaráðs ESB sem aðfaranótt föstudags 29. júní samþykkti að breyta um stefnu ESB í útlendingamálum og taka mið af kröfu Ítala:

„ESB hefur loks verið neytt til að samþykkja rökin að baki tillögu Ítala. Fjöldi krafna okkar hefur verið samþykktur. Ítalía er að losna úr einangrun sinni og gegnir nýju hlutverki.“

Samtökin Læknar án landamæra saka ESB um að lítilsvirða mannslíf:

„ESB-ríkin hlaupast undan skyldum sínum um að bjarga mannslífum og dæma af ásetningi fólk í viðkvæmri stöðu til að dveljast innilokað í Líbíu eða týna lífi á hafi úti,“ sagði Karline Kleijer, forstöðumaður neyðarhjálpar læknasamtakanna í yfirlýsingu föstudaginn 29. júní. „Þetta gera þau þótt þau viti um ógnar ofbeldið og harðræðið sem flótta- og farandfólk býr við í Líbíu.“

Flestir þátttakendanna í leiðtogaráðsfundi ESB fögnuðu nýja samkomulaginu. „Við verndum betur, vinnum meira saman og áréttum grundvallarsjónarmið okkar,“ sagði Emmanuel Macron Frakklandsforseti að morgni föstudags 29. júní. Hann sagði á Twitter: „Andspænis krísunni vegna flótta- og farandsfólks stendur Evrópa undir sögulegri arfleifð sinni.“

Sebastian Kurz, kanslari Austurríkis, fagnaði samkomulaginu: „Í fyrsta sinn höfum við náð samkomulagi um flóttamannamiðstöðvar utan ESB … það er stórt skref. Takist okkur að tryggja að fólk komi ekki til Evrópu bindum við enda á smygl á því og fækkum til mikilla muna flóttamönnum sem koma til Evrópu. Miklu skiptir að þetta verði framkvæmt fljótt,“ hefur AFP-fréttastofan eftir Kurz.

Visegrad-ríkin svonefndu (V4-ríkin), Pólland, Ungverjaland, Slóvakía og Tékkland, fagna sigri: „Í fjögur ár var talað um kvóta og nú talar enginn um þá lengur. Þetta voru mikil átök, V4-ríkin voru einhuga og við náðum takmarki okkar. Það er mikill árangur,“ sagði Andrej Babis, forsætisráðherra Tékklands.

Þá skýrðu þýsk yfirvöld frá því föstudaginn 29. júní að þau hefðu samið við stjórnvöld á Grikklandi og Spáni um að taka aftur við farandfólki sem hefði verið skráð í þessum löndum og þar með stuðla að lausn deilunnar innan þýsku ríkisstjórnarinnar milli Angelu Merkel kanslara og Horsts Seehofers innanríkisráðherra.

„Grikkir og Spánverjar eru tilbúinir til að taka við hælisleitendum sem verða framvegis greindir af þýskum yfirvöldum við landamæri Þýskalands og Austurríkis og sem skráðir hafa verið í Eurodac-kerfið í þessum ríkjum,“ sögðu þýsk stjórnvöld. Eurodac er Schengen-gagnagrunnur fingrafara.

 

Heimild: TheLocal.it

 

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …