Home / Fréttir / Ítalska lögreglan afhjúpar hryðjuverkahóp og smyglara á fólki

Ítalska lögreglan afhjúpar hryðjuverkahóp og smyglara á fólki

Canary Warf í London meðal hugsanlegra skotmarka hryðjuverkamanna.
Canary Warf í London meðal hugsanlegra skotmarka hryðjuverkamanna.

 

Hópur hryðjuverkamanna í tengslum við Ríki íslams (RÍ) hefur nýtt sér leiðir farandfólks inn í Evrópu til að undirbúa hryðjuverkaárásir í Bretlandi segir í The Daily Telegraph (DT) miðvikudaginn 11. maí. Blaðið vitnar í heimildir innan lögreglunnar og segir að Theresa May innanríkisráðherra hafi gefið fyrirmæli um að herða gæslu undan ströndum Bretlandseyja.

Menn í hópnum tóku myndir af skotmörkum í London, þar á meðal hótelum, veitingastöðum, heilsuræktarstöðvum. Þeir kunna hafa ætlað að smygla fólki til Englands um frönsku hafnarborgina Calais. Þar skammt frá er franska opið á göngunum undir Ermarsund til Englands.

Upp komst um áætlanir mannanna eftir að tveir Afganar og Pakistani voru handteknir á Ítalíu þriðjudaginn 10. maí. Þeir höfðu fengið hæli á Ítalíu sem DT segir að hafi veitt þeim heimild til að fara frjálsir ferða sinna um Schengen-svæðið. Bretland er utan Schengen.

Talið er að mennirnir þrír séu í fimm manna hópi sem hefur verið til rannsóknar vegna grunsemda um hættuleg áform hans. Að minnsta kosti einn úr hópnum var í London í desember 2015. Hugsanlega í leit að heppilegum skotmörkum.

DT segir að Theresa May hafi ákveðið að auka strandgæslu við Bretlandseyjar af vaxandi ótta við að farandfólk reyni að laumast til Bretlands um litlar hafnir á strönd Kent í Suður-Englandi. Nú eru fjögur lítil strandgæsluskip að störfum við Bretland og segja sérfræðingar flotann of lítinn til að verja landið fyrir smyglurum á fólki.

Ítölsku lögregluna grunar að hópurinn sem nú hefur verið afhjúpaður hafi undirbúið árásir í Bretlandi, Frakklandi, Belgíu og á Ítalíu. Félagar í hópnum hafi einnig átt aðild að smygli á fólki auk þess að vera „stuðningsliðar“ hryðjuverkahóps með tengsl við Ríki íslams í Írak og fyrir botni Miðjarðarhafs.

Gulistan Ahmadzai, 29 ára, einn hinna handteknu, er talinn hafa verið á leið til Calais. Á mynd af öðrum úr hópnum, Hakim Nasiri, 23 ára, má sjá hann halda á sjálfvirkum riffli.

Í fórum mannanna fundust tæki með myndum af mannvirkjum í London eins og Sunborn Yacht Hotel í Royal Victoria Dock, South Quay göngubrúnni til Canary Wharf og Ibis-hóteli við Victoria Dock Road. Einnig voru myndir af flugvelli og höfn á Ítalíu og Colosseum í Róm auk hugsanlegra skotmarka í Frakklandi.

Roberto Rossi, ítalskur saksóknari, sagði á blaðamannafundi: „Það er ljóst að þetta eru ekki ferðamannamyndir. Þeir virðast hafa leitað að viðkvæmum stöðum.“

Í ítalska blaðinu La Repubblica er haft eftir öðrum ítölskum saksóknara, Giuseppe Drago: „Þeir höfðu í hyggju að vinna hryðjuverk á stjórnarbyggingum og hernaðarlegum mannvirkjum, opinberum stofnunum, alþjóðafyrirtækjum og almennum mannvirkjum. Þeir höfðu undir höndum vopn, myndir og myndskeið sem voru afrakstur rannsóknaferða þeirra vegna hugsanlegra skotmarka.“

Afgananna Qari Khesta Mir Ahmadzai og Surgul Ahmadzai, sem eru í hópnum, er enn leitað, þeir hafa hugsanlega snúið aftur til Afganistan.

Surgul Ahmadzai, 28 ára, var 9. desember 2015 í London og flaug þaðan til Bari á Ítalíu um Mílanó. Hann flaug tveimur dögum síðar til Parísar en sneri 15. desember aftur til Ítalíu. Frá Bari hélt hann síðan með Qari Khesta Mir Ahmadzai, 30 ára, fljúgandi til Istanbúl og þaðan til Kabúl.

Afganarnir Nasiri og Gulistan Ahmadzai voru báðir handteknir í Bari á Suður-Ítalíu þar sem Nasiri var enn í flóttamannabúðum. Hann fékk hæli á Ítalíu í fyrri viku en sá sem ákærður er með honum fékk hæli á Ítalíu árið 2011. Pakistaninn Zulfiqar Amjad, 24 ára, var handtekinn í Mílanó en hann bjó einnig í Bari.

Nasiri var handtekinn grunaður um hryðjuverk en Ahmadzai og Amjad voru sviptir frelsi vegna grunsemda um hlutdeild í smygli á fólki til Ítalíu.

 

 

 

 

Skoða einnig

Drónaárás gerð á Moskvu

Ráðist var með drónum á Moskvu, höfuðborg Rússlands, að morgni þriðjudags 30. maí. Svo virðist …