Home / Fréttir / Ítalska mannvirkjafyrirtækið Atlantia liggur undir gagnrýni vegna Genúa-slyssins

Ítalska mannvirkjafyrirtækið Atlantia liggur undir gagnrýni vegna Genúa-slyssins

Hér má sjá leifar af brúnni í Genúa.
Hér má sjá leifar af brúnni í Genúa.

Ítalska fyrirtækið Atlantia heldur utan um rekstur á mörgum gjaldskyldum vegum og flugvöllum. Fyrirtækið hefur fært hratt út kvíarnar á alþjóðavettangi og er meðal stærstu fyrirtækja heims sem annast umsýslu innviða. Um helmingur hraðbrauta Ítalíu er hluti af fyrirtækinu og vegna hruns brúarinnar miklu í Genúa þriðjudaginn 14.

ágúst sem kostað hefur að minnsta kosti 39 manns lífið er framtíð Atlantia í hættu. Tólf mánaða neyðarástandi hefur verið lýst í borginni.

Megineign félagsins er hraðbrautafyrirtækið á Ítalíu, Autostrade per l’Italia. Atlantia segir að þetta undirfyrirtæki sitt reki beint 2.855 km af greiðsluskyldum hraðbrautum Ítalíu og 165 km í gegnum fimm undirfyrirtæki, þar með A10 hraðbrautina sem á brú yfir Genúa en hluti hennar hrundi þriðjudaginn 14. ágúst.

Luigi Di Maio, leiðtogi Fimmstjörnu-hreyfingarinnar og varaforsætisráðherra, sagði miðvikudaginn 15. ágúst „að koma hefði mátt í veg fyrir“ harmleikinn og ekki væri neinn vafi á að við

Autostrade per l’Italia væri að sakast vegna skorts á viðhaldi.

Ítalska ríkisstjórnin sagðist ætla að sekta fyrirtækið um 150 milljón evrur og svipta það rekstrarleyfi. Fyrst yrði kannað hvort heimilt væri að svipta fyrirtækið leyfi vegna A10 hraðbrautarinnar og síðan yrði litið til leyfa á öðrum leiðum.

Atlantia sagði á vefsíðu sinni að fyrirtækið hefði varið 11,4 milljörðum evra til að bæta 923 km af hraðbrautum Ítalíu og biði heimildar yfirvalda til að leggja hringleið umhverfis Genúa.

Atlantia er sögulega nátengt fyrirtækinu Autostrade per l’Italia sem var einkavætt árið 1999 og dró að sér fjárfesta, þar með Benetton-fyrirtækið. Árið 2003 var rekstur vega skilinn frá öðrum rekstri og eignarhaldsfélag stofnað sem síðar var nefnt Atlantia og skráð í kauphöllinni í Mílanó.

Alls stendur Atlantia að rekstri hraðbrauta sem eru meira en 5.000 km langar í Brasilíu, Síle, Indlandi og Póllandi. Fyrirtækið rekur einnig Mont Blanc-göngin og varð nýlega stærsti hluthafi í Getlink sem rekur Ermarsundsgöngin.

Nýlega hóf Atlantia samstarf við þýsk-spænska fyrirtækið Hochtief-ACS til að kaupa spænska fyrirtækið Abertis fyrir 18.2 milljarða evra. Abertis segist vera stærsta vegafyrirtæki í heimi með 8.600 km af gjaldskyldum vegum undir í 15 löndum. Atlantia mun eiga 50% auk eins hlutabréfs í samsteypunni sem eignast Abertis.

Ítalska fyrirtækið hóf flugvallarekstur árið 2013 með samningum um flugvellina tvo við Róm, Fiumicino og Ciampino. Árið 2016 stofnaði Atlantia til samstarfs við franska raforkufyrirtækið EDF og keypti 60% hlut franska ríkisins í flugvöllunum í Nice, Cannes og Saint-Tropez.

 

Heimild: Local.it

Skoða einnig

Tortryggni í garð Moskvuvaldsins vex í gömlu Sovétlýðveldunum

Stuðningur við forsystusveit Rússlands hefur hrapað í nágrannalöndum landsins. Íbúar landanna eru tortryggnir í garð …