
Um þessar mundir sinna sex ítalskar herflugvélar á vegum Atlantshafsbandalagsins loftrýmisgæslu hér við land. Í ár er liðinn áratugur síðan bandalagið varð við ósk ríkisstjórnar Íslands um slíka gæslu en hún var sett fram í kjölfar þess að Varnarliðið hvarf af landi brott árið 2006.
Ekki er um varanlega gæslu að ræða en herflugvélar frá bandalagsríkjum koma hingað til lands að meðaltali þrisvar sinnum á ári í þrjár til fjórar vikur í senn. Á þeim tæplega tíu árum sem loftrýmisgæslu hefur verið sinnt við Ísland hafa 27 flugsveitir komið hingað til lands frá níu bandalagsríkjum.
Sögu loftrýmisgæslu á vegum NATO má rekja aftur til sjöunda áratugarins en þá áttuðu aðildarríkin sig á því að ein og sér gætu þau ekki haldið uppi skilvirkum loftvörnum innan lofthelgi ríkjanna. Í kjölfarið var sameiginlegt loftvarnarkerfi bandalagsríkjanna skipulagt og það hefur verið einn af hornsteinum samvinnu aðildarríkjanna síðan.
Auk Íslands geta sex önnur bandalagsríki, Albanía, Lúxemborg, Slóvenía og Eystrasaltsríkin þrjú, ekki sinnt gæslu í sinni eigin lofthelgi og því sjá önnur ríki bandalagsins um hana fyrir þau.
Eftir að Rússar og Úkraínumenn fóru að deila árið 2014 hefur loftrýmisgæsla NATO verið aukin við austurlandamæri bandalagsins
Hægt er að fylgjast með aðgerðum þeirra sem vinna við loftrýmisgæslu NATO á vefslóðinni: https://www.airn.nato.int
Höf. Kristinn Valdimarsson