Home / Fréttir / Ítök Schröders fyrrv. kanslara aukast enn í rússnesku viðskiptalífi

Ítök Schröders fyrrv. kanslara aukast enn í rússnesku viðskiptalífi

Valdimír Pútin og Gerhard Schröder.
Valdimír Pútin og Gerhard Schröder.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hóf formlega baráttu fyrir sambandsþingkosningarnar eftir sex vikur í Dortmund laugardaginn 12. ágúst. Merkel hefur setið í kanslaraembættinu síðan 2005 þegar hún sigraði Gerhard Schröder, kanslara jafnaðarmanna (SPD). Síðan hefur Schröder starfað fyrir Rússa og Vladimír Pútin Rússlandsforseta og varð nýlega stjórnarmaður í rússneska risaorkufyrirtækinu Rosneft.

Í ákvörðun rússneskra stjórnvalda sem kynnt var síðdegis föstudaginn 11. ágúst segir að Schröder verði stjórnarmaður í Rosneft sem er að meirihluta eign rússneska ríkisins. Var jafnframt ákveðið að fjölga stjórnarmönnum úr níu í 11.

Forstjóri Rosneft er Igor Setsjín, bandamaður Vladimírs Pútins. Hann var varaforsætisráðherra Rússlands til ársins 2012. Rosneft var beitt vestrænum refsiaðgerðum eftir að Rússar innlimuðu Krímskaga árið 2014. Schröder hefur snúist opinberlega gegn þessum refsiaðgerðum í garð fyrirtækisins.

Í ræðu sem Schröder flutti á þingi þýskra jafnaðarmanna (SPD) í júní sagðist hann ekki vera andstæðingur Bandaríkjanna. Hann sagði hins vegar: „Það verður að gagnrýna opinberlega og af hörku það sem gerist í Bandaríkjunum.“ Schröder gegnir ekki lengur neinu opinberu hlutverki innan flokksins.

Á lokadögum sjö ára setu sinnar sem kanslari, í september 2005, ritaði Schröder undir samning við Pútin um Nord Stream gasleiðsluna sem liggur um Eystrasalt frá Rússlandi til Þýskalands. Nú er á döfinni að leggja Nord Stream II leiðslu.

Eftir að Angela Merkel sigraði í kosningunum 2005 og tók við af Schröder sem kanslari haslaði hann sér völl í viðskiptalífi Rússlands sem formaður hluthafastjórnar Nord Stream AG í desember 2005. Hann hafði sem slíkur yfirumsjón með lagningu gasleiðslunnar milli Rússlands og Þýskalands. Með því að taka sæti í stjórn Rosneft færist hann til enn meiri áhrifa í rússnesku viðskiptalífi.

Nord Stream AG er dótturfyrirtæki Gazprom, helsta gasframleiðanda Rússlands sem einokar útflutning um gasleiðslur frá Rússlandi. Þótt tæknilega sé litið á Gazprom sem einkafyrirtæki er það að meirihluta í eigu rússneska ríkisins.

Gerhard Schröder varð 70 ára árið 2014, árið sem spenna magnaðist mjög milli stjórnvalda Rússlands og Vesturlanda vegna Úkraínudeilunnar. Hann fagnaði stórafmæli sínu þá í St. Pétursborg þar sem Vladimír Pútín var meðal gesta í boði Nord Stream AG.

Heimild: dw.de

Skoða einnig

Drónaárás gerð á Moskvu

Ráðist var með drónum á Moskvu, höfuðborg Rússlands, að morgni þriðjudags 30. maí. Svo virðist …