Home / Fréttir / Ítölsku uppnámsflokkarnir tilnefna lagaprófessor sem forsætisráðherra

Ítölsku uppnámsflokkarnir tilnefna lagaprófessor sem forsætisráðherra

 

Giuseppe Conte
Giuseppe Conte

Uppnámsflokkarnir á Ítalíu, Fimmstjörnuhreyfingin (M5S) og Bandalagið, hafa tilnefnt Giuseppe Conte sem forsætisráðherra í næstu ríkisstjórn landsins sem flokkarnir styðja. Líklegt er að ríkisstjórnin leitist við að skapa Ítölum, einni af sex stofnþjóðum Evrópusambandsins, sérstöðu innan sambandsins.

Giuseppe Conte er 54 ára lagaprófessor og nýgræðingur í ítölskum stjórnmálum. Hann er ættaður frá Puglia einu af suðurhéruðum Ítalíu. Hann hefur aldrei náð kjöri á þing en er hallur undir sjónarmið M5S.

Verði ríkisstjórnin mynduð og fylgi hún boðaðri stefnu í ríkisfjármálum brýtur hún gegn samþykktum ESB um skuldsetningu aðildarríkjanna – ríkisskuldir Ítalíu hækka enn og fara upp fyrir umsamin og sáttmálabundin mörk.

Í stjórnarsáttmálnum er gert ráð fyrir mánaðarlegum lágmarkslaunum  sem nema 780 evrum (96 þús. ísl. kr.) fyrir þá sem eru undir fátæktarmörkum. Gert er ráð fyrir flötum 15% skatti á einstaklinga og 20% á fyrirtæki. Reglur um brottflutning farandfólks verða hertar og lögð verður áhersla á viðræður við Rússa um efnahags- og utanríkismál.

Hagkerfi Ítalíu er þriðja stærsta innan evru-svæðisins. Opinberar skuldir ríkisins nema yfir 130% af vergri landsframleiðslu, hlutfallið er einungis hærra á Grikklandi. Hagfræðingar og ráðamenn ESB óttast að skuldir Ítala vaxi enn frekar vegna eyðslustefnu ríkisstjórnarinnar. Þá stangast ítalska stjórnarstefna gagnvart Rússlandi á við stefnu ESB auk þess er stefna Bandalagsins um Ítalíu í fyrsta sæti er á svig við ESB-aðild Ítalíu.

Fimmstjörnu-hreyfingin var stofnuð árið 2009 af gamanleikaranum Beppe Grillo. Stjörnunar fimm í heitinu eru: opinberar vatnsveitur, umhverfisvernd, sjálfbærar samgöngur, sjálfbær þróun og réttur til netaðgangs. Hreyfingin styður einnig beint lýðræði og berst gegn neysluhyggju og kapítalisma.

Bandalagið er samfylking nokkurra svæðisbundinna flokka í norður- og miðhluta Ítalíu. Flokkurinn hét Lega Nord, Norðurbandalagið, þar til í desember 2017. Bandalagið vill harða stefnu í útlendingamálum til að hefta komu innflytjenda til Ítalíu og vill einnig stemma stigu við að fólk flytjist frá fátæka suðurhluta Ítalíu til ríka norðurhlutans.

Giuseppe Conte fæddist árið 1964 í smáþorpinu Volturara Appula í Puglia. Fyrir þingkosningarnar 4. mars sl. kynnti Luigi Di Maio, leiðtogi M5S, Conte sem hugsanlegan ráðherra í stjórn flokksins að loknum kosningunum. Hlutverk hans yrði að grisja alræmt skriffinnskubákn ítalska ríkisins. Þá fyrst fékk almenningur kynni af nafni prófessorsins í pólitísku samhengi en hans var aldrei getið í tengslum við stjórnarmyndunarviðræðurnar að kosningunum loknum.

Í ferilsskráð Contes er þess getið að hann hafi stundað rannsóknir við nokkra af virðulegustu háskólum heims, þ. á m. Cambridge, Sorbonne og New York City University.

Hann heldur úti aðstöðu fyrir lögfræðilega ráðgjöf í Róm, kennir einkamálarétt í Flórens og við Luiss-háskólann í Róm. Hann hefur setið í stjórn Geimstofnunar Ítalíu, veitt viðskiptaráðinu í Róm ráðgjöf og setið í ýmsum slitastjórnum á vegum ýmissa tryggingarfélaga.

 

 

 

 

Skoða einnig

Rússar ráðast á barnaspítala í Kyiv

Rússar gerðu flugskeytaárás á helsta barnaspítalann í Kyiv mánudaginn 8. júlí. Að minnsta kosti 22 …